Er eitthvað athugavert við karlmennsku?
Kæri bróðir.
Já, ég er að ávarpa þig, lesandi. Ég veit að líkurnar á því að þú sért kynbróðir minn eru tveir á móti nokkur hundruð þúsund en þú ert samt bróðir minn. Og ef þú ert ekki karlkyns? Endilega lestu samt. Þetta bréf til bræðra minna er opið. Eins og tómið milli stjarna í alheiminum. Eins og bilið milli efniseinda í augum þínum. Stundum þurfa bræður nefnilega að eiga smá samtal.
Ég vil tala við þig um karlmennsku.
Ég skal vera skýr. Ég veit nefnilega að fólk er ekki alltaf neitt ofboðslega skýrt þegar það notar svona hugtök. Ég veit að þú býst við einhvers konar fyrirlestri varðandi klámnotkun þína eða offorshneigðir en ég hef ekkert slíkt í huga, bróðir. Nei, ég vil tala við þig um hvað orðið karlmennska þýðir, ef það þýðir eitthvað yfir höfuð. Og hvernig hægt sé að segja að hún sé eitruð.
Í einum skilningi er slíkt bersýnilega fáránlegt. Mannslíkami af karlkyni er, rétt eins og aðrir líkamar, listaverk sem guðirnir mega vera stoltir af og að fæðast sem slíkt kosmískt meistarastykki er ekkert annað en dásamlegt. Allar hvatir, tilhneigingar og tilfinningar sem leiða af því að búa yfir litningaparinu xy eru dans guðdómsins í holdinu og enginn með typpi hefur neitt náttúrulegt að skammast sín fyrir. Ef orðið karlmennska er notað yfir líffræðilegt kyn þá er hugtakið eitruð karlmennska borðleggjandi merkingarleysa.
Við fæddumst ekki eitraðir, bróðir, og ekkert mun nokkurn tíma geta eitrað náttúru þá sem við búum yfir. Hvað meinar fólk þá þegar það segir eitruð karlmennska? Og hlýtur þá ekki að vera til eitruð kvenmennska?
Að vera alvöru karlmaður þýðir ekki fyrst og fremst að vera með alvöru lim og pung heldur að gangast við því gildismati sem forréttindastaða karlkynsins krefst af manni.
Það er góð ástæða fyrir því að orðið kvenmennska hljómar fáránlega. Af því að karlmennskan sem getur orðið eitruð er ekki líffræðileg heldur menningarleg — listi yfir inngönguskilyrði í klúbbinn KARLMENN, klúbb sem hefur í aldanna raðir fengið að ráða, drottna og skilgreina. Það er ekki til nein kvenmennska af því að það var aldrei nein röð fyrir utan klúbb kvenkynsins. Þar var nefnilega engin forréttindi að fá. Að vera alvöru karlmaður þýðir ekki fyrst og fremst að vera með alvöru lim og pung heldur að gangast við því gildismati sem forréttindastaða karlkynsins krefst af manni.
Og þessi gildi eru ekkert öll eitruð heldur. Hvert í sínu lagi geta þau jafnvel verið jákvæð og uppbyggileg. Hver vill ekki vera sterkur og ákveðinn? Yfirvegaður verndari sem ákvarðar eigin örlög og lætur engan ráðskast með sig? Af hvaða kyni sem manneskja er þá hlýtur hún að samþykkja að þetta eru góðir mannkostir.
Vandinn er heildarsamhengið. Lífið er flóð og fjara. Innöndun og útöndun. Stundum er gott að vera sterkur og ákveðinn en stundum er betra að vera meyr og eftirlátur. Manneskja sem getur ekki bakkað með nokkurn skapaðan hlut og lætur aldrei neitt stöðva sig er eins og fruma sem hættir aldrei að skipta sér og dregur líkamann á endanum til dauða. Styrkur og ákveðni eiga sér sess í jafnvægi innan þeirrar líffræðilegu heildar sem heitir mannkynið — sem er aftur angi af þeirri heild sem nefnd er náttúran.
Með því að eigna sér þessa ósveigjanlegu eiginleika umfram annað fólk málaði karlkynið sig ekki bara út í horn heldur fór á mis við þá lífsfyllingu sem fylgir því að lifa í jafnvægi við náttúruna, jafnt utan við sig sem innra með sér. En ég veit, bróðir. Manni svíður undan alhæfingunni. Þegar talað er um eitraða karlmennsku er verið að setja hjartgóða karlmenn undir sama hatt og mansalshrotta og þjóðarmorðingja í nafni femínisma, eða hvað?
Nei, alls ekki.
Alhæfingin kemur ekki frá femínismanum. Hún er bökuð inn í gildismat karlmennskunnar. Hvað þurfum við þá að gera til að vera undanþegnir þessum eitrunarstimpli? Jú, ósköp einfaldlega að varpa karlmennskunni fyrir róða. Ekki hinni líkamlegu (nema einstaklingur hafi áhuga á slíkri aðgerð) heldur hinni menningarlegu. Þessari fáránlegu lygi að vissir mannkostir séu öðrum æðri og að eitt kyn sé öðrum æðra fyrir það að vera líklegra til að búa yfir þeim mannkostum.
Við vitum líka alveg hvenær við erum að njóta karlmannlegra eiginleika okkar á heilbrigðan hátt og hvenær við erum bara að láta eins og gangandi besefar og valda samfélaginu þrálátum rassverk. En stundum gleymum við hverjir við erum og látum plata okkur í að dansa eftir þessari ævafornu kóreógrafíu sem forfeður okkar sömdu handa okkur.
Ekkert er athugavert við þig, bróðir. Þú ert augasteinn hinnar eilífu dýrðar rétt eins og ég og allir aðrir sem þú hittir. Við vitum líka alveg hvenær við erum að njóta karlmannlegra eiginleika okkar á heilbrigðan hátt og hvenær við erum bara að láta eins og gangandi besefar og valda samfélaginu þrálátum rassverk. En stundum gleymum við hverjir við erum og látum plata okkur í að dansa eftir þessari ævafornu kóreógrafíu sem forfeður okkar sömdu handa okkur. Sumir gleyma sér oftar en aðrir og enn aðrir eru svo týndir í dansinum að þeir halda að hlutverkið karlmaður nái yfir alla verund þeirra. Þess vegna er þetta óþolandi góða fólk alltaf að tala um að vera woke.
Af því að það er það eina sem við þurfum að gera.
Vakna.
Vakna af værum svefni og draumórum um aðskilnað og drottnun.
Þinn bróðir,
Símon.
Athugasemdir