Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Vafinn

Vafinn

Ráðherra dómsmála hefur nú fengið á sig afdráttarlausan dóm Hæstaréttar vegna þess hvernig hún stóð að því að skipa í Landsrétt. Þetta er skýr áfellisdómur yfir málsmeðferðinni sem og aðkomu Alþingis að henni. Nóg er að lesa reifun dómsins til að sjá þetta, en þar segir:

Samkvæmt því [að rannsóknarskyldu hefði að verulegu leyti verið létt af ráðherra] hefði verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd að ef dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar, væri óhjákvæmilegt að sú ákvörðun væri reist á frekari rannsókn ráðherrans eftir 10. gr. stjórnsýslulaga. Að þessu gættu taldi Hæstiréttur ljóst að dómsmálaráðherra hefði að lágmarki borið að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefndin hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra ekki gert tillögu um og hins vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem ráðherra gerði tillögu um í þeirra stað. Gögn málsins bæru á hinn bóginn ekki með sér að slík rannsókn hefði farið fram af hálfu ráðherra. Samkvæmt því hefði málsmeðferð hans verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og af því leiddi að það sama ætti við um meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þar sem ekki hefði verið bætt úr þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var haldin. 

Það er ekkert flókið við þetta og enginn vafi til staðar. Ekkert nýtt í þessari skyldu sem ekki hefði mátt gefa sér fyrirfram. Fyrir henni eru mjög skýr dómafordæmi, rétt eins og undirritaður benti meðal annarra á. Minnihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar varaði jafnframt við þessu í áliti sínu og voru sú varnaðarorð afdráttarlaus.

Nú ber hins vegar svo við að ráðherrann lýsir sig ósammála dómnum, án þess að hafa fyrir því að útskýra það frekar, og gefur það út að við þessu þurfi að bregðast með því að skýra reglur frekar af því þarna séu komnar fram nýjar kröfur til ráðherra um að rannsaka mál með sjálfstæðum hætti. Þetta er líkt og framar er rakið einfaldlega rangt og það er rangt að taka undir það. Það gerir hins vegar forsætisráðherra, sem á sínum tíma skrifaði undir minnihlutaálitið með skýru varnaðarorðunum.

Það var aldrei nokkurn tímann lögmætur vafi til staðar í málinu og hann er enn síður til staðar nú. Að halda því fram að taka þurfi af einhvern vafa er ekkert annað en meðvirkni með grófri valdníðslu. Öllum hlutaðeigandi mátti vera það fyllilega ljóst að sú meðferð að fara gegn niðurstöðu dómnefndar án þess að gæta að rannsóknarskyldu fór gegn lögum. Sér í lagi átti löglærðum ráðherra dómsmála að vera það fyllilega ljóst og hún hefði átt að standa á því.

Það er gríðarlega alvarlegt mál að látið sé eins og vafi sé til staðar um hvort ráðherra dómsmála beri að fara eftir stjórnsýslulögum og hvernig honum beri að gera það. Á mannamáli kallast þetta siðspilling. Ríkisstjórnin nýja hefur nú þegar fallið á sínu mikilvægasta prófi - að gæta trúverðugleika dómstóla landsins og aðgreiningu þeirra frá öðru valdi. Eini vafinn sem er hér til staðar er vafinn um siðferðilegt lögmæti slíkra stjórnvalda.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni