Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Dómaraskipana-déjà-vu

Dómaraskipana-déjà-vu

Árið 2007 var Þorsteinn nokkur Davíðsson skipaður dómari við héraðsdóm Norðurlands eystra. Árni Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, hafði þar gengið gegn niðurstöðu dómnefndar sem ætlað var að leggja mat á hæfi umsækjenda og úr þessu spruttu miklar og langvinnar deilur. Á þessum tíma var ég í fríðum hópi Moggabloggara og tjáði mig nokkuð um þetta, þóttist viss um að þessi skipun stæðist ekki skoðun og var þannig algjörlega ósammála þeim sem reyndu að verja þetta á þeim forsendum að ráðherra hefði þarna fullt óskorað vald og væri óbundinn af niðurstöðu dómnefndar.

Málið fór alla leið fyrir Hæstarétt þar sem dómarar komust að þeirri niðurstöðu að Árni hafði ekki sinnt rannsóknarskyldu. Á mannamáli var þetta sumsé einfaldlega ólögmætt fúsk. Þó það kunni að hafa verið í sjálfu sér rétt að ráðherra hafi ekki þurft að fara eftir niðurstöðu dómnefndar firrti það hann ekki ábyrgð á því að sýna fram á að stjórnvaldsákvörðun hans hafi verið málefnaleg. Þetta er eins og með flest annað í lífinu, við getum oftast þannig lagað séð gert það sem okkur sýnist en verðum samt sem áður að gæta okkar og taka afleiðingunum. Þetta er ekki síður mikilvægt í stjórnsýslunni þar sem möndlað er með hagsmuni og réttindi annars fólks.

Nú er árið 2017 og aftur er tekist á um dómaraskipanir. Að þessu sinni er skipað í nýtt dómstig og ráðherra fer á svig við hæfnisröðun dómnefndar. Í millitíðinni hefur dómur gegn ráðherra fallið sem og lögum verið breytt, og því er nú ekki reynt að verja ákvörðun ráðherra með vísun í að hann ráði þessu bara. Fólk veit betur. Það sem ekki hefur breyst er hins vegar að varninar koma engu að síður, ýmislegt er tínt til á meðan horft er framhjá aðalatriðinu.

Aðalatriðið að þessu sinni er að það er búið að herða það mikið skrúfurnar að það á að vera hafið yfir til vafa að ráðherra fer ekki gegn röðun dómnefndar nema í undantekningartilvikum, í raun er litið á það sem afbrigði. Hann sé sumsé bundinn af niðurstöðu dómnefndar nema hann fái samþykki Alþingis til annars.  Eða eins og segir í greinargerð með frumvarpinu sem varð að núgildandi lögum um dómstóla: „Í 3. mgr. 2. gr. eru lögð til þau nýmæli að dómsmálaráðherra verði bundinn af áliti dómnefndarinnar, þótt hann hafi enn hið formlega skipunarvald. Lagt er til að óheimilt verði að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Þó megi víkja frá þessari reglu ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um að skipa annan nafngreindan umsækjanda. Í slíku tilviki verði dómsmálaráðherra að leggja tillöguna fyrir Alþingi innan tveggja vikna frá því að umsögn dómnefndar er afhent honum eða innan þess tíma frá að því að Alþingi kemur næst saman eftir að umsögn er fengin og verði tillagan að vera samþykkt innan mánaðar frá því að hún er lögð fram á þinginu, en ella verði ráðherra bundinn af umsögn dómnefndar.“ 

Það þýðir auðvitað ekki að ráðherra getur gert það sem honum sýnist svo lengi sem þingið stimplar það, heldur er þetta hugsað sem ákveðinn öryggisventill gagnvart ráðherranum. Við vitum út frá dóminum yfir Árna Mathiesen að svo þröng túlkun gengur ekki. Enda kom þetta sjónarmið ítrekað og skýrt fram í öllum gögnum og umræðum sem fylgdu frumvarpi núverandi dómsmálaráðherra um breytingar á dómstólalögum. Tekist var á um breytingatillögu þar sem ráðherra var gert skylt að gæta að kröfum jafnréttislaga við skipun dómara. Ítrekað kom fram í máli þingmanna að slíkt ákvæði væri í raun marklaust þar sem ráðherra væri heimilt og ætti að taka tillit til jafnréttislaga eftir að dómnefnd hefði raðað umsækjendum eftir hæfni og að valið stæði milli jafnhæfra umsækjenda. Brynjar Níelsson orðaði þetta svona:

Málið er auðvitað að þetta skiptir engu máli að því leytinu til að vera að djöflast með þessa breytingu vegna þess að ráðherrann er alltaf bundinn af því að skipa þann hæfasta. Þegar eru tveir jafn hæfir þarf hann að horfa á þessi sjónarmið um hlutföllin. Það er svo einfalt. Það er ekki flókið. En það er eins og það sé einhver innbyggður misskilningur í því hérna með þessa breytingartillögu, sýnist mér í fljótu bragði, að með henni virðist minni hlutinn halda að ráðherrann geti farið fram hjá nefndinni með matinu á hinum hæfasta. Það getur ráðherrann aldrei.

Sigríður Andersen hafði enda þetta að segja í framsöguræðu sinni:

Það blasir auðvitað við að með því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft er um verulegt framsal ráðherravalds að ræða þar sem ráðherra er í raun bundinn við ákvörðun nefndar um það a.m.k. sem lýtur að þeim sem nefndin telur hæfasta. Framsal valds er fyrir hendi þrátt fyrir að ábyrgð á skipan dómara sé eftir sem áður hjá ráðherra.

Skýrara verður það ekki. Aldrei var gert ráð fyrir því að ráðherra tæki upp á sinni eigin hæfnisröðun eftir að dómnefnd skilaði sinni, jafnvel ekki til þess að jafna kynjahlutföll. Allir voru um það sammála, í öllum flokkum. Því er endursögn Dóru Sif Tynes á umræðunum um þetta lagafrumvarp alls ekki nákvæm. Hún skautar framhjá aðalatriðinu.

Fólki er vissulega ákveðin vorkunn að vera sett í þá þröngu stöðu að þurfa að taka afstöðu til ákvörðunar ráðherrans innan þröngs tímaramma og út frá óljósum forsendum. Eitt sem er gagnrýnivert í þessu er að hlutverk þingsins í ferlinu er ekki alveg nógu skýrt. Það má þó mögulega vera vegna þess að í raun var aldrei gert ráð fyrir því nokkurn tímann að þessi staða gæti komið upp, að þingið þyrfti að taka afstöðu til verulegs fráviks ráðherra frá niðurstöðu dómnefndar. Þá á fólk samt sem áður að geta í fyrsta lagi munað eftir því, áttað sig á því og síðan rætt um það skýrt- í stað þess að búa sér til nýjar söguskýringar.

Þetta er sumsé mitt málefnalega innlegg í umræðuna. Ég er alveg jafn sannfærður og fyrir áratug um að ákvörðun ráðherrans var fúsk, sama hvernig reynt er að verja hana. Við verðum að læra af sögunni til að endurtaka hana ekki.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni