Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Krafsað í Pótemkin-tjöldin í Kastljósi

Einhver kostulegasti Kastljósþáttur seinni tíma átti sér stað á dögunum. Tilefnið var það að stærstu aðilar vinnumarkaðarins höfðu stuttu áður gefið kennurum gula spjaldið og gert þá ábyrga fyrir stöðugleika á vinnumarkaði. Ástæðan er auðvitað sú spenna sem er undirliggjandi í kjaramálum kennara. Í vetur var naumlega samþykkt að grafa stríðsöxina í stuttan tíma meðan aðilar finna lausn á framtíðarskipan mála. Síðan hefur margt gengið á afturfótunum í samtali aðila (sem ég nenni ekki að skrifa um núna) og því er ljóst að það verður þrautin þyngri að komast hjá stórátökum næsta vetur. Stóru samtökin á vinnumarkaði voru sum sé að senda kennurum þau skilaboð að þeir ættu engar kjarabætur inni og væru þegar búnir að fá allt sitt og meira til. 

Það var svosem ekki það sem gerði Kastljós-þáttinn óborganlega. Heldur hitt, úr hvaða átt menn nálguðust málið. Rifrildið stóð að miklu leyti um hvort kennarar væru búnir að fá þær hækkanir sem ASÍ og aðrir aðilar vinnumarkaðarins væru sáttir við. Fyrir örfáum mánuðum fór formaður Félags grunnskólakennara fremstur í flokki þeirra sem töldu svo vera. Hann hefur hin síðari misseri ítrekað lagt fram gögn eða sett fram fullyrðingar sem gera sem mest úr meintum launahækkunum kennara á síðustu árum. Þetta hefur raunar farið svo mjög í taugarnar á mörgum öðrum kennurum að á tímum hefur staðið yfir hálfgerð styrjöld meðal grunnskólakennara um það að hversu miklu leyti „launahækkanir“ eru launatilfærsla – og að hve miklu leyti menn eru að fjármagna þær sjálfir með aukinni vinnu.

Í Kastljósþættinum reyndi formaðurinn ítrekað að beina umræðunni af þessari braut og sagði oft að það skipti raunar ekki máli hve miklar hækkanir kennarar hefðu fengið og hvort þeir hefðu fengið hækkanir umfram Salek-viðmið. Þeir ættu sjálfstæðan samningsrétt og mættu nota hann. Þetta hlaut hann auðvitað að segja, hefði hann ætlað að leggjast í nauðvörn fyrir þá afstöðu að við værum enn undir Salek-viðmiðum – hefði hann í raun endað á að rökræða við sjálfan sig og ótal eldri fullyrðingar sínar. Hann klóraði þó rifu á Pótemkin-tjöld hinna meintu ríflegu launahækkana þegar hann sagði í þættinum að hagfræðingur kennara væri á svipaðri skoðun og Halldór Halldórsson og teldi að launahækkanirnar hefðu alls ekki verið neinar hækkanir umfram það sem Salek-samkomulagið hefði tryggt kennurum sjálfkrafa.

Ég nenni heldur ekki að taka enn eina rispu á þessum punkti. Það er búið að rífast nóg um það hvernig í ósköpunum stóð á því að verið væri að vinna á bak við tjöldin að sjálfkrafa launahækkunum á fimm ára tímabili fyrir nær alla launþegar og að kennurum skyldi ítrekað stillt upp við vegg með róttækum samningum sem fólu í sér verulegt afsal réttinda og gæða – að því er virðist til þess eins að fá hækkanir sem þeim stóðu allan tímann til boða baráttulaust sem aðilum að Salek-hópnum.

Ég nenni samt að tækla mikilvægasta punktinn í þessu öllu. Það skiptir fjandakornið litlu máli hvort Ólafur Loftsson og Gylfi Arnbjörnsson mætist í Kastljósi og þrefa um þessi mál. Það sem skiptir öllu máli er afstaða Sambands sveitarfélaga. Þegar Ólafur sagði í Kastljósinu að hagfræðingur kennara væri sammála mati Halldórs Halldórssonar um launaþróun kennara fengu sveitarfélögin sitt langöflugasta vopn í komandi deilu. 

Afstaðan er sumsé þessi: Kennarar eiga enn inni örlitla sneið af kökunni sem þeir mega innheimta næsta vetur. Allt umfram það verður (í anda Salek) að vera fjármagnað með tilfærslu peninga. Þetta grófa mat hafa báðir aðilar nú staðfest eftir Kastljósþáttinn. 

Sveitarfélögin hafa ákveðið að skuldbinda sig til að hlýta þessu. Hvað sem líður kröfu kennara um sjálfstæðan samningsrétt. Stóru samtökin á vinnumarkaði hafa nú einnig stigið fram til áréttingar þessari kröfu. Þau geta það enda auðveldlega: Hið pólitíska landslag er þeim eins hentugt og hugsast getur.

Stóri óróleiki íslensks vinnumarkaðar síðustu ár eru ekki ríflegar launahækkanir þingmanna. Það eru hækkanir lækna sem settu allt úr skorðum og ógnuðu Salek. Þær voru réttlættar með því að þeim fylgdi ríkulegur þjóðarvilji og að þjóðin væri að tapa samkeppninni um fagfólk.

Það er ekki minnsti möguleiki á því að Kristján Þór Júlíusson, sem tekinn var úr heilbrigðismálunum eftir þessi málalok þar, muni endurtaka leikinn gagnvart kennurum. Hann er aldrei að fara að berja aftur í stöðugleikann ótilneyddur til að réttlæta stórbætt launakjör framhaldsskólakennara. Og hann mun ekki hika við að beita lagasetningu á kjaradeilur eftir að þeim hefur verið leyft að malla í einhverjar vikur með tilheyrandi andúð á kennurum.

Engin ríkisstjórn hefði getað orðið til sem líklegri er til að stöðva kjaradeilur kennara með valdi. 

Halldór Halldórsson er búinn að kasta hanskanum. Hann segir: Kennarar eru enn innan Salek rammans enda hefðum við aldrei samþykkt annað!

Þetta er staðan einmitt núna. Það er verið að hlaða fallbyssurnar fyrir stríð. 

Stór hluti kennara vildi taka orrustuna alla leið síðasta vetur. Það var ákveðið að fresta því um ár. Kennaraforystan vonaði að á þessu ári myndi Salek-ramminn springa af sjálfum sér. Nú stendur yfir nauðvörn fyrir rammann. Nú vona grunnskólakennarar að það verði framhaldsskólakennarar sem sprengi hann. Ef ramminn heldur þar til næsta vetur kemur það í hlut grunnskólakennara að reyna. Sú barátta verður enn erfiðari en hún var nú í vetur einmitt vegna þess hve oft honum hefur verið bjargað. 

Á meðan hverfur fólk af gólfinu. Mjög margir kennarar eru á leiðinni út. Það fást ekki lengur nýir kennarar í stað þeirra. Meirihluti skóla er þegar byrjaður að draga úr þjónustu við nemendur. Næsta vor munu mjög margir kennarar spyrja sig að því hvort þeir ætli að skrá sig til orrustu eða fara til annarra starfa. 

Skólarnir halda áfram að skaðast – og var skaðinn ærinn fyrir.

Allt er þetta á ábyrgð forystu sveitarfélaga. Skólamál eru á könnu fólks sem er, satt að segja, lélegir stjórnmálamenn með áberandi lítinn skilning á málefnunum og litla framtíðarsýn. Íslensk grunnskólamál eru í djúpri krísu – og það er ótrúlegt hve Samband sveitarfélaga kemst upp með að þvo hendur sínar af ástandinu og halda sig til hlés. 

Hvurn fjandann er Gylfi Arnbjörnsson að vilja upp á dekk sama daginn og Halldór Halldórsson kastar stríðshanskanum í kennara? 

Menntapólitík er að verða álíka smjörkennd og almenna pólitíkin. Þegar pólitíkusinn vill einkavæða heilbrigðisþjónustu fer umræðan að snúast um vín í Bónus. Þegar menntakerfið er farið að loga snýst umræðan um matarbakka í leikskólum eða forseta ASÍ.

Við höfum mjög lítinn tíma og engin efni á að vera að eyða honum í aukaatriði.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu