Hver er staða gjafmildi á Íslandi?
Að brjóta odd af oflæti sínu, það er þroskamerki. Að teygja sig til annarra og beygja sig fyrir þeim, það er kærleikur. Getur Ísland gefið öðrum meira en það gerir, og ef svo er, hvað þá helst?
Einstaklingar gefa, hópar, félög, sveitarfélög og heilu þjóðirnar gefa öðrum. Gildi gjafarinnar er þó oft verulega vanmetið. Jafnframt er það hulið fyrir mörgum hversu margt og fjölbreytilegt unnt er að gefa. Gjöfin felst meðal annars í því að veita af tíma sínum, hug og krafti.
Sá sem gefur byggir aðra upp.
Gjöfin er í raun höfuðdyggð sem hvetur fólk til að æfa og efla með sér gjafmildi. Því meira sem manneskja getur gefið, því gæfuríkari verður hún. Töframáttur gjafarinnar felst í því að auðga aðra og sjálfan sig í leiðinni. Sá sem gefur öðlast velvild þótt hann viti ekki af því.
Gjöfin er líftaug í sambandi einstaklinga við umheiminn. Hún býr í sambandinu á milli þeirra sem búa saman. Ekki aðeins innan dyra heimilis, heldur í samfélaginu og í samfélagi þjóða. Sá sem hættir að gefa, einangrast fljótlega og samband hans við aðra líður undir lok.
Andhverfa gjafarinnar er græðgi en sá sem tekur af öðrum, hugsar fyrst og fremst um að græða sjálfur og skapar ósjálfrátt samfélag sem á endanum sundrast. Andhverfan skapar gjár og bil milli hópa.
Hvernig er hægt að rannsaka stöðu gjafarinnar á Íslandi?
Greina má að borgarar þessa lands hafa mikinn áhuga á að efla mátt gjafarinnar í samfélaginu. En fellur gjafmildin í góðan jarðveg? Fer styrkleiki græðginnar, vaxandi? Hverjar eru helstu hindranir sem verða á vegi gjafarinnar? Hversu mikið aðdráttarafl hefur hún í stjórnmálum og hjá kjósendum?
Styrkleiki gjafarinnar er meðal annars mældur í þróunarsamvinnu. Er hún ofarlega á lista, eykst hún um þessar mundir eða dregst hún saman? Svarið er að hún er ekki nægjanlega öflug og verður ekki aukin á næsta ári, þrátt fyrir velvild þjóðarinnar til að bæta líf annarra.
Styrkur gjafarinnar felst meðal annars í viðleitni til að taka á móti flóttafólki og hælisleitendum. Flóttafólk hefur undanfarna mánuði sannað fyrir yfirvöldum og almenningi í Evrópu að reglur sem gilda um þau brjóta á mannréttindum þeirra. Íslensk sveitarfélög hafa gefið út viljayfirlýsingu í þessum efnum og eru reiðubúin til að gefa meira.
Margskonar gjafir hafa gildi
Gjafir þjóða geta verið margvíslegar, þær geta verið í formi peninga og aðstöðu, en þær geta einnig verið vinsemd, jafnrétti, reynsla og liðveisla. Ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.
Frelsi þjóðar veitir ímyndunarafli borgaranna kraft til að skapa sér ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu. Beinum hugmyndafluginu og sköpunargáfunni að spurningunni: Getur Ísland gefið öðrum meira en það gerir og hvað þá helst?
Ekki spyrja hvað græðum við á hinu eða þessu. Ekki spyrja hverju við töpum á því. Spyrjum fremur: Hvað getum við gefið öðrum? Af nægu er að taka, við getum gefið þekkingu, frelsi, friðsemd, kærleika, vegabréf, húsaskjól, máltíð, undanþágu frá reglunni, menntun, jöfnuð, stuðning …
Gjöfin stendur ávallt með lífinu, það einkennir hana, en sérkenni hennar felst í því að sá sem gefur öðlast eitthvað annað síðar.
Staða gjafmildi á Íslandi gæti verið sterkari en það er ekki svo vandasamt að styrkja hana: Tökum þátt, einstaklingar, hópar, félög, sveitarfélög og ríkisstjórn: Gefum, gefum til að öðlast virðingu.
Verkefni dagsins er að gefa
Verkefni dagsins er að gefa, því gjafir bera ríkulegan ávöxt. Aðeins þarf að grípa tækifærin sem gefast, skynja þörf og uppfylla hana.
Athugasemdir