Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Græna, græna byltingin?

Græna, græna byltingin?

Eru tíu umhverfisflokkar í framboði? Er ,,græna byltingin“ – sem Spilverk þjóðanna söng um, runnin upp? Eða eru bara persónur í framboði, en ekki flokkar (ef dæma má af auglýsingum)?

Þetta eru spurningar sem leita á hugann nú fyrir þessar kosningar, þar sem tíu flokkar bjóða fram á landsvísu og eitt framboð í öðru Reykjavíkurkjördæminu.

Græn stjórnmál eru ekki gömul í stjórnmálalegu samhengi, en segja má að þau hefjist fyrir alvöru í kringum 1970, þegar flokkur Græninga (Die Grüne) var stofnaður í Þýskalandi. En síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú virðist vera sem allir íslensku flokkarnir séu grænir flokkar. Eða minnsta kosti segjast vera það. Allir vilja vera vænir og grænir.

Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn, sem hingað til hefur ekki látið umhverfismál sig miklu varða, heldur eiginlega frekar hitt, og hefur hann stutt dyggilega við stóriðju og efnahagskerfi þar sem losun er mikil, t.d. í sjávarútvegi (þó hún hafi minnkað þar).

Þá hefur VG ekki alltaf verið jafn grænn og hann segist vera, enda studdu aðilar innan hans meðal annars byggingu kíslilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík.

Einn helsti gallinn við aðgerðir í loftslagsmálum er að ekki er hægt að framfylgja þeim af meiri hörku eða ákveðni. Það væri hins vegar æskilegt. Sama hvort um er að ræða Kyoto-sáttmálann, Parísar-samkomulagið eða aðra sáttmála.

Þetta eru bara loforð, sem ekkert mál er fyrir þá sem að þeim standa, að svíkja og fylgja ekki eftir. Það er risastór galli.

Það er reyndar þannig með fulltrúalýðræðið í heild sinni að sá sem kýs hefur enga tryggingu fyrir því að þau loforð sem eru gefin, séu haldin. Enda er fulltrúðlýðræði mannaverk og því ekki fullkomið.

Tískuorðin í sambandi við loftslagsmálin eru t.d. ,,orkuskipti“, kolefnishlutleysi og ,,loftslagsvá.“ Með orkuskiptum er átt við að samfélagið færi sig frá jarðefnaeldsneyti til raforku og á þinginu 2015-16 var lögð fram þingsályktun um orkuskipti og var hún samþykkt á þinginu 2017.

En verkefnin eru ærin á þessu sviði, Ísland losar enn mest í Evrópu, eða eins og segir í nýlegri frétt um málið: ,,Heildarlosun Íslendinga var 40,9 tonn af gróðurhúsalofttegundum á hvern íbúa 2019, en meðallosun Evrópusambandsríkjanna nam 7,8 tonnum á mann.“ (Ruv.is).

Aðgerðir í loftslagsmálum kosta - og þær kosta mikið. Það verður því mjög fróðlegt að sjá hvort innistæða er á bakvið loforð allra flokka um loftslagsmálin, sem án efa eru tískuorðið í kosningunum árið 2021. Verður græn bylting eða ekki?

Mynd: Hljómplatan Ísland, með Spilverki þjóðanna, en lagið Græna byltingin var það að hlið B, enda var þetta vínylplata.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni