Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Stöðugleikinn

Stöðugleikinn

Stöðugleiki er eitt af þessum tískuorðum í pólitík sem mikið er japlað á. Reyndar ekki alveg að ástæðulausu enda er þetta gildi sem skiptir ákveðnu máli. Þess vegna reyna margir að eigna sér það og kenna sig við það. Það ætla ég sem fulltrúi Reykjavíkurborgar að gera núna.

Stöðugleiki er meðal annars efnahagslegur stöðugleiki, traustur rekstur hins opinbera þar sem fjármagnið er vel nýtt. Þar stendur Reykjavíkurborg sig ágætlega samkvæmt öllum hlutlægum mælikvörðum, þrátt fyrir lygar sumra um annað.

Stöðugleiki er líka pólitískur stöðugleiki, að gott samstarf og trúnaður haldist milli þeirra sem fara með völdin og að ekki sé mikið um hræringar innan kjörtímabils. Þar hefur Reykjavíkurborg staðið sig ansi vel allt frá hinu ótrúlega kjörtímabili 2006 - 2010 sem einkenndist af sífelldum valdaskiptum og fjórum borgarstjórum alls. Þessi gríðarlegi óstöðugleiki auk efnahagslegs hruns á landsvísu átt sinn þátt í að skila Besta flokknum undir forystu Jóns Gnarr miklum sigri í borgarstjórnarkosningunum 2010 og hélst samstarf hans og Samfylkingar stöðugt allan þann tíma sem það varði. Þó valdahlutföll hafi síðan breyst mjög árið 2014 hefur meirihlutinn sem þá var myndaður haldist þokkalega stöðugur. Um samanburðin við landsmálin þarf víst ekkert að fjölyrða.

Hér spilar inn í að fólk er almennt bæði fast fyrir og sveigjanlegt. Líkt og tré hefur fastar rætur en greinar sem sveigjast í vindinum hefur samstarfið einkennst af því að sum sameiginleg gildi og stefnumál eru föst en annað er samið um stöðugt. Að hafa fjóra mismunandi flokka í samstarfi reynir á en það gengur upp þegar fólk passar sig á því að gæta að þessu jafnvægi. Þetta er líka mjög í takt við kröfur nútímans almennt. Nútímasamfélag er afskaplega flókið og áskoranirnar sennilega meiri og snúnari en nokkru sinni í sögunni. Þetta gildir í pólitík jafnt sem viðskiptalífi og samfélaginu almennt. Þá reynir mikið á sveigjanleikann. Tímar þess að 'sterkir leiðtogar' ákveði alla hluti út frá fyrirframgefnum skoðunum og deili og drottni tel ég að séu algjörlega liðnir. 'Mjúkir' samstarfshæfileikar út frá skýrum gildum eru mun mikilvægari í umhverfi nútímans en 'sterkir' hæfileikar til að fá sínu fram - þó hvort tveggja sé auðvitað öllum nauðsynlegt í einhverjum mæli.

Stöðugleiki snýst líka um skýra framtíðarstefnumótun. Þetta hafa fyrirtæki lengi vitað og pólitíkin þarf að átta sig á þessu líka. Sem formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar hef ég til dæmis leitt þverpólitíska vinnu við að skilgreina heildstæða upplýsingastefnu fyrir borgina sem og þjónustustefnu. Svona lagað vekur kannski í sjálfu sér ekkert mikla athygli út á við enda er það ekki megintilgangurinn. Megintilgangurinn er að senda skýr skilaboð inn á við um hvert skútan á að sigla. Skilaboð sem lifa jafnvel lengur en pólitískar valdablokkir. Þannig verða til út frá stefnunni áþreifanlegir þættir í rekstri borgarinnar, eins og opið bókhald út frá upplýsingastefnunni og tækninýjungar í velferðarþjónustu út frá þjónustustefnunni.  Þannig þarf ekki að vinna að því að keyra þessar áherslur í gegn heldur verða þær hreinlega til út frá skýrri stefnumótun. Starfsfólk veit nákvæmlega hver sýnin til framtíðar er og vinnur samkvæmt henni.

Lýk ég hér með máli mínu um stöðugleika enda tel ég að verk mín tali alveg sínu máli ein og sér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni