Við eigum í stríði
Einhverju sinni árið 2005 hripaði ég þetta niður.
Það er merkilegt hve lítið hefir breyst í honum heimi.
Við eigum í stríði, stríði við hryðjuverkamenn. Vígvöllurinn er allstaðar. Allur heimurinn liggur undir. Heimsmyndin er breytt eftir 11. september og við verðum að vera tilbúin til að verja hin vestrænu lífsgildi og færa fórnir bæði með því að senda hermenn til fjarlægra heimshluta og vera ávallt viðbúin árásum illra afla. Það má heldur ekki gleyma því að þegar átt er í höggi við hryðjuverkamenn má búast við einhverjum mannfórnum í þágu málstaðarins. Að sjálfsögðu er það hræðilegra en allt sem hræðilegt er þegar vestrænn borgari lætur lífið í hryðjuverkastríðinu, en ég er viss um að öllum líður betur með að í kjölfarið verður ráðist á land (sökudólgurinn fundinn) sem þefskyn ráðamanna segir til um að umlukið sé fnyk ódæðisverka. Verða þá án minnsta vafa eintómir illvirkjar teknir af lífi eða gerðir óstarfhæfir ... já, eða komandi illvirkjar fæddir og ófæddir.
Það er enda svo að lífsgildi oss eru innblásin af guðs heilaga anda og er það vor siðferðislega skylda að útdeila þeim til annarra fátæklegri í anda heimshluta. Við verðum með öðrum orðum að frelsa heiminn og getum ekki hætt fyrr en hann liggur allur að fótum okkar gildismats og frjálsra lífshátta. Þegar ég tala um okkur á ég auðvitað við okkar ágætu leiðtoga, George W. Bush, Tony Blair, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddson, sem bera hitann og þungann af þeim aðgerðum sem eiga sér stað í heimóttarlegri hlutum heimsins. Við getum að sjálfsögðu ekkert annað gert en ástundað fylgispekt þess sem veit að einvörðungu er unnið með hagsmuni alls heimsins að leiðarljósi. Raunar er vart nauðsynlegt að velta þessum málum of mikið fyrir sér. Til þess höfum við einmitt áðurnefnda leiðtoga; til þess að taka á þessum málum fyrir okkur. Við vitum. Nú er bara mál að láta alla aðra vita svo hryðjuverkin hætti.
Líf þeirra er hvort eð er ekkert annað en tölur á blaði á meðan okkar er harmleikur.
Í því samhengi má einnig lesa þetta ljóð Dags Sigurðarsonar sem finna má í Hundbænum eða viðreisn efnahagslífsins frá 1963. Það er og að finna í ritsafni Dags sem kom út 2018 (bls. 87).
Hér er birtur hluti ljóðsins.
KVÖLDIÐ EFTIR STRÍÐ
Frá því var skýrt í fréttum að íbúar Bánkalands háðu varnarstríð við íbúa Olíulands hérna á dögunum og grönduðu öllu kviku í Olíulandi á fimm mínútum. Mannfall varð ekki hjá Bánklendingum. Olíulindirnar munu verða nýttar í þágu efnahagslífsins.
Þennan sögulega dag var ég staddur í höfuðborg Bánkalands í viðskiptaerindum og átti því láni að fagna að ná tali af sjálfum landvarnamálaráðherranum í kokkteilboði um kvöldið.
Ráðherrann var einkar geðfelldur maður, prúður en frjálsmannlegur í fasi, glaðvær en stilltur í framkomu, hvers manns hugljúfi. Hann er einstakt snyrtimenni og kímnigáfa hans er annáluð. Hann er sagður barngóður og dýravinur hinn mesti. Einnig hefur hann komið mörgum skemmtilega á óvart með ýmiskonar góðgerðarstarfsemi.
- Svooað þér eruð frá Íslandi, sagði hann og sló kumpánalega á öxl mér með vinstri hendi. Í þeirri hægri hélt hann á glasi.
- Hvernig er að vera í bissniss á Íslandi? Hálfgerður tittlíngaskítur, er það ekki?
Ég útskýrði fyrir honum, að við Íslendingar hefðu margt sem hægt væri að selja: grjót, haf, fossa, skíðabrekkur, miðnætursól, jökla og fólk, en kommar og laumukommar væru á hverju strái og reyndu að spilla fyrir sölunni. Annars færi kannski að rofa til. Það væri að minnsta kosti ljós punktur hvað vinnuaflið væri orðið ódýrt.
Athugasemdir