Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Opið bréf til fólksins sem er ekki skítsama

Kæru félagar.

Fyrst slæmu fréttirnar:

Við erum öll að missa vonina.

Nei, það er ekki rétt.

Við erum búin að missa hana.

Við höfum ekki haft neina von um langt skeið.

Kannski er óþarfi að rekja það hvers vegna svo er fyrir okkur komið. Við vitum væntanlega öll af þeim áratugs langa glugga sem við höfum til að gerbreyta lifnaðarháttum okkar til að arfleiða komandi kynslóðir að einhverju betra en ofurfárviðrum og neðansjávarborgum. Við vitum líka að vegna ítaka eignafólks og alltumlykjandi neysluhyggju er þetta áskorun á borð við að kreista appelsínusafa úr múrsteini.

Við þurftum ekki heldur Hataralag — að laginu algjörlega ólöstuðu — til að minna okkur á að harðstjórar eru að spretta upp um heimsbyggðina eins og vörtur á il. Allir eru fyrir löngu orðnir þreyttir á að lesa tístvisku Dónaldsins, hótanir Dutertes í garð fíkla og grobb Bolsonaros um hversu drullusama honum er um regnskóginn. Og Netanyahu?

Ég fór í bíó á Júróvisjón-kvöldinu. Ég hef aldrei séð eins autt kvikmyndahús á laugardagskvöldi. Okkur sniðgöngusinnum tókst ekki alveg ætlunarverk okkar og er það að hluta til vegna almenns andvaraleysis okkar Íslendinga gagnvart umheiminum og að hluta til vegna þess hversu ögrandi íslenska sigurlagið þótti. Fólk vildi sjá hvað flytendurnir myndu gera í útsendingunni og þeir mega eiga það að sá pínulitli gjörningur sem leit dagsins ljós — tveir klútar með fánalitum Palestínu — hleypti loftinu úr þeirri firru að Ísrael sé frjálslynd lýðræðiseyja í hafsjó alræðis.

Nei, Hatari lagði ekki allt í sölurnar og ég hefði talið það mikið sterkari mótmælaverknað að vera með okkur hinum í að segja nei við þátttöku, eða í það minnsta segja sig úr keppni eftir sigurinn hér heima. En ég verð að játa að fréttirnar á sunnudagsmorgninum af uppátæki þeirra framkölluðu hjá mér bros.

Undirskriftasöfnunin gegn áframhaldandi þátttöku Íslands í keppninni segir allt sem segja þarf: Palestínuklútarnir eru sagðir bera vott um „hryllilega fyrirlitningu fyrir Ísrael.” Klútar með nafni og fánalitum þjóðar. Þegar svona væg áminning framkallar svona ofsafengin viðbrögð segir það auðvitað mikið meira um hinn áminnta en áminnandann. Orðin hernám, aðskilnaðarstefna og stríðsglæpir voru ekki notuð. Bara orðið Palestína. Það var nóg.

Ef við, íbúar meginlands Íslands kæmum fram við Vestmannaeyinga eins og illa hirtan búfénað þá myndum við líka missa sjittið okkar ef einhver veifaði silúettu Heimaeyjar eða merki ÍBV í beinni útsendingu.

Við þekkjum þetta úr bókmenntasögunni. Makbeth konungur sá andlit hins framliðna Banquos í hallarsalnum, ekki vegna þess að Banquo væri í alvöru genginn aftur heldur vegna þess að það var Makbeth sjálfur sem myrti hann og barnungan son hans. Vitfirringurinn í sögu Edgars Allan Poe heyrir hjartslátt undir gólffjölunum, ekki vegna þess að hjarta slær þar í alvöru heldur vegna þess að hann veit að þar liggur sundurlimað lík mannsins sem hann var að drepa.

Þeir sem eru með mest á samviskunni þurfa oft minnstu ögrunina til að missa stjórn á sér. Ef við, íbúar meginlands Íslands, kæmum fram við Vestmannaeyinga eins og illa hirtan búfénað þá myndum við líka missa sjittið okkar ef einhver veifaði silúettu Heimaeyjar eða merki ÍBV í beinni útsendingu.

Svo eru það góðu fréttirnar:

Ókei, ég viðurkenni það.

Ég er ekki með neinar góðar fréttir.

Ekki beinlínis.

Góðu fréttirnar eru þær að fréttirnar segja ekki alla söguna. Bandaríski grínistinn Jon Stewart sagði að það að hætta með pólitískan ádeiluþátt sinn eftir sextán ár í loftinu hefði læknað sig af þeirri ranghugmynd að veröldin væri fúafen spillingar, grimmdar og heimsku. Fjölmiðlar sinna því hlutverki (sumir vel, aðrir síður) að standa vörð um sannleikann mót þeirri holskeflu af hrossaskít sem ríkjandi öfl í samfélaginu hrinda af stað í átt til okkar. Einn mánuður á búgarði í samneyti við fjölskyldu sína og annað venjulegt fólk sýndi Stewart að fyrirsagnirnar segja ekki alla söguna um mannkynið.

Ekki skilja mig samt sem svo að ég vilji að fólk hætti að fylgjast með fréttum. Nei, við höldum áfram að vakta hina valdamiklu. Lýðræðið deyr í myrkri. En nærumst daglega í þeim hversdagskærleika sem er eðlislæg viðbrögð okkar við fólkinu í kringum okkur.

Það er eðlilegt að okkur fallist hendur á vikum sem þeirri síðastliðnu. Drýsillinn í Hvíta húsinu hótaði Írönum innrás. Tónleikasalur í Tel Aviv — sem maður hefði haldið að væri fullur af frjálslyndu partífólki — baulaði á ungt fólk sem dirfðist að minnast á tilvist nágrannaríkis þeirra.

Og svokölluð siðanefnd á Íslandi áminnti þingkonu fyrir óvarlegt orðaval í fullyrðingu varðandi misnotkun samstarfsmanns á aksturspeningum; nefnd sem sá sér ekki fært að taka fyrir mál annars þingmanns sem áreitti blaðamann og fór frjálslega með sannleikann um málsatvik í kjölfarið. Mál bílaunnandans var ekki einu sinni sent til siðanefndar.

Stundum langar mann að gefast upp. Flytja eitthvert og láta siðblindingjana um að stýra þjóðarskútunni í strand. Plögga sig sömuleiðis út úr heimsmálunum og leyfa gerningaveðrum að geisa og dýrategundum að gufa upp eins og bjórsletta af gangstétt. Við deyjum öll hvort eð er einhvern tímann.

Ég er ekki að reyna að fá neinn ofan af þessu. Að gefast upp reglulega er líklega það sem kemur í veg fyrir að við gefumst upp endanlega. Og ég get ekki látið eins og líkurnar séu okkur í hag út frá því sem við sjáum í fréttunum. Þegar hér er komið sögu þá mun eiga sér stað viðsnúningur sem er kraftaverki líkastur...

...eða þá við deyjum út.

Kannski fer allt til andskotans. En verða þá síðustu ár okkar ekki innihaldsríkari af þeirri einföldu ástæðu að við tókum saman höndum til varnar öllu því fallega í lífinu?

Þessi pistill er eins konar skilningsyfirlýsing. Kærleiksskilaboð. Allir sem þrá manneskjulegt samfélag þar sem fólk getur leyft hæfileikum sínum að njóta sín, og þar sem við hjálpum þeim sem eru í neyð, fá hér með risastórt knús frá mér. Allir þeir sem eru reiðubúnir að leggja neyslu sína í sölurnar fyrir plánetuna sem fóstraði okkur fá líka þéttingsfasta fimmu.

Það er ekkert víst að við vinnum sigur að lokum. Kannski fer allt til andskotans. En verða þá síðustu ár okkar ekki innihaldsríkari af þeirri einföldu ástæðu að við tókum saman höndum til varnar öllu því fallega í lífinu? Fyrir nokkru síðan þóknaðist einhverjum lífsþreyttum níhilista að flokka okkur sem „góða fólkið” í kaldhæðni, í trausti þess að við tryðum ekki í alvöru á tilvist manngæskunnar og myndum því forðast þann stimpil eins og herpes. Við skulum þiggja þessa nafnbót með þökkum og lifa eftir henni. Sumt er þess virði að gera þrátt fyrir yfirþyrmandi ósigurslíkur. Þannig deyjum við þó standandi í lappirnar.

Lifi byltingin!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni