Framtíðarsýn óskast: Um vinstri stjórnmál og hugveitur
Lýðræðið er í krísu, efnahagskerfið í krísu og umhverfismálin eru í krísu, jöfnuði er ýmist ógnað eða mjög úr honum dregið, klofningur fer víða vaxandi. Þessi vandamál eru til staðar víða um heim, en eru misalvarleg eftir ríkjum og landsvæðum. Þau eru öll tengd og samtvinnuð á ýmsa vegu. Ísland er ekki undanskilið.
Það er of langt mál að skoða öll þessi vandamál til hlítar hér, og raunar er gnægð af efni til um þessi mál. Það dugar kannski að nefna nokkur dæmi, eins og loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra, ofnýtingu auðlinda jarðar, að auður heimsins safnast sífellt á færri hendur, og að ýmis öfl nota fjármagn auðmanna til að hafa áhrif á stjórnmál almennt, oft í átt að klofningi og tvístrun. Þetta eru alvarleg mál og þarf að takast á við þau af alvöru og festu.
Það er hins vegar erfitt að sjá að málin séu tekin þessum tökum, m.a. hér á Íslandi. Við erum farin að sjá aðgerðir í loftslagsmálum, þótt smáar séu, og eitthvað er tekið að þokast í áttina því að jöfnuður sé tekinn alvarlega í opinberri umræðu, en lítið um aðgerðir enn sem komið er. Hér er ekki átt við að Ísland geti eitt leyst öll þessi vandamál heimsins, en það er samt ljóst að þau eru einnig okkar að leysa, eins og annarra ríkja. Við erum þátttakendur í samtengdu samfélagi heimsins.
Þörfin er sannarlega brýn, og þrátt fyrir stóran hóp fólks sem kallar eftir breytingum, einkum á vinstri væng stjórnmálanna, gerist lítið. Af hverju? Og hvað er hægt að gera?
Reddingar eru andstæða festu
Ef eitthvað einkennir stjórnmál á öllum tímum eru það reddingar: Bráð vandamál koma upp sem þarf að leysa skjótt, lausnir eru fundnar og málunum „reddað“. Það er eðlilegur hluti lífsins að finna skyndilausnir, en þær duga stundum ekki til – einnig verður að huga að langtímalausnum, því hin bráðu vandamál eiga sér oft orsakir í langtímavanda.
Í stjórnmálunum, einkum á vinstri vængnum, einkennist umræðan mjög mikið af því að bregðast við einhverju ástandi, hvort sem það er efnahagsástand eða óréttlæti af einhverjum toga – aðallega þó þessu síðarnefnda. Mun minna er þó gert af því á þessum væng að hugsa um og leysa langtímavandamál, en það er ekki út af mannlegum brestum einstakra stjórnmálamanna, heldur af því að vinstrið á sér engan vettvang þar sem færi er á að gera slíka hluti. Dæmi þar sem þetta birtist eru ýmsar fálmkenndar hugmyndir til að bregðast við ójöfnuði, en engar langtímahugmyndir eru uppi um uppstokkun skattkerfisins, eða á eignarhaldi fyrirtækja. Of lítið er hugsað til langs tíma.
Áhrifin af þessu ástandi eru ótvíræð, og birtast kannski helst þegar velviljað fólk kemst til valda, fólk sem vill breytingar, en endar á að vera nauðbeygt til að gera hlutina öðruvísi en það hefði kannski viljað. Þetta er trúlega það sem gerðist með hina svonefndu vinstristjórn á Íslandi, sem var við völd 2009 til 2013. Minna varð úr en ætlað var, og þess vegna er hún “svonefnd”. Á þeim tíma sem stjórnin var við völd gekk mikið á í samfélaginu og mikið gert til að spilla því sem stjórnin ætlaði sér. Léku þar ýmis öfl á hægri væng stjórnmálanna lykilhlutverk og jafnvel fólk á vinstri vængnum lagðist á sveif með þeim. Fór svo að lokum að margt sem stjórnin ætlaði sér varð ekki að veruleika, eins og endurskoðun stjórnarskrárinnar og miklar umbætur hvað varðar jöfnuð. Þá var bankakerfið endurreist í óbreyttri mynd, sem voru mistök, því við þurfum miklar umbreytingar á fjármálakerfinu – meira um það síðar. Mörg skref voru þó tekin og margt gekk eftir, sem enn gagnast samfélaginu, þrátt fyrir allt.
Þegar upp er staðið og rykið er sest eftir þessa atburði alla, er ljóst að fátt var um öfl á vinstri vængnum sem gátu veitt faglega en hugmyndafræðilega leiðsögn og umsögn um þau mál sem voru í brennidepli umræðunnar á sínum tíma, öfl sem gátu stutt það sem þó var gott og gilt í þeim tillögum öllum sem komu fram, öfl sem hugsa til langs tíma, og fyrir vikið voru hægri-sinnuð öfl að miklu leyti ein um að fjalla um málin. Lítil félagasamtök og stéttarfélög (og sambönd þeirra) gerðu vissulega sitt besta, en þau fyrrnefndu hafa takmarkaða burði til að standa í slíkri orrahríð til lengdar, á meðan viðfangsefni stéttarfélaganna er mestmegnis kaup og kjör en síður t.d. bankakerfið og stjórnarskráin. (Stéttarfélögin og sambönd þeirra beita sér þó, sem er vel, en meira þarf til.) Vinstrinu vantar þannig öfl sem geta fjallað um þessi mál og haldið uppi umræðu um þau til lengri tíma. Þannig má ná meiri árangri og þannig má ná fram stærri málum sem taka langan tíma að ná í gegn allajafna.
Ástæða þess að vinstristjórnin svonefnda náði takmörkuðum árangri er skortur á slíku afli. Það er enn fremur ástæða þess að haldið var í margar af hugmyndum frjálshyggjunnar í stefnu stjórnarinnar – það var fátt annað í boði, sem stjórnmálamennirnir þekktu og skildu. Slíkar hugmyndir eiga sér líka öfluga málsvara m.a. hjá Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands, sem og minni samtökum eins og Rannsóknarsetri um nýsköpun og hagvöxt. Það getur reynst erfitt fyrir stjórnmálamenn að standa gegn slíkum öflum, þegar mótvægi við þeim skortir.
Vandinn er þannig fólginn í því að starf vinstrisinnaðra flokka, og raunar umbótahreyfinga almennt, er ekki skipulagt nógu vel, er ekki hugsað til mjög langs tíma, og felst ekki að nógu miklu leyti í því að breyta gildum, ýta við og leggja fram heildstæðar og ígrundaðar hugmyndir, vinna inn traust og svo framvegis. Slíkt starf er auðvitað alger andstæða við reddingar rétt fyrir kosningar.
Með þessu er alls ekki átt við að stjórnmálaflokkar vinstrisins séu ónauðsynlegir eða ekki mikilvægir, og með þessu er ekki reynt að gera lítið úr starfi vinstrisinnaðra flokka. Þvert á móti; þeir eru nauðsynlegir og hafa unnið gott starf í gegnum tíðina. En það er skortur á öðru starfi líka – starfi sem styður stjórnmálaflokkana í verki, hjálpar til við að halda stjórnmálamönnum við efnið, ýtir við gildum almennings og fjölmiðlamanna, og svo framvegis. Það er skortur á slíku sem gerir það að verkum að vinstri- og umbótahreyfingum gengur almennt illa að fóta sig og ná árangri. Það er líka ástæða þess að þessi armur stjórnmálanna hefur engar heildstæðar hugmyndir um hvernig samfélagið á að vera uppbyggt. Það er líka þessi skortur sem gerir það að verkum að stjórnmálamenn halla sér að frjálshyggjuhugmyndum þegar á reynir enn í dag – það skortir afl sem setur fram umbótasinnaðar hugmyndir á skipulegan hátt, sem svo stjórnmálamenn og aðrir geta gripið til þegar á reynir.
Margir eru sennilega ósammála ofangreindu og telja einfaldlega að þörf sé á nýju stjórnmálaafli – þetta er sama hugsun og var ríkjandi eftir hrunið 2008. Gott og vel, en á hvaða hugmyndum á að byggja þetta afl á og hvernig ætlum við að sjá til þess að þær séu trúverðugar og teknar alvarlega, þegar völdum hefur verið náð? Það skortir.
Hugmyndirnar eru vissulega til, og fjallað er um nokkrar hér á eftir. Einnig er lögð fram tillaga að afli til að styðja við hugmyndirnar.
Hugmyndir fyrir framtíðina
Framtíðin er það sem stjórnmál vinstri flokka eiga að snúast um, um hvernig samfélag framtíðarinnar við viljum byggja. Þetta hljómar augljóst, en þetta þó vill gleymast í starfi þeirra – ekki er hugað nógu vel að hugmyndunum sjálfum, úrlausn þeirra og hvort þær séu trúverðugar. Mun meiri athygli fá alls konar ummæli hinna og þessa, og ýmis smærri mál.
En hvaða framtíð? Það verður að hugsa lengra fram í tímann en eitt kjörtímabil; heimurinn er allur að breytast, auk þess sem ríkjandi hugmyndir frjálshyggjunnar eru gjaldþrota fyrir margt löngu. Vinstrið verður að huga að úrbótum, gera jöfnuð sjálfsagðan á ný, leita leiða til að auka traust í samfélaginu, stokka upp fjármálakerfið, endurskoða stjórnarskrána, og fleira til. Við verðum að taka á umhverfisvandanum af alvöru og festu, en allt krefst þetta trausts, langtímaþankagangs og mikillar samvinnu alls samfélagsins.
Og það er ekki eingöngu nauðsyn til breytinga, heldur einnig tækifæri á næstu árum. Tækifærið er tilkomið vegna þess að þörf á hröðum breytingum sökum loftslagsbreytinga, vegna faraldursins og mikilla breytinga i efnahagskerfinu.
En allt krefst þetta nýrra og en jafnframt gagnreyndra hugmynda. Við þurfum framtíðarsýn.
Hér eru nokkrar hugmyndir sem gætu verið grundvöllur slíkrar framtíðarsýnar, framtíðarsýnar sem tekur á vanda lýðræðisins að nokkru, á ójöfnuði og umhverfisvandanum að einhverju leyti:
- Borgaraþing: Á borgaraþingum kemur almenningur saman til að ræða tiltekið álitamál og leggur fram lausnir. Við eigum að gera borgaraþing sjálfsagðan hluta samfélagsins, og útbúa rama í kringum þau til að hægt sé að kalla til þeirra þegar á þarf að halda. Markmiðið með borgaraþingum almennt er dýpkun lýðræðisins. Borgaraþing samanstanda yfirleitt af slembivöldum hópi almennra borgara, um 80 til 120 manns, sem hittist í eigin persónu og ræðir málin. Eins konar leiðsögumaður leiðir hópinn, og getur hópurinn kallað til hvaða sérfræðinga sem er, hvaða fulltrúa úr félagasamtökum sem er, og svo framvegis. Hvert borgaraþing situr allajafna í þrjá til sex mánuði og skilar af sér niðurstöðum eftir það. Þau má kalla saman til að ræða ýmis mál, en best er ef hvert borgaraþing fær afmarkað úrlausnarefni í hendur. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel á Írlandi til að takast á við erfið mál, eins og loftslagsbreytingar og öldrun landsmanna. Í Bretlandi var starfrækt borgaraþing um loftslagsbreytingar. Slík borgaraþing geta, með tíð og tíma, orðið einn af hornsteinum lýðræðisins, rétt eins og þjóðþingin eru í dag. Má vera að þau komi ekki í stað þjóðþinganna, heldur starfi við hlið þeirra þegar þörf er á, og vinni sérstaklega að málum sem eru erfið fyrir þjóðþingin að glíma við.
- Lýðræðisleg fyrirtæki: Hér er um að ræða fyrirtæki sem starfsmennirnir eiga og hafa mikið um stór stefnumál þeirra að segja. Ekki er beinlínis kosið um alla mögulega hluti í slíkum fyrirtækjum þrátt fyrir nafngiftina, heldur eru valdir stjórnendur sem sjá um daglegan rekstur, en þeim er þó hægt að bola út ef þeir ekki standa sig. Starfsmennirnir, sem jafnframt eru eigendur, móta stóru línurnar um stefnu fyrirtækjanna. Hagnaðurinn af rekstrinum er ýmist settur í að undirbúa fyrirtækin fyrir framtíðina eða greiddur út sem arður til starfsmannana. Þessi fyrirtæki eru til erlendis og meira að segja í allmiklum fjölda, en eru lítt þekkt á Íslandi. Þau starfa innan markaðshagkerfisins, eins og önnur fyrirtæki.
- Breyttur tilgangur hagkerfisins: Í stað þess að fyrirtækin séu eingöngu rekin til að eigendurnir hagnist, þá er fremur stefnt að velferð og góðu lífi starfsmannanna, auk ábyrgðar gagnvart samfélaginu og umhverfinu. Hagvöxtur yrði ekki markmið í sjálfu sér í efnuðum samfélögum, heldur frelsi til að vera laus undan vinnu með skemmri vinnutíma, sem og velferð og jafnvægi í nýtingu auðlinda og endurnýjunar þeirra.
- Samfélagsbankar: Samfélagsbankar eru bankar sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni fyrir fjarstadda eigendur, heldur í þágu viðskiptamanna bankans og nærumhverfis hans. Eru slíkir bankar þekktir víða erlendis, meðal annars í Bretlandi með hinum svokölluðu building societies, og í Þýskalandi með neti sparisjóðabanka (sparkasse). Hugmyndin hér er ekki að byggja upp aftur sparisjóðanna sem voru reknir á Íslandi og þjónuðu aðeins tilteknum landsvæðum, heldur nýja banka sem starfa á annan hátt og eru reknir sem sjálfseignarstofnanir. Skynsamlega reknir samfélagsbankar geta verið mikilvægt afl til að gera hagkerfið stöðugra, en hagnaðardrifnir bankar hafa víða leitt af sér efnahagskrísur, eins og þekkt er. Með samfélagsbönkum má jafnframt veita fé til uppbyggingar lýðræðislegra fyrirtækja og í stað þess að bankar greiði út fé til ýmissa fjarstaddra aðila, þá myndi ágóðinn renna til viðskiptamannanna í gegnum lægri þjónustugjöld og stöðugs efnahagskerfis.
Með þessari upptalningu er ekki átt við að allt annað sé sett til hliðar af hálfu vinstrihreyfinga, eins og í velferðarmálum – alls ekki: Mörg þau mál sem vinstrið berst fyrir, eins og jafnrétti kynjanna, úrbætur í heilbrigðiskerfinu, úrbætur í þágu öryrkja, eru mál sem verður að berjast fyrir og því þarf að halda áfram. En það þarf að leggja áherslu líka á langtímamál, eins og þau sem voru tíunduð að framan.
Margir spyrja sig kannski af hverju þessi mál fremur en önnur, og svarið við því er einfalt: Með framþróun í lýðræðinu, t.d. með borgaraþingum, verður auðveldara fyrir samfélagið að takast á við erfið álitamál, eins og þau sem voru nefnd í upphafi. Með lýðræðisvæðingu fyrirtækjanna má girða að nokkru fyrir rót ójafnaðarins, sem er að hagnaður fyrirtækjanna rennur nú til lítils hóps fólks, auk þess að færa almenningi meiri völd um hagkerfið og framtíð sína. Með stefnubreytingu um hagkerfið er tekist á við umhverfismálin. Fjölbreyttari flóra banka leiðir til heilbrigðara fjármálakerfis og eðlilegri viðskiptahátta, auk meiri efnahagslegs stöðugleika. Allt helst þetta í hendur og hjálpar hvoru öðru.
Ekkert af þessu er auðvelt, ekkert af þessu er einfalt, né er öruggt að hægt sé að allt komist þetta til leiðar. Hins vegar eru þetta allt atriði sem varða grunnstoðir hagkerfisins og lýðræðisins, svið sem vinstrið og ýmis umbótaöfl hafa vanrækt nokkuð undanfarna áratugi. Auk þess, þá eru þessi atriði, þessar hugmyndir, þess eðlis að þau geta mótað umræðuna að mörgu leyti. Þær eru gott upplag í framtíðarsýn.
Og þá komum við að lokaatriðinu: Hvernig látum við þetta allt verða að veruleika? Hvernig fikrum við okkur áfram í átt að heimi þar sem lýðræðisleg fyrirtæki og borgaraþing eru sjálfsögð, og vinstrið leggur til hugmyndir í stað þess að eyða meginþorra orkunnar í að gagnrýna hugmyndir annarra? Hvernig er hægt að láta stjórnmálaflokka vinstrisins koma sínum málum í gegn – án reddinga?
Óbein völd og framtíðarsýn
Ekki er nóg að hafa hugmyndir, einnig þarf að hafa völd til að setja þær í framkvæmd.
Þegar vinstrisinnaðir hópar taka sig saman og stofna stjórnmálaflokk hafa stjórnendurnir í huga bein völd, – svo sem með fulltrúum á Alþingi og í sveitastjórnum – og að nýta þau til að koma áfram sínum hugðarefnum, – sem er jákvætt, það sýnir að fólk hefur áhuga á því að sem það er að gera og drif til framkvæmda. En flokkur með bein völd getur lítið gert ef meira eða minna allir standa gegn stefnumálum flokksins, eins og fjölmiðlar, aðrir flokkar, álitsgjafar og hagsmunaöfl fyrirtækjaeigenda – slíkum flokki mun mistakast að sannfæra aðra um ágæti sinna stefnumála, þetta sýna dæmin, eins og áður var rætt um. Bein völd skipta miklu máli, til að geta haft bein áhrif á ákvarðanatöku í sveitastjórnum og í þjóðþingum, eins og Alþingi. En óbein völd skipta líka miklu máli.
Óbein völd er mun víðtækara hugtak. Með því er t.d. átt við áhrifa fjölmiðla, álitsgjafa, en líka til áhrifa félagasamtaka, hagsmunasamtaka og fleira til. Áhrifin af óbeinum völdum eru mikil: Viðskiptaráð Íslands staðhæfði á árunum fyrir Hrunið 2008, að Alþingi og ríkisvaldið hefði sett í framkvæmd næstum öll þeirra stefnumál. Samtök atvinnulífsins hafa mikil áhrif, eins og sést kannski einna best á því að fulltrúar þeirra eru kallaðir á fundi með ráðherrum landsins, sjálfu framkvæmdavaldinu, í aðdraganda kjarasamninga, eins og ekkert sé eðlilegra. Þessi samtök hafa sig mjög í frammi og berjast fyrir sínu – og fá oft sitt fram. Þau berjast einnig gegn mjög mörgu, svo sem uppstokkun skattkerfisins í átt til meiri jafnaðar.
Umbótaöflin hafa ekkert í líkingu við Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands á sínum snærum, eins og fyrr segir. En nú, þegar æ augljósara verður að ýmislegt þarf að breytast m.a. vegna loftslagsmála, klofnings í stjórnmálunum, þá reynir á að umbótahreyfingarnar geti veitt skipulögðum samtökum hægrisins viðspyrnu, og hafi sína eigin framtíðarsýn og stefnu.
Umbótahreyfingarnar verða að líta til nýrra aðferða við að koma áfram sínum hugðarefnum. Stjórnmálaflokkar á vinstrivængnum eru nauðsynlegir – og endurnýjun þeirra getur verið nauðsynleg – en til að hjálpa þeim við að ná árangri þarf líka fleira til, eitthvað sem getur hjálpað þeim í umræðunni og kveikt áhuga og umræður innan flokkana, haldið þeim við efnið. Það sem átt er við hér er það sem kallað hefur verið hugveitur (e. think-tank), eins konar samtök sem hafa á snærum sínum fólk sem beinlínis vinnur að lausnum við vandamálum samtímans, og hefur til þess tíma og getu.
Oftast nær hafa hugveitur launað starfsfólk á sínum snærum og eru oft óháðar stjórnmálaflokkum. Vinstrisinnaðar hugveitur eru til erlendis, svo sem eins og New Economics Foundation í Bretlandi, en engar eru til á Íslandi – á Íslandi eru aðeins hugveitur á hægri væng stjórnmálanna, Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins. Hugveitur hægrisins hafa áhrif á gildismat fólks, ýta því til hægri.
Með skipulagðri hugveitu á vinstri væng stjórnmálanna á Íslandi, sem einkum myndi taka á efnahagsmálum, myndu óbein völd vinstrisinnaðra flokka aukast, og hugmyndir um framtíðina geta orðið meira áberandi, líkur aukast á að jöfnuður sé tekinn alvarlega, og svo framvegis. Slík hugveita myndi eiga auðveldar en stjórnmálaflokkar með að halda á lofti hugmyndum sem tekur langan tíma að láta verða að veruleika. Slík hugveita myndi halda sér frá reddingum og afskiptum af stjórnmálaflokkum, hún myndi vinna að hugmyndunum sjálfum, stefnumálunum. Hún gæti myndað traust gagnvart vinstrinu. Þá gæti hún ýtt gildunum í samfélaginu til vinstri.
Hugveita er ekki galdralausn. Raunar eru engar galdralausnir til í stjórnmálum, eins og gildir um svo margt annað í þessum heimi. Hugveita myndi hins vegar auka getu vinstrisinnaðra hreyfinga og umbótasinna til að vinna stefnumálum sínum brautargengi, myndi hjálpa þeim við að halda athygli á langtímamálum, og gæti veitt nytsamlega aðstoð á margan annan hátt.
Með hugveitu á vinstri vængnum, hugveitu með mannskap og vel völdu fólki, getur vinstrið náð að breyta hagkerfinu, gert það lýðræðislegra, gert stjórnmálin lýðræðislegri, aukið efnahagslegan jöfnuð, stytt vinnutímann enn frekar, og stefnt að framtíð þar sem umhverfismál verða sjálfsagður hluti stjórnmálanna.
Mynd: Wikipedia/Dickelbers
Athugasemdir