Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Veikleikar heilbrigðiskerfisins voru þekktir

Veikleikar heilbrigðiskerfisins voru þekktir

Þann 25. október 2018 fjallaði RÚV um leiðara í Læknablaðinu eftir Magnús Gottfreðsson sem þá var yfirlæknir á Landspítalanum, þar sem hann fullyrti að Íslendingar væru furðulega illa búnir undir nýjan heimsfaraldur. Það hefðu viðbrögð við svínaflensufaraldrinum 2009 sýnt en að við værum í enn veikari stöðu nú en þá, gjörgæslurúmum hefði til að mynda fækkað og væru hlutfallslega færri en í nágrannalöndum okkar og mannekla væri viðloðandi vandamál.

Nú í upphafi árs tjáði sami maður sig um yfirstandandi faraldur í viðtali í Læknablaðinu. Benti hann á hvað það sendi skrýtin skilaboð að farið væri að tala um að herða sultarólarnar gagnvart Landspítalanum þrátt fyrir að baráttunni við faraldurinn væri ekki lokið. Þá minnti hann enn og aftur á veika stöðu heilbrigðiskerfisins áður en faraldurinn skall á, smáa gjörgæsluna og vanfjármögnun á vísindastarfi. Vísaði hann í ákall Kára Stefánssonar um betri fjármögnun á heilbrigðiskerfinu sem fékk gríðarlegar undirtektir hjá almenningi og bætti við ákalli: „Ég er hissa á að þetta skuli ekki vera rætt meira. Ég velti því fyrir mér hvort það verði þannig áfram þegar fer að nálgast kosningar.“

Nú þegar kosningar nálgast svo sannarlega og Landspítalinn er undir nákvæmlega því álagi sem spáð var fyrirfram að hann myndi verða undir í stórum faraldri er ekki úr vegi að velta þessari spurningu upp enn og aftur. Svar sitjandi fjármálaráðherra við þessu er fyrst og fremst að þyrla upp ryki um að þetta snúist í raun og veru ekki um peninga því það þurfi að horfa í framleiðni og skipulag kerfisins - en jafnvel þó svo sé (mjög vafasamt reyndar en það er eiginlega efni í annan og lengri pistil) þá eru þeir þættir alveg jafn mikið á herðum stjórnvalda og fjármögnunin. Ábyrgðin er í efsta laginu, vandamálin eru þekkt og það er ekki hægt að ætlast til þess að starfsfólkið á gólfinu sem hefur hlaupið eins og það getur núna í meira en ár hlaupi bara hraðar til að leysa þau. Það er ekki að kvarta bara til að kvarta - kerfið sem því er ætlað að starfa í hreinlega er bara eins og það er.

Faraldurinn hefur sýnt okkur að það eru gríðarleg verðmæti fólgin í því að fjárfesta í heilbrigðiskerfinu. Þetta er ein grunnundirstaða annarrar verðmætasköpunar í samfélaginu, en ekki öfugt eins og sumt fólk vill halda fram. Er þá ekki löngu orðið tímabært að taka almennilega mið af þessari staðreynd við stefnumörkun og fjárveitingar?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni