Ef þetta væri allt saman hóx
Stígum um stund inn í annan veruleika. Veruleika þar sem rúmlega nítján af hverjum tuttugu loftslagsvísindamönnum veraldar skjátlast varðandi það að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum. Veruleika þar sem sjötti aldauðinn en alls ekki handan við hornið. Veruleika þar sem allt tal um yfirvofandi heimsendi er massahystería sem vísindamenn hrundu af stað vegna staðfestingarslagsíðu, eða til að vernda styrkveitingar sínar eða koma á sósíalískri útópíu. Tökum gróðurhúsaáhrifin út fyrir sviga og lítum bara á þær staðreyndir sem eru óumdeildar í huga þeirra sem eru á öndverðum meiði. Tyllum álhattinum ofan á hausinn og finnum feginsleikaaandvarpið brjótast út.
Jessssss!!!
Okkur er frjálst að haga okkur nákvæmlega eins og við höfum alltaf hagað okkur!
Okkur er borgið!
Drögum djúpt andann og ...
Nei, sum okkar geta það víst ekki.
Skógareldar í Bresku Kólumbíu. Og í Kaliforníu. Og Ástralía stendur í björtu báli. Jæja, það er víst lítið við því að gera. Fólk á þessu svæði þarf víst bara að kaupa sér úða eða hóstasaft. Svona er náttúran stundum. Við getum þó huggað okkur við að þetta er ekki okkur að kenna. Það er fagnaðarefni út af fyrir sig. Tíðni fárviðra og fellibylja skrifast þá ekki heldur á okkar reikning. Fjúff! Ofboðslega getur verið þægilegt að gefast bara upp og gerast afneitunarsinni. Eða ... nei, við skulum ekki nota það orð. Við erum ekki afneitunarsinnar.
Við erum veruleikasinnar.
Nú getum við gert það sem við viljum. Neyslan þarf ekkert að minnka. Engin ástæða til að draga úr kolefnalosun. Nema auðvitað ... loftgæði. Ókei, við gætum viljað draga úr losun til þess að hafa hreinna loft. Jú, við gætum gert það. Til að geta dregið andann djúpt og fagnað FRELSINU!
Við sitjum að vísu enn uppi með þá staðreynd að líklega mun vera meira af plasti en fiskum í sjónum árið 2050. Alla vega er einhver andskotans plasteyja í Kyrrahafinu sem er stærri en Texas. Mér finnst það reyndar ferlega ógeðslegt. Að vera með einhverjar Bónuspokatægjur í sushi-inu mínu. Ókei, við skulum þá hætta að búa til svona mikið einnota plast.
En hvað á þá að nota sem pakkningar fyrir vörur?
Ef við eigum að geta haldið neyslunni óbreyttri þá þurfum við pakkningar.
Æ, við hljótum að finna út úr því. Við erum tæknilega háþróað fólk. Við erum flest með símtæki í vasanum sem tengir okkur við öll myndaalbúm okkar, tónlistarsafnið og öpp til alls frá því að gera geislasverðshljóð yfir í að skipuleggja skyndikynni. Sömu vísindamenn og fundu þetta upp ættu auðvitað að geta kokkað upp nýjar vörupakkningar úr hvönn eða njóla eða einhverjum djöfulanum.
Notum bara sömu leiðir til að innleiða nýjar pakkningar og við notuðum til að fá snjallsímatæknina. Hægrimiðjufólkið fullvissar okkur um að ef markaðurinn fær að fara sínar leiðir óhindrað muni umhverfisvernd verða fyrirtækjum í hag og að hugvit frumkvöðla muni leiða af sér lausn við þessum vanda. Að við munum finna upp nýja hluti til að bjarga plánetunni rétt eins og við fundum upp örgjörva og snertiskjái.
Lifi markaðurinn!
Nema ... tæknin í snjallsímunum var öll fundin upp á framfæri ríkisins.
Æ, andskotinn.
Við getum ekki farið að vera með eitthvað ríkisbákn í þessu nýfundna frelsi okkar. Við verðum bara þá að draga úr neyslunni ef við ætlum að minnka plastið. En þá verður auðvitað enginn hagvöxtur ...
Aaa já alveg rétt.
Hagvöxtur.
Hvaða svar vorum við komin með við þessum rökum hjá græningjunum og kommunum um að eilífur hagvöxtur á plánetu með endanlegt magn auðlinda væri jafn ómögulegur og að borða eilíflega upp úr sama flögupokanum með sífellt stækkandi lúkufyllum?
Engin?
Eru ekki til mótrök?
Jæja, þá verðum við víst að draga úr neyslu, sem mun ganga af kapítalismanum dauðum.
Nei! Við höldum okkar striki af prinsippástæðum. Fyrir frelsið! Ef við gerum það þá verður veröldin fyrr eða síðar að nauðasköllóttri eyðimörk þar sem við örkum plastrusl upp að hnjám og fá astma og krabbamein af útblástursgufum. En þá getum við alla vega huggað okkur við það að létum ekki plata okkur í að breyta framleiðsluháttum okkar eða neysluvenjum með einhverju hnatthlýnunarhóxi.
Djöfulsins sigurvegarar erum við.
Verði okkur að góðu.
Athugasemdir