Djarfur leikur Pírata
Píratar léku í dag býsna djarfan leik.
Þau fimm mál sem Píratar setja á oddinn eru mjög misumdeild.
Allir vilja bæta heilbrigðiskerfið, berjast gegn spillingu og auka vald almennings. Þessi mál er tiltölulega auðvelt að semja um við hvern hinna flokkana sem er.
Hin tvö málin eru erfiðari. Ný stjórnarskrá og róttækar breytingar á sjávarútvegi eru mál sem erfiðara mun reynast að semja um. Þetta eru líka mál sem barist verður gegn í þinginu af fullri hörku.
Ný stjórnarskrá er erfiðasta og stærsta málið. Sérstaklega ef henni er ætlað að innihalda grundvallarbreytingar sem snerta hina þættina fjóra.
Það er grundvallarmunur að mynda ríkisstjórn um tiltekin mál á kjörtímabilinu og því að mynda ríkisstjórn um grunvallarbreytingar á stjórnarská.
Hrátt stöðumat sýnir að leikur Pírata er, frá þeirra sjónarhóli, hinn rétti í stöðunni. Annað hvort komast þeir í ríkisstjórn á þessum forsendum eða ekki. Ef þeir komast í ríkisstjórn verður það vegna þess að samkomulag næst um þessi grundvallarmál. Ef þeir komast ekki munu hlutirnir annaðhvort batna af sjálfum sér eða ekki. Ef ekki, þá fá Píratar pottþétt sóknarfæri aftur. Ef hlutirnir batna án þeirra eru Píratar eflaust samt frekar sáttir. Þetta er fylgifiskur þess að vera stjórnmálafl sem hefur ekki það lokatakmark að komast til valda – heldur aðeins að stuðla að breytingum.
Aðalástæða þess að Píratar kjósa þessa leið er samt augljósa sú að hér er verið að búa til kosningamál. Með kosningabandalagi um þessi mál er komin réttlæting til að stöðva með afli það málþóf sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn munu beita. Báðir flokkarnir munu vita að spilið er tapað og líklega verður þeim fyrir bestu að spila með.
Sjálfstæðisflokkur og Framsókn munu eiga örvæntingarfulla daga á næstunni þar sem allt er undir í því að tryggja sér stuðning Viðreisnar og/eða Bjartrar framtíðar.
Þetta vita auðvitað Viðreisn og Björt framtíð.
Ef fólk innan Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er eins klókt og ég held að það sé er líklega besti kostur þeirra í stöðunni að taka þátt í viðræðum við Pírata, Samfylkingu og Vinstri græna en tryggja það að engar niðurstöður komist í málið. Nota sem rök að það sé einfaldlega of stuttur tími til að afgreiða svona stór mál með fullnægjandi hætti á örfáum dögum í aðdraganda kosninga.
Vandinn við það er að ef stjórnarskrármál eru ekki komin rækilega á oddinn fyrir kosningar verður ekki hægt að halda því fram að þau hafi verið það kosningamál sem Píratar eru nú að reyna að gera þau að.
Þar sem útilokað er að núverandi stjórnarflokkar nái aftur meirihluta þá hlýtur samt að vera freistandi fyrir aðra flokka að kaupa sig inn í ríkisstjórn áður en kjörstaðir svo mikið sem opna. Slíkar tryggingar fást almennt séð ekki keyptar í pólitík. Viðreisn og Bf fengju að vera leiðandi í mótun endurreists viðskipalífs og þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við ESB færi fram.
Það gæti jafnvel verið sterkur leikur hjá Viðreisn að stökkva á tilboðið, vitandi það að Björt framtíð er þegar búin að svara með dæmigerðri hálfvelgju þess flokks. Viðreisn hefur þegar sannað að hún er til í djarfa leiki – og lög gegn kynbundnum launamun myndu fljúga í gegn og mynda langþráðan snertipunkt í annars erfiðu sambandi við Vinstri græn. Við slíkar aðstæður ætti Bf bara tvo kosti. Að verða fyrir stigvaxandi þrýstingi eða druslast til að elta hina síðastir allra. Báðir kostir myndu hafa neikvæð áhrif á fylgið.
Samfylkingin hefur auðvitað engu að tapa og það er gamall draumur Vg að einangra núverandi stjórnarflokka (þótt þar séu menn ekki nema mátulega hrifnir af sumum hinna flokkanna).
Stóri vandi Pírata er samt sá að þeir ganga út frá því að aðrir flokkar séu ólíkir þeim sjálfum. Þeir treysta á það að tilboðinu verði tekið vegna þess að aðrir vilji eiga greiða og örugga leið að völdum.
Það eru samt dálitlar líkur á því að einhverjir hinna flokkanna hugsi sem svo að það sé áhættunnar virði að missa af völdum í áskrift gegn því að komast mögulega í betri stöðu eftir kosningar.
Eins og staðan í pólitíkinni er þá er ekki hægt að útiloka það að upp komi staða sem klókir stjórnmálamenn geti spilað listilega úr.
Það eru spennandi tvær vikur framundan.
Athugasemdir