Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hveitibrauðsdagar forsetans senn á enda

Ef Guðni Th hefur einhverja völ á því þá drífur hann sig í að skrifa undir búvörusamninginn sem Alþingi samþykkti í dag. Það verður nefnilega ekki einfalt mál fyrir hann að bregðast við þeim straumi undirskrifta sem munu (auðveldlega) safnast gegn búvörulögum.

Að senda búvörulög í þjóðaratkvæði (þar sem þau verða líklega felld) er rammpólitískt. En með hálfkáki hefur þingheimi tekist að vekja upp verulegar efasemdir um að meðferð málsins sé í samræmi við stjórnskipan landsins. Það getur ekki verið eðlilegt að þingmenn skrópi kerfisbundið og sitji með hendur í skauti til að þurfa ekki að tækla erfið mál inni á þingi. 

Því fer fjarri að meirihluti þings standi á bak við búvörulög. Því fer fjarri að meirihluti þjóðarinnar geri það. 

En það er innbyggt í kerfið að svona málum er hleypt í gegn í einhverskonar þegjandi samkomulagi. Það liggja sterkir, pólitískir þræðir frá málinu um allt samfélagið. Áhrif þess að stöðva það geta orðið róttæk og haft veruleg áhrif á pólitíkina. Það er ekki eins og Framsóknarflokkurinn hafi tækifæri til að koma málinu aftur á dagskrá verði það fellt eða dregið til baka. Ekki ef kosningar verða á áætluðum tíma.

Og allir flokkar, nema Björt framtíð, munu vera í vandræðum með að réttlæta sinnuleysi sitt í málinu. Korter í kosningar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni