Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Læknasaga: Mætti þýða þessa

Ég held áfram að henda hér inn efni sem hefði átt að birtast á www.starafugl.is hafi einhver áhuga.

 

Kristof Magnússon er lífræðilega hálf þýskur, hálf íslenskur rithöfundur og þýðandi sem ætti að vera íslensku bókmenntaáhugafólki nokkuð kunnur. Faðir hans er, eins og glögglega má sjá á eftirnafninu, íslenskur. En þar sem hann hefir alið bróðurpart ævi sinnar í Þýskalandi verður hann að teljast meira þýskur en íslenskur. Og þótt tök hans á íslenskri tungu séu góð þá er vald hans á þeirri þýsku sýnu betri. Skrifar hann enda skáldsögur sínar, leikrit og greinar á þýsku. Aukinheldur er hann ötull þýðandi og hefir snarað allnokkrum fjölda íslenskra skáldverka yfir á þýsku. Hæst í þeirri flóru ber þýðing hans á Íslenskum aðli Þórbergs Þórðarsonar, en þar að auki hefir hann, til að mynda, þýtt Konur Steinars Braga, Ofsa Einars Kárasonar, Vetrarsól Auðar Jónsdóttur og Grettis sögu. Verður þess og að geta að Bjarni Jónsson íslenskaði aðra skáldsögu Kristofs, Das war ich nicht frá árinu 2010 og kom hún út undir titlinum Það var ekki ég tveim árum seinna.

 

Alltént er óhætt að segja að tengsl Kristofs við íslenskar bókmenntir séu, vægt til orða tekið, rík og mætti viðhafa langt mál um þau sem og hvað hann hefir afrekað á ritvellinum hingað til. Það verður þó ekki gert.

 

Ástæða þessa texta er þriðja skáldsaga Kristofs sem kom út  hjá Antje Kunstmann-forlaginu í München árið 2014. Arztroman er titillinn sem hún ber. Mætti máski kalla hana „Saga af lækni“ eða „Læknasaga“ upp á íslensku. Það er skemmst frá því að segja að verkið atarna hefir hlotið góðar viðtökur og lenti það, líkt og raunin var með Das war ich nicht, á metsölulista Der Spiegel.  

 

Fyrsta skáldsaga Kristofs, Zuhause (2005), hlaut almennt góðar viðtökur en það var þó gamanleikurinn Männerhort sem kom Kristof á kortið. Vakti gamanleikur sá fyrst almenna eftirtekt er hann var tekinn til sýninga í leikhúsinu Theater am Kurfürstendamm í Berlín. Var enda leikaravalið ekki af verri endanum enda. Á þýskan mælikvarða stjörnum prýtt. 

 

Má svo til gamans geta að kvikmynd byggð á gamanleiknum rataði í kvikmyndahús Þýskalands og gamanleikurinn hefir lent víðsvegar á fjölum leikhúsa, aðallega í Þýskalandi. Einnig ber að geta þess að Bjarni Jónsson þýddi leikinn fyrir útvarpsleikhúsið undir nafngiftinni Karlagæslan.

 

Í Männerhort, svo og hans fyrsta leikriti Der totale Kick, ber á ákveðnum þáttum sem eru áberandi í verkum Kristofs og ber þar fyrst að nefna gamansemi, kaldhæðni, ankannalegar aðstæður, sem jaðra oft og tíðum við fáránleika, og jarðbundinn og raunsæislegan stíll. 

 

Það sem vera kann þó að vera hvað mest einkennandi er sterk tenging við það sem oft er álitið „banal“ eða ómerkilegt. Þar af leiðandi hefir afþreyingarstimplinum ósjaldan verð skellt á verk hans.

 

Í því samhengi má aftur minnast á Männerhort sem segir frá fjórum karlmönnum sem flýja í hitakompu verslunarmiðstöðvar einnar til að fá frið frá innkaupaáráttu eiginkvennanna. Finna þeir þar griðastað og fá útrás fyrir sameiginlegt ergelsi í garð kvennanna sem og stað fyrir bjórdrykkju, knattspyrnugláp og klámkjaft. Sum sé staður þar sem þeir geta verið „alvöru“ menn, lausir undan ægivaldi kvennanna um hríð. Vissulega liggur beinast við að tengja innihaldslýsingu sem þessa við eitthvað „banalt“ og ómerkilegt en málið er að Kristofi auðnast iðulega að koma með óvæntan vinkil á hlutina.

 

Gildir slíkt hið sama um Arztroman. Því hver gætu fyrstu hugrenningatengslin verið þegar maður fær skáldsögu í hendurnar með titlinum Arztroman (Læknasaga eða Saga af lækni)? Vel hugsanlega myndi viðkomandi spyrða verkið við ástarrómansa og draumaheima Rauðu seríunnar: Myndar- og karlmannlegur læknir með sterkar hendur og sorgmædd augu kynnist ástríðufullri hjúkrunarkonu með vafasama fortíð. Eða eitthvað þvíumlíkt. Slíku er ekki fyrir að fara hér. Og þó! Óneitanlega er ástarævintýri fyrir að fara hér en það er kannski öllu jarðbundnara en ástarævintýri klisjubókmenntanna.

 

Allavega greinir Arztroman, samkvæmt káputexta, frá Anitu sem er neyðarlæknir á stóru sjúkrahúsi í Berlín og hefir miklar mætur á starfi sínu. Það að þurfa að stilla sig inn á krefjandi aðstæður á vel við skaphöfn hennar. Og það þó ekki séu útköllin alltaf eins spennandi og maður kann að gera sér í hugarlund. Fyrir Anitu gildir það einu svo framarlega sem hún geti hjálpað. Af og til getur hún meira að segja leitt gott af sér.

 

Adrian, fyrrum eiginmaður hennar, er læknir á sama sjúkrahúsi. Ekki fyrir svo löngu síðan skildu leiðir þeirra í góðu og býr Lukas, fjórtán ára sonur þeirra, hjá föður sínum og nýju kærustu hans Heidi.

 

Ef Anita hefði ekki fyrir tilviljun fundið Adrian meðvitundarlausan á gólfi salernis sjúkrahúsins, út úr heiminum af notkun deyfilyfs, og hefði Heidi ekki stöðugt látið frá sér fara að sér að hver sé sinnar gæfu smiður og að fátækir og veikir beri einatt sjálfir sök á ástandi sínu, þá hefði Anita getað talið sér trú um að allt væri í stakasta lagi. Sú er ekki raunin. Hvorki í einkalífinu né í vinnunni. (lauslega þýtt af bókarkápu).

 

Þessi innihaldslýsing lætur kannski ekki mikið yfir sér fara og vekur máski ekki svo mikla löngun til að taka sér verkið í hönd. En góðu heilli er meira í söguna spunnið en þessi lýsing lætur yfir sér. Kristof hefir lagst í ítarlega rannsóknarvinnum er að finna nákvæmar lýsingar á starfi neyðarlæknis og starfi lækna yfirhöfuð og svo heldur hann áfram að vinna með áðurnefnda „banal“ þætti bókmennta (og fleiri listgreina).

Þetta er bók sem mætti alveg þýða.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni