Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hvernig dirfistu?

Manstu eftir árinu 1998?

Kannski ertu of ung(ur).

Best að ég rifji aðeins upp tíðarandann á sautjánda aldursári mínu.

Topplagið í útvarpinu var eyrnamisþyrmingin One Week eftir hina smekklega nefndu froðusveit Barenaked Ladies, sálardrottningin Lauryn Hill virtist enn vera með fulla fimm og Bandaríkjaforsetinn Bill Clinton var sóttur til saka fyrir að hafa logið til um samfarir við Monicu nokkra Lewinsky. Hann sagðist ekki hafa haft „kynferðislegt samræði” við hana og varði þá staðhæfingu með því að fara í hártoganir á því hvað „kynferðislegt samræði” þýddi í hans huga. Og aðspurður um hvort staðhæfingin „það er ekkert í gangi á milli okkar” væri ósönn sagði hann að það færi eftir því hver skilgreining manna á orðinu „er” væri.

Já, andstæðingar hans voru að reyna að fella hann á tækniatriði; meinsæri um einkamál. Ekki er hægt að svipta mann embætti fyrir að halda framhjá eða dandalast með lærlingum. Það er ekki ólöglegt að vera lítilmenni. Skítalyktin af þeim misgjörðum áttu reyndar að snúa almenningi gegn forsetanum en það gekk ekki alveg eftir heldur. Sleipi Villi (eins og andstæðingar hans kölluðu hann) skrönglaðist undan aðförinni hressari en nokkru sinni fyrr og varpaði svo sprengjum á Serbíu eins og enginn væri morgundagurinn. Sem var reyndar raunin fyrir fimm hundruð Serba.

Til hvers að rifja þetta upp?

Af því að við festum okkur enn í sömu bjarnargildrunni.

Stjórnmálafígúrur rökræða ekki sannleika, hugsjónir eða réttlæti. Þær munnhöggvast um málatilbúnað. Hildir pólitíkurinnar eru háðir yfir þriggja fermetra tilfærslum í aðra hvora áttina undir hugmyndafræðilegu skýjaþykkni mýfrjálshyggjunnar. Þess vegna er ekkert hægt að rífast um stóru hugmyndirnar heldur bara hvaða orð við notum. 

Samfélagsumræðan litast öll af þessu. Þegar einhver lýsir því yfir að óæskilegt sé að of margir múslimar komi til landsins og honum er borið á brýn að hann sé rasisti þarf hann ekki að „taka umræðuna” um manngildi meðlima téðs samfélagshóps eða eigið rökleysi. Hann þarf bara að setjast í Clintons-sætið og bera því við að íslam sé ekki kynþáttur. Útlendingahatari? Íslam er ekki þjóðerni og ekki eru allir múslimar útlenskir þótt flestir séu það. Sömuleiðis ef maður talar um útlendingahræðslu eða hommafóbíu. Þá er bara hægt að segja: Ég er ekki hræddur, vanþóknun mín er ekki tilfinningastýrð.

Tæknilega séð ...

TÆKNILEGA SÉÐ ...

... er endalaust hægt að grauta fram og til baka varðandi orðanotkunina og forðast þannig að vera rekinn í vörðurnar.

Á þetta rak hún sig, þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez — bjartasta von bandaríska demókrataflokksins. Þegar hún lýsti óverjandi grimmd hins opinbera í garð innflytjenda við mexíkósku landamærin (sem sum okkar mótmæltu við komu Mikes Pompeio til landsins fyrr í vetur) sem einangrunarbúðum (e. concentration camps) fór megnið af púðri andstæðinganna ekki í að hrekja þær staðreyndir að fólkið í búðunum fengi hvorki sápu né tannkrem og væri sagt að drekka úr klósettinu. 

Nei, viðkvæði þeirra var einfalt, úthugsað og innihaldslaust:

Hvernig dirfistu?!

Verjendur Trumps báru því við að það væri ósmekklegt gagnvart fórnarlömbum lokalausnar Hitlers að nota orðalagið concentration camps; orðalag sem varð ekki til í síðari heimsstyrjöldinni og átti þar að auki fullkomlega við um landamærabúðirnar. Varnarliði Trumps, sem gerði enga athugasemd við hróp kyndilberandi nasista í Charlottesville fyrir tveimur árum, varð skyndilega ógurlega annt um gyðinga þriðjaríkisins þegar hægt var að nota minningu þeirra til að drepa umræðunni á dreif.

Trump sjálfur sagði AOC og þremur helstu samstarfskonum hennar í þinginu reyndar að fara bara heim til sín ef þeim líkaði ekki Bandaríkin (þær eru reyndar allar bandarískar en það er önnur saga) en verjendur hans eru klókari en hann.

Að flækja sig í orðaþras er leið okkar til að forðast innihaldsríka yfirferð yfir málefnin og því meira sem ég fylgist með stjórnmálaumræðu því sannfærðari verð ég um þetta. Við veljum okkur lið og styðjum þau út yfir allt siðferði og vitglóru. Menn verða sumir svo upprifnir yfir skætingi Trumps í garð lygapakksins í Washington að þeir líta framhjá því að hann er ekki bara enn þá verri lygari heldur enn þá grimmari. Aðrir verða svo foj út í appelsínurauðu hraðlestina til helvítis að þeir líta framhjá því að glórulaus þjónkun forvera Dónaldsins við auðstéttina lagði teinana fyrir hann.

Og gamla klisjan um að ekki megi nota nein orð sem voru notuð á tímum nasistanna er úr sér gengin, ef hún hefur einhvern tíma verið gild. Sú aðfinnsla Orwells að orðið fasisti glati merkingu sinni ef maður notar það yfir alla pólitíska andstæðinga sína er góð og gild. En það þýðir ekki að maður eigi að varast að kalla menn fasista sem bera lof á einræðisherra og eru berorðir í að flokka fólk sem ýmist æskilegt eða óæskilegt eftir þjóðerni, trúarbrögðum eða húðlit, og góla jafnvel upp yfir sig að gyðingar séu að reyna að skipta hvítu fólki út fyrir minnihlutahópa.

Svo ég noti nú orðalag geðþekka Þýðverjans Eckharts Tolle þá skulum við ekki festast á sviði orðanna. Þau eru verkfæri. Notum þau til að grafa eftir sannleikanum, ekki til að róta í skít.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni