Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Leikritið um grunnskólann

Ég sagði í pistli fyrir nokkuð löngu að Reykjavíkurborg væri búin að gefast upp á að reka skólana sína. Þá urðu ýmsir stjórnmálamenn bæði móðgaðir og reiðir og ég fékk eftir krókaleiðum að vita af því. 

Nú í haust riðaði skólakerfi borgarinnar svo til falls. Við enn eina skrúfuherðinguna brotnaði stórt stykki úr því. Leik- og grunnskólastjórar gáfust upp. Þeir stigu fram opinberlega og afhjúpuðu að enn stæði til að herða á svelti skólanna. Nú væri orðið stutt í hungurdauða.

Þá var kallaður saman hópur í skyndi til að redda málunum. Loks var kynnt að samin hefði verið aðgerðaráætlun og nú skyldi „endurreisn“ skólakerfisins flýtt vegna hins mikla árangurs af sparnaði hingað til.

Fyrst: Smá forsaga.

Ég var að kenna hjá Reykjavíkurborg þegar hún fór á hausinn í hruninu. Ég var í hópi þeirra kennara sem gerði sveigjanlegan kjarasamning við borgina. Við tókum á okkur verulegar, beinar launalækkanir til að styðja við borgina í hinni erfiðu stöðu sem hún var komin í. Við létum aðeins vita að þegar yfirstjórn borgarinnar hefði náð stjórn á fjármálum borgarinna gerðum við skýra kröfu um það að endurheimta launin okkar. Þetta þótti okkur sanngjarnt og eðlilegt. Það þurftu allir að gera sitt. Það hefði verið verulega ósanngjarnt að kenna Reykjavíkurborg um hrun efnahagsins og það hefði verið verulega ósanngjarnt að krefjast þess að allir aðrir en við kennararnir tækju skellinn. Í nokkur ár unnum við jafnmikið eða meira fyrir lægri laun en áður.

Svo kom að því að borgin tapaði trúnaði okkar. Þegar kjörnir fulltrúar ákváðu að hækka verulega við sig launin aftur nokkrum árum eftir hrun en héldu áfram að gera þá kröfu á skólana að þeir væru undirfjármagnaðir stigum við fram og sögðum: „Nei, takk.“ Ef tíðin væri orðin nógu góð til að hækka laun stjórnmálamannanna í borginni hlyti hún að vera orðin nógu góð til að skila til baka þeim launum sem aðrir starfsmenn höfðu gefið eftir í neyðaraðgerðunum.

Hjá mér og samkennurum mínum var þetta allt afar gegnsætt. Við störfuðum samkvæmt sérsamningi sem átti að gera launakjör okkar og starfsskilyrði sambærileg hinum almenna vinnumarkaði. Við sáum nákvæmlega hve mikið launin okkar lækkuðu. Kjaramálin voru miklum mun flóknari í mörgum öðrum skólum. Smám saman leitaði sparnaðurinn sér útrásar í stórauknu álagi og beinni skerðingu á þjónustu við nemendur.

Það er á þessum tímapunkti sem núverandi forysta félags grunnskólakennara gerir nýjan kjarasamning sem lekur í gegn í flóknustu og illskiljanlegustu atkvæðagreiðslu sögunnar. Kennurum var skipulega haldið frá mikilvægum upplýsingum í því skyni að fegra samninginn. Það fór enda svo að samningurinn reyndist hálfköruð vansmíð sem valdið hefur meiri skaða en gagni í skólunum – og nú er komin upp sú staða að enginn veit hvernig í ósköpunum eigi að halda áfram þeirri vegferð að halda hér úti skólastarfi.

Álagið innan í skólunum (leik- og grunn-) er með öllu óboðlegt. Það er útilokað að reka hér skólakerfi áfram eftir nokkur ár með sama framhaldi. Sú hugmynd að drýgja kennaralaun með eftirlaunagreiðslum sýnir kannski best í hvaða öngstræti er komið. Reykjavíkurborg er nú þegar ljósár frá því að uppfylla skyldur sínar um menntun og hæfi leikskólakennara. Fjöldi fólks er frá kennslu vegna örmögnunar og annarra langtímaveikinda – og kennarastéttinn eldist á ljóshraða.

Sú lausn sem kennarasamtökin og sveitarfélögin bjóða upp á er að leysa vandann með því að þeir kennarar sem ekki eru flúnir taka á sig skellinn. Elstu kennararnir kenna meira og lengur (það ríkir trúnaður um það en samtök kennara eru þessar vikurnar að semja um það á bak við tjöldin að seinka eftirlaunaaldri kennara). 

Ofan í þetta ástand bættist uppreisn skólastjóra nú á haustdögum, óvægin fjölmiðlaumfjöllun og reiði foreldra. Skólakerfið og pólitísk forysta þess riðaði til falls fyrir nokkrum dögum.

Þá er tilkynnt aðgerðaráætlun. Reynt er að halda því fram að fjársvelti síðustu ára sé nú búið að skila þeim árangri að hægt sé að blása til sóknar. Leggja á hundruði milljóna í aukin framlög til skólanna (sérstaklega leikskólana) og það sé bara byrjunin. Nú séu betri tímar framundan með blóm í haga.

Varnfærnisleg ánægjubylgja fór um samfélagið og viðbrögð kennara voru yfirleitt þau að kinka kolli og segja: „Það er synd að það hafi þurft þetta mikil læti til að menn vöknuðu þarna í ráðhúsinu, en það er gott að menn eru komnir á fætur.“

Þið verðið að fyrirgefa mér en mér líður svolítið eins og brennuvargur ætlist til að ég klappi fyrir honum eftir að hann hefur loks orðið við þrábænum nágrannanna um að henda gaskút niður af svölum á skíðlogandi húsi sem hann kveikti sjálfur í. 

Eina ástæða þess að borgin er að bakka með fyrirætlanir sínar er að síðasti skurður náði inn í kviku. Sársaukaöskrin voru svo heiftarleg að borgaryfirvöld skömmuðustu sín og það varð pólitískur ómöguleiki að reka skólana með þeim hætti sem menn ætluðu sér.

Það er eðlilegt að spyrja sig hvernig á því standi að borgin hafi ekki verið löngu búin að setja alla þessa peninga inn í kerfið fyrst þeir voru til. Ég hef séð marga spyrja sig að þessu.

Svarið við þessu er afar einfalt. Borgin heldur einfaldlega áfram að gera það sem hún hefur verið að gera síðasta ártug eða svo. Hún leggur byrðarnar á þá sem þrjóskast við að sýna henni tryggð.

Megnið af þeim peningum sem borgin leggur nú inn í kerfið fara beint í það að greiða fyrir langtímaveikindi starfsfólks og sérkennslu. Þessir tveir demparar skólakerfisins eru löngu brotnaðir. Kennarar hafa margir veikst (m.a. undan álagi og manneklu) og börn með sérþarfir hafa að mestu verið vanrækt í borginni frá hruni.

Nær allir peningarnir sem borgin er að setja nú í haust í skólanna eru ekki til sóknar – það er verið að skila peningum sem borgin átti aldrei neitt með að halda eftir, m.a. til að hafa efni á því að greiða kjörnum fulltrúum hærri laun.

En samt sem áður er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju var ekki búið að skila þessum peningum fyrr? Hvað voru menn að lúra á hundruðum milljóna á sama tíma og þeir gerðu brjálæðislegar hagræðingarkröfur á skólastjóra.

Svarið er einfalt. Kerfið er ekki bara að hrynja í föndurhorninu og matsalnum. Hið menntaða starfsfólk skólanna er á síðustu metrunum. Tilraunir núverandi kennaraforystu til að sannfæra kennara um að laun þeirra muni einhverntíma verða leiðrétt hafa mistekist. Meðalgrunnlaun grunnskólakennara eru til að mynda nú (eftir meintar stórhækkanir) tæp 90% af meðalgrunnlaun verslunarfólks í Reykjavík. En það virðist vera þegjandi samkomulag um það að einhversstaðar í námunda við það eigi íslensk kennaralaun heima – eitthvað sem ekki tíðkast í neinu landi sem við berum okkur saman við. Verst er að kennarar þurftu að „greiða fyrir“ sýndarlaunahækkanirnar núna með auknu álagi og minni réttindum. Þeir eru þess vegna búnir að fá miklu meira en nóg og framundan er enn meiri atgervisflótti. Þá hrynur skólakerfi borgarinnar – jafnvel þótt ellilífeyrisþegum verði sópað inn á skólagólfin.

Kennarar hafa nú verið samningslausir frá því í vor. Þeir hafa á þeim tíma í tvígang afþakkað kjarasamninga sem byggja á Salek-samkomulaginu. Þeir hafa sumsé í tvígang afþakkað það að vera krónískt festir í launum undir meðaltali.

Meðan borgin var að undirbúa það að krefja stjórnendur í skólum um hinn banvæna, ómögulega niðurskurð reiknaði borgin með að kennarar myndu fá Salek-hækkanir á þessu ári. 

Þegar kennarar felldu þá samninga hafði borgin um annað að hugsa. Skólastjórarnir voru komnir í stríð og foreldrar farnir að ókyrrast. Hin stórkostlega „sókn“ í skólamálum borgarinnar er að langmestu leyti borguð með því að kennarar fá þá barasta engar launahækkanir út þetta ár að minnsta kosti.

Það er verið að kaupa nýja dempara í bílinn með matarpeningunum.

Þetta veit hin meðvirka forysta kennara og það er henni alveg ljóst að ekki stendur til að gera neina samninga við kennara sem valda launahækkunum á þessu ári. Og forystan stendur á brauðfótum eftir að hafa í tvígang reynt að koma kennurum inn í Salek. 

Viðbrögð forystunnar eru í takti við það sem á undan er gengið. Nú þykist hún vera svo illa plöguð af höfnunarkennd eftir tvo fellda samninga að hún geti ekki á heilli sér tekið nema hitta hvern einasta kennara á landinu í kaffispjall.

Þess vegna er búið að skipuleggja a.m.k. tveggja mánaða töf á kjarapælingum á meðan forysta kennara heimsækir nærri tvöhundruð skóla.

Þessar heimsóknir í skólana hafa ekkert með það að gera að forystan viti ekki hvað kennarar vilja. Hér er einfaldlega verið að reyna að láta líta svo út sem eitthvað sé að gerast í þá mánuði sem skólayfirvöld í Reykjavík nota þær launahækkanir sem kennarar eiga rétt á til að bjarga eigin pólitíska lífi.

Þegar kennaraforystan ætlar að setjast niður aftur til að íhuga næstu skref verður orðið stutt í jól og áramót. Þá ætti borgin að vera búin að átta sig á því hvernig hún ætlar að hafa efni á kjaraþróun kennara árið 2017. Það raunar stendur skýrt í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar að kjarmál kennara séu ekki á dagskrá fyrr en á næsta ári.

Það er nefnilega ekki svo að borgin hafi í alvöru legið á miklum peningum sem hún hafi nú ákveðið að taka undan koddanum. Borgin er einfaldlega að gera það sem hún hefur alltaf gert. Hún veltir vandanum af einni hliðinni yfir á aðra – og nú á að refsa kennurum fyrir að hafa í tvígang afþakkað Salek-samninginn. Þeir skulu borga fyrir föndurdót leikskólabarna með því að fá engar launahækkanir fyrr en borgin hefur fundið einhverja leið til að hafa efni á þeim. 

Í stað þess að forysta kennara komi fram og afhjúpi þetta rugl setur hún á svið langsótt leikrit sem kostar fullt af peningum og hefur eina tilgang að fela fyrir kennurum hina raunverulegu, botnfrosnu stöðu. 

Og það má forystan eiga. Hún er að verða býsna góð í að setja á svið svona leikrit.

Á meðan blæðir skólakerfinu áfram hægt og rólega út.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu