Engin er lukka án hrukku
Heimspekingar hafa rannsakað hamingjuna frá mörgum hliðum. En hvað með svefn? Hefur svefn áhrif á hamingjuna? Hvað segja orðatiltækin um það?
Hvorki svefn né hamingja fá ótvíræð meðmæli í íslenskum málsháttum, orðatiltækjum eða vísum. Fremur má greina þar viðvörun. Það er ævinlega betra að vaka og vinna heldur en að sofa og það er ekki talið gáfulegt að fagna eða njóta hamingjustunda. Ekki njóta stundarinnar, það er of mikil áhætta. Lífið er ekki núna. Ef hamingja er á sveimi þá er best að ganga hægt um gleðinnar dyr til að styggja hana ekki.
Vant er hamingjunni að trúa
Það var ekki sjálfsagt að höndla hamingjuna eða festa hendur á gæfunni. „Valt er hamingjunni að treystast, að eigi bresti hún”. Hamingjan er greinilega óstöðugt fyrirbæri og henni er vant að trúa því að hún veltur ýmsa vega.
Engin er lukka án hrukku og lukkan er ekki lengi að snúa sér. Fáir láta sér sína lukku nægja og ýmislegt kann ekki góðri lukku að stýra. Eins og allir vita þá hefur lukkan einnig fallvaltan fót.
Illt er við hamingjuna að etja og rammvillt er hamingjuhjólið. Hamingja fer ekki nauðsynlega til þeirra sem eiga hana skilið. Þeir sem sífellt eltast við hamingjuna finna hana víst sjaldnast, því hún er skrýtin skepna. Allir elska hamingjuna, en hamingjan aðeins fáa.
Theódóra Thoroddsen kvað „Tindilfætt er lukkan/ treyst henni aldrei þó. /Valt er á henni völubeinið/ og dilli- dó.” Matthías Jochumsson kvað „Trú þú ei, maður, á hamingjuhjól/ heiðríka daga né skínandi sól/ þótt leiki þér gjörvallt í lyndi.”
„Einatt er góðs manns auðnu skeinuhætt,” skrifaði Shakespeare.
„Það er gæfa sem segir sex/ ef í sífellu vex hún og vex/ en ýmsa mun gruna/ að gott sé að muna/ að gæfan er brothætt sem kex,“ kvað Hrófur Sveinsson (Helgi Hálfdanarson).
Ekki hugsa um hamingju!
Ekki hugsa of mikið um hamingjuna. „Spyrðu sjálfan þig hvort þú ert hamingjusamur og þú hættir að vera það,” skrifaði James Stuart Mill heimspekingur. Hættum strax að leita hennar. „Ef við hættum að leita hamingjunnar í sífellu, myndum við skemmta okkur ágætlega,” sagði Edith Wharton rithöfundur.
En „öruggasta leiðin til að forðast óhamingju er að gera ekki kröfur til mikillar hamingju,“ sagði Arthur Schopenhauer. „Ævilöng hamingja! Enginn gæti þolað hana: það væri helvíti á jörðu,” sagði George Bernard Shaw.
En fáir hafa orðað undrun sína yfir hamingjunni betur en á eftirfarandi hátt „Ég hef engan tilgang, ég hef enga stefnu, engan metnað, enga skoðun og samt er ég hamingjusamur. Ég skil þetta ekki. Hvað er ég að gera rétt?” Charles M. Schulz teiknari Snoopy.
Ekki fara að sofa!
Svefn fær heldur ekki góða einkunn í málsháttum, vísum og orðatiltækjum. Enginn sefur sér sigurinn í hendur og fátt veit sá er sefur.
„Sofðu í gröfinni, Ólafur,“ var sagt við mann sem ætlaði að leggjast til svefns. Hann átti hvorki að neyta svefns né matar. Letin svæfir þungum svefni. Sennilega er ágætt að sofa svefni hina réttlátu, en ekki of lengi því svefninn langi er orðasamband yfir dauðann sjálfan. Halda ber vöku sinni og ekki má sofna á verðinum. En að sofa eins og rotaður selur var sagt um þá sem sváfu vel og lengi.
Það þótti löstur að sofa of mikið, því að það bitnar á vinnusemi og efnahag manna. „Langir svefnar löstum safna.“ Fólk átti að vinna vel og sofa síðan mátulega lengi. Vinna gerir væran svefn en svefn var samt flokkaður með óþarfa hlutum.
Sjaldan getur (fær) sofandi maður sigur, segir í Hávamálum og talið var víst að margur sofi af sér mikla lukku.
Páll Ólafsson kvað um samband sitt við lóuna „Hún hefir sagt mér til syndanna minna/ ég sofi of mikið og vinni ekki hót. /Hún hefir sagt mér að vaka og vinna.“
Hefur svefn áhrif á hamingjuna?
Þetta segja málshættir, orðatiltæki og vísurnar, en hvað segja Forngrikkir eða nútímasálfræðingar?
Allir stefna leynt eða ljóst að hamingju, en hvernig nálgumst við hamingjuna? Við Erla Björnsdóttir sálfræðingur ræðum hamingjuna og svefn út frá ýmsum sjónarhornum, m.a. út frá heilsu, hegðun og viðhorfi í heimspekikaffinu Hefur svefn áhrif á hamingjuna? í Borgarbókasafninu Gerðubergi miðvikudaginn 24. janúar kl. 20. Velkomin.
Athugasemdir