Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Í alvöru? Þessi gaur?

Í alvöru? Þessi gaur?

Jæja, ríkisstjórnin kom með útspil til að lægja moldviðrið yfir O3 — tillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá með örlítið útvötnuðu orðalagi — og Rúv varð auðvitað að fá að bera það undir andstæðinga orkupakkans. Hver varð fyrir valinu?

Nei, í alvöru? Þessi gaur?

Nú hefur hoho-flokkurinn sett sig upp á móti O3 og SDG er formaður þess flokks en hefði ekki verið hægt að fá einhvern annan úr hesthúsunum? Einhvern sem hefur ekki gert sig sekan um eign á aflandsfélagi, gúdderingu viðurstyggilegrar hatursorðræðu og hefnigjörnum lögsóknum gegn uppljóstrara? Væri kannski hægt að ræða við einhvern af andstæðingum O3 sem hefur eitthvað fyrir sér annað en noju út í Brussel og hálfbakaðar samsæriskenningar með þjóðernisrembing í deiginu? Þeir eru nefnilega til.

Nei, við þurftum enn og aftur að horfa framan í þetta andlit. Andlit sem ætti fyrir löngu að vera horfið af sjónarsviðinu. Andlit manns sem ber enga virðingu fyrir sannleikanum og næði ekki upp í lágmarks siðferði þótt hann fengi að nota trampólín. Það er ekkert sem segir að Rúv, eða nokkur annar miðill, verði að bjóða honum í viðtöl. Ljóst er að ekki er hægt að vísa honum eða hinum Klausturpésunum af þingi en orð hans ættu ekki að birtast í neinu öðru riti en Alþingistíðindum.

Punktur.

„En allt sem hann segir er svo fréttnæmt af því að hann er svo mikið ólíkindatól — svo edgy og geggjaður,” heyri ég ímyndaðan andmælanda segja. Svar mitt er: „Og hvað með það?” 

Er enginn annar en ég orðinn þreyttur á því að samfélagsumræðan hverfist svona um valdatafl og öfgablaður? Eins og Krúnuleika-þáttaröð þar sem Joffrey konungur fær alltaf að halda ræðu í lokin til varnar viðhorfum sínum og gjörðum og situr sem fastast í járnhásætinu? 

Við erum ekki ein um að láta myndavélarnar rúlla þegar svona menn fara að japla og jamla og jórtra um hugðarefni sem snúast alltaf á endanum um þeirra eigið egó. Í Bandaríkjunum fékk einn slíkur frambjóðandi skjátíma að andvirði rúmra fimm milljarða dollara af því að allt sem hann sagði var bara svo krassandi. Það var ekki lítill þáttur í því að hann náði kjöri. Fjölmiðlarnir bera hér þunga sök en auðvitað má ekki gleyma því að hinum megin við skjáinn var almenningur; fólk sem vildi heyra í þessum appelsínugula trúð troða öll lýðræðis- og siðferðisnorm undir fótum.

Það er svo gott sjónvarp.

Hvorum er þá um að kenna? Fjölmiðlum eða samfélaginu í heild? Til að svara þessu þarf að grípa til líkingar. Fólk borðar of mikinn sykur. Það er að hluta til vegna þess að bragðlaukar mannskepnunnar fagna sykri eins og auðnutittlingsungar í hreiðri fagna mömmu sinni. En það hefur líka með það að gera að sykri er troðið í næstum allar matvörur og varningur úr þessari sætu leðju er auglýstur eins og hann sé lausn allra vandamála manns — reddi manni kærasta/kærustu, komi manni yfir lofthræðsluna og geri mann jafnvel góðan í fótbolta. Þetta á ekki síður við um gervisykur.

Á sama hátt svala fjölmiðlar löngun sem er þegar til staðar (löngun eftir því að verða vitni að einhverju hneykslanlegu) en ýfa líka upp þá löngun þar til öll önnur hugðarefni eru fallin í skuggann. Að þessu leyti verður að segjast að Íslendingar eru ekki jafn langt leiddir og Vesturheimsbúar og það er huggun harmi gegn að SDG er ekki nærri því eins fyrirferðarmikill í umræðunni hér og Trump er í sínu heimalandi. En ef við pössum okkur ekki á þessari tilhneigingu þá verðum við sömu fíkn að bráð og verðum á endanum vitsmunalega og andlega vannærð, gapandi eins og golþorskar yfir hverju orði sem fram gengur af munni hugsjónalausra lýðskrumara.

Trefjarík fjölmiðlaumfjöllun um verðug málefni er lýðræðinu nauðsynleg og dísæt hneykslunar-fréttamennska á að vera í eftirrétt, ekki í öll mál eins og hjá bræðrum okkar og systrum vestanhafs. Alvöru miðlar ættu að boða fólk í viðtöl sem hefur eitthvað innihaldsríkt að segja og leyfa vindbelgjunum að freta sínu háværasta á Útvarpi Sögu eða í Þjóðmálum eða Sjónvarpi Aríska Kynstofnsins eða hvað þeir heita, þessir miðlar sem snúa öllu á haus með því að láta eins og Stóra Innflytjendavandamálið sé helsta tilvistarógn Vesturlandabúa og loftslagsbreytingar séu tilbúningur. 

Ég trúi því ekki í sekúndubrot að ég sé einn um þessa Kafkaísku köfnunartilfinningu þar sem stofnanirnar sem fara með mest vald í samfélaginu eru orðnar að tragíkómísku absúrdistaleikhúsi. Ekki svo að skilja að ég vilji snúa aftur til fortíðar þar sem almenningur kokgleypti allt sem maður með bindi sagði og karl með svargráar krullur naut aðdáunar í krafti embættis síns alveg sama hvaða árásarstríð hann lagði blessun sína yfir í nafni þjóðarinnar. 

Nei, Alþingi þarf ekki að endurheimta þá fölsku ásýnd heldur vinna sér inn trúverðugleika frá núverandi núllpunkti. Það þýðir að þegar menn æla út úr sér hatursorðræðu um hina og þessa þjóðfélagshópa og hefna sín á þeim sem koma upp um þá eða þegar aðrir áreita fólk og fegra það í frásögn sinni þá eigi þeir ekkert erindi lengur í opinbera valdastöðu alveg sama hversu mörgum hlandvolgum afsökunarbeiðnum þeir komi á framfæri og hversu mörgum klukkustundum þeir eyði í meðferð.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni