Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

UTÍS 2017

UTÍS 2017

Ég er nýkominn heim af menntaráðstefnunni UTÍS (Upplýsingatækni í skólastarfi) sem fram fer árlega á Sauðárkróki. Að þessu sinni tóku þátt tæplega 130 kennarar, stjórnendur og annað skólafólk frá öllum lands- (og heims-) hornum.

Að mörgu leyti er Utís orðið að árshátíð þess skólafólks sem þróar kennsluhætti með tækni, hápunktur ársins. Aðsóknin hefur vaxið ár frá ári og færri komast að en vilja. Reynt er að tryggja þeim pláss sem viljugir eru til að deila af reynslu sinni í heimabyggð og í heimaskólum – og stuðla þannig að þeim breytingum sem skólakerfið þarf og mun ganga í gegnum. Ég geri ráð fyrir að næsta ár verði reynt að bæta við fólki frá þeim skólum og sveitarfélögum sem eru að leggja af stað í þá vegferð að þróa skólakerfi 21. aldarinnar og vilja komast í hið öfluga stuðningsnet jafningja sem þarna er orðið til. Gott væri fyrir þá sem þannig er ástatt um að koma sér fyrir á Twitter og nota #menntaspjall. Þar getið þið komist á ratsjána og fengið stuðning og góðar hugmyndir, sem og miðlað til annarra.

 Sjálfum fannst mér langmestur akkur í því að tala við og hlusta á fólkið sem þarna var og átta mig á þeim fjölbreyttum leiðum sem fólk fer til að mæta kröfum námskrár um færni nemenda. Það er ótrúlega mikið af skapandi og góðu skólastarfi á landinu. Minnst af því hverfist um tækni – en tæknin getur þó bæði verið stuðningur við (og í fyllingu tímans) eitt megininntak náms. Það blasti líka við hve vænt öllum þótti um nemendur sína og hve talað var um þá af mikilli virðingu. Við fengum að sjá dæmi um verkefni nemenda og það er alveg ljóst að á þessu sviði (eins og ýmsum öðrum) hafa börn þegar vaxið hinum fullorðnu yfir höfuð.

Það hefur aldrei verið meira spennandi að starfa við skólastarf. Möguleikarnir og áskoranirnar eru af slíkum stærðargráðum að verkefnin eru óþrjótandi. Um leið hefur það aldrei verið meira gefandi. 

Það er mikilvægt að þeir sem eru svo heppnir að komast í hinn útvalda hóp sem kemst á viðburði eins og Utís og fær þar að baða sig í deiglunni – miðli ekki aðeins til annars skólafólks heldur líka til foreldra og alls almennings. 

Menntun er verkefni samfélagsins alls og það þarf að forgangsraða í þágu hennar. Það þarf líka að standa við þá stefnumörkun að búa hér á landi yfir kennaraflota í heimsmælikvarða. Hér eru fræin og hér er jarðvegurinn. En garðyrkjumaðurinn hefur verið full latur að vökva. Hann þarf að girða sig í brók.

Ég hlakka til Utís 2018 og gauka því hér með að Ingva Hrannari, sem að öðrum ólöstuðum á mest hrós skilið fyrir þennan frábæra viðburð, að hugleiða hvort ekki sé rétt að taka frá örfá sæti fyrir fulltrúa Menntamálastofnunar, -ráðuneytisins og samtaka foreldra næst. Og auðvitað menntamálaráðherra. Ég held það sé tímabært.

Annars þakka ég fyrir mig.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni