Nauðsyn brýtur lög
Garry Wills, Pulitzerverðlaunahafi ásamt öðru, rakti einu sinni skilmerkilega í bók hvernig völd og hlutverk Bandaríkjaforseta gerbreyttust (að hans mati til hins verra) með tilkomu kjarnorkusprengjunnar. Manhattan-áætlunin, sem miðaði eins og kunnugt er að smíði slíkrar sprengju, var svo stórkostlegt leyndarmál að talið var nauðsynlegt að fela það fyrir öllum – líka þjóð og þingi.
Wills lýsir því hvernig margvísleg lög voru brotin og raunar hvernig hlutverk forsetans hefur frá og með þeirri stundu farið á svig við stjórnarskrárbundna stöðu hans. Frá seinna stríði hafa öll átök sem Bandaríkin hafa tekið þátt í verið ákveðin af forsetanum – ekki þinginu eins og áður. Forsetinn er orðin einhverskonar yfirmaður heraflans, án þess þó að vera hermaður sjálfur. Wills bendir til dæmis á þá staðreynd að hermenn heilsi nú forsetanum að hermannasið – þrátt fyrir að það sé ekki hefðin og stangist raunar á við reglur hersins.
Eins og í öllum lýðræðisríkjum deilir forseti völdum sínum með öðrum. Hugmyndin er sú að það veiti honum aðhald, alveg eins og hann veitir öðrum stofnunum valdsins aðhald. Á tíma Reagans í embætti forseta voru í leyni unnar áætlanir sem hindruðu að valdmörk forseta væru virt í mikilvægum málum. Hér má taka dæmi af handhöfum forsetavalds. Alveg eins og hér á landi er forseti þingsins einn þeirra sem tekur við starfsskyldum forseta ef þörf krefur. Ríkisstjórn Reagans taldi ótækt að það þýddi að forseti þingsins gæti ráðið hvort kjarnorkuvopnum yrði beitt. Þess vegna voru menn handgengir forsetanum, Donald Rumsfeld og Dick Cheney, þjálfaðir til að geta skotið á loft kjarnorkusprengjum ef á þyrfti að halda. Forseti þingsins fékk ekki slíka þjálfun og hefur ekki fengið.
Rumsfeld og Cheney voru einnig í föruneyti Bush yngri þegar hann settist á forsetastól. Þann 11. september 2001 braut sá síðarnefndi öll möguleg lög þegar hann ákvað upp á sitt einsdæmi að senda á loft herþotur til að skjóta niður farþegaþotur sem grunur var á að enn væru á lofti. Hann lét forsetann ekki vita fyrr en eftir á.
Nú er komið í ljós, sem allir vissu, að í Bretlandi voru starfshættir Tony Blair afar vafasamir svo ekki sé meira sagt þegar kom að samvinnu við Bandaríkjaforseta við að gæta hagsmuna þjóðanna í Mið-Austurlöndum. Raunar virðist hagsmunagæsla Vesturveldanna þar suðurfrá vera ein langdregin dæmisaga um það hvernig fara má úr öskunni í eldinn.
Lýðræði byggir á því að völdum sé dreift. Það byggir líka á því að hlustað sé á margar skoðanir. Það er ekki ofsagt að lýðræðiskreppa ríki í okkar heimshluta. Nauðsyn brýtur lög. Leyndarhyggja hefur tilhneigingu til að vinda upp á sig.
Við sjáum þess mörg dæmi í íslenskum stjórnmálum að hér á landi hafa menn smitast af sömu leyndarhyggju – og sömu samþjöppun valds. Hlutur okkar í viðurkenningu á kolólöglegu árásarstríði Bush og Blairs er auðvitað vel þekktur. Hitt er ekki síður umhugsunarvert að síðustu misseri hefur það aukist mjög að mikilvægar ákvarðanir séu teknar bak við luktar dyr. Í þinghúsinu eru komin leyniherbergi með gögnum. Í einhverjum tilfellum eru gerðar tilraunir til að taka stórar ákvarðanir án þess að upplýsa þing eða þjóð um forsendur þeirra.
Wills benti á að önnur Vesturveldi en Bandaríkin hefðu ekki leyft stjórskipun sinni að brenglast með sama hætti og gerðist í Bandaríkjunum. Ekki einu sinni þau lönd sem bjuggu yfir kjarnavopnum.
Það má vel vera. Hinsvegar er alveg ljóst að fjölmörg samfélög, þar á meðal það íslenska, eru í vanda með lýðræði sitt. Mikið til vegna þess að rof hefur orðið milli hagsmuna og almannahagsmuna. Þess er ekki gætt nægilega vel að opið og upplýst samfélag með eðlilegri dreifingu valda eru hagsmunir okkar allra.
Lexían frá Bandaríkjunum kennir okkur það að ef of mikil völd fá að safnast saman á einum stað, án ytra aðhalds, þá vex þar meinsemd.
Það þarf að rækta lýðræðið betur – það þarf ekki kjarnorkuvopn til, kjarnfóður eða hrámjólk geta verið sumum nægur hvati.
Athugasemdir