Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Hann sveimaði, soltinn og grimmur ...

Hann sveimaði, soltinn og grimmur ...

Það var á aðventunni 2018 sem þessi skepna glóði fyrst á Lækjartorgi og ég lít á hana sem eina bestu gjöf sem borgin hefur gefið okkur. Ekki vegna þess að hún sé eitthvað sérstaklega glæsileg eða trekki að túrista eða vísi í menningararfinn heldur vegna þess að hún minnir okkur á hver raunverulegur óvinur almennings er. Byrjum á að rifja upp hver hún er. Jóhannes úr Kötlum á orðið:

 

Hann lagðist á fátæka fólkið,

sem fékk enga nýja spjör

fyrir jólin – og baslaði og bjó

við bágust kjör.

 

Frá því tók hann ætíð í einu

allan þess jólamat,

og át það svo oftast nær sjálft,

ef hann gat.

 

Að skella jólakettinum niður við hlið Lækjartorgsklukkunnar er svo grófur symbólismi að það er næstum klámfengið. Eins og nautið við Wall Street sem var smíðað til að fagna þeim „dýrslegu andaverum“ sem Adam Smith talaði um í Auðlegð þjóðanna. Þeir sem hampa þeim verum skilja ekki - eða leiða það hjá sér - að í skrifum Smith eru þær táknmynd skammsýni, eigingirni og stjórnlausrar græðgi sem eru einmitt ástæða þess að halda þarf aftur af fjármagnsöflunum en alls ekki sleppa þeim lausum. 

Nautið varð því, á sama hátt og jólakötturinn, óvart að tákni um það hvernig auðvaldið valtar yfir þá sem minna mega sín í samfélaginu

Sagan af óttalausu stelpunni hljómar kannski eins og H.C. Andersen ævintýri þar sem einhver hnáta sýnir það sem í henni býr og kemst til metorða á seiglu sinni og ákveðni en sagan af óttalausu stelpunni á Wall Street felur í sér aðeins þungmeltari, en um leið raunsærri, lærdóm. Henni var stillt upp andspænis nautinu í tilefni af alþjóðlega kvennadeginum árið 2017 til að minna á það hversu fáar konur stýra stórum fyrirtækjum — sem ögrun við nautið og þann karllæga yfirgang sem það táknar. 

Myndhöggvarinn sem bjó til nautsstyttuna kallaði stelpuna „auglýsingabrellu“ sem bryti í bága við „höfundarrétt“ hans. Hvernig höfundarréttur af einni styttu getur gert allar uppstillingar í nágrenni styttunnar ólöglegar skil ég ekki en myndhöggvarinn fékk sínu fram einu og hálfu ári síðar þegar styttan var færð til og fótsporaflötur settur í staðinn, svo að viðstaddir geti verið stelpan óttalausa sem færði sig sko ekkert frá fnæsandi nautinu ... þar til höfundarréttarmál komu upp. Óviljandi tákn var enn og aftur skapað með nautinu og stelpunni.

Þetta er nefnilega fullkomin táknmynd fyrir þá kvenfrelsun sem kapítalískt samfélag býður upp á; uppreisn gegn feðraveldinu er fullkomlega ásættanleg, svo fremi hún komi sér ekki illa fyrir fjármálaöflin.

Myndhöggvari nautsins hafði áhyggjur af því að sköpunarverk hans hlyti „neikvæða merkingu“ ef stelpa stæði fyrir framan það. Hvað hann átti við með því er ekki alveg ljóst. Er hann einn þeirra sem heldur í alvöru að sú hamslausa gróðafíkn sem knýr kapítalismann áfram sé alfarið af hinu góða? Eða er vandamálið það að nautið virkar hálf aulalegt í yfirgangi sínum ef stúlkubarn óttast það ekkert? Verði að meinleysingja eins og Ferdinand? Hvort heldur tilfellið er þykir mér ljóst að symbólisminn slapp öllum hlutaðeigandi úr höndum.

Jólakötturinn táknar það sama og nautið. „Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur.“ Stéttskipt samfélag þar sem sumir lifa á eignum sínum en aðrir á launum eða bótum er ekki byggt á réttlæti eða sanngirni heldur valdaafstæðum. 

Jólakötturinn étur mat hinna fátæku og börnin þeirra líka vegna þess að hann kemst upp með það. Þess vegna er styttan af honum fullkomin gjöf frá Reykjavíkurborg til að minna okkur á það árlega að samfélagsskipan okkar er óeðlileg og ómanneskjuleg; áþekkust mannskæðri ófreskju sem réttast væri að skjóta á færi áður en hún étur börn þeirra sem ekki ná endum saman. Kisi minnir okkur líka á að fátækt er ekki eitthvað sem er bara til í ævintýrum eða Laxness-sögum og að við ættum kannski að drullast til að gera eitthvað í því. Jóhannes úr Kötlum gerir það reyndar líka í kvæði sínu um kvikindið:

Þið hafið nú kannski í huga

að hjálpa, ef þörf verður á.

– Máske enn finnist einhver börn

sem ekkert fá.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni