Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

MAMMA

MAMMA

Eftir að hafa verið getinn varð ég að okfrumu. Okfruma verður til við samruna sáðfrumu og eggfrumu. Okfruman tekur svo til við að fjölga sér í gegnum frumutvöfaldanir sem svo síðar halda áfram að vaxa og dafna í gegnum flókið ferli sem sérhæfir sig og byggir upp allan frumuvöxt líkamans. Þessi sérhæfing sendir réttu merkin á réttum tímum til þess að útlimir vaxi, augu myndist og öll innri líffæri séu á réttum stað í framtíðarlíkamanum svo fátt eitt sé nefnt.

Á þessu vaxtarskeiði lífs míns nýt ég verndar og aðstoðar móður minnar meðal annars í gegnum fylgjuna (e. placenta). Fylgjan er sérhæft líffæri til þess að vernda og næra afkvæmi í móðurkviði. Fylgjan er einnig sérstök að mörgu öðru leiti en einn helmingur hennar myndast úr frumum okfrumunar en annar úr frumum móðurinnar. Genamengi fylgjunnar er því nokkurn veginn 75% frá mömmunni og 25% frá pabbanum. Þegar afkvæmi fylgjuspendýrs fæðist þá fylgir fylgjan með og það er áhugaverð staðreynd að nánast öll fylgjuspendýr sem fæða afkvæmi borða fylgjuna í kjölfarið. Þau fylgjuspendýr sem bregða útaf þessari reglu eru selir, hvaldýr, kameldýr og mannfólk. Það er þó ekki svo að mannfólk borði aldrei fygljuna eftir fæðingu en það er þó frekar undantekning en regla.

Líffærið fylgjan einskorðast því ekki eingöngu við manninn heldur er fjöldinn allur af fylgjuspendýrum (e. placentals) sem ráfa um og lifa sínu lífi á þessari plánetu með okkur. Það er þó ekki svo að öll spendýr séu fylgjuspendýr því fáein eru pokadýr (e. marsupials) og enn færri eru spendýr sem verpa eggjum (e. monotremes). Óháð því hvernig spendýr við erum þá eigum við það öll sameiginlegt að sem ungviði þá nærumst við á móðurmjólk, sem meðal annars stuðlar að heilbrigðum vexti, í gegnum þar til gerðan spena á líkama mömmu okkar. Þessu fyrirkomulagi fylgir óhjákvæmilega mikil nánd milli móður og afkvæmis og snemma í þróunarsögu spendýra hefur náttúran valið gen og genabreytingar sem stuðla að sterku sambandi móður og afkvæmis. Vegna þessa þá eru öll spendýr sem hafa lifað af í gegnum 300 milljóna ára langa þróunarsögu spendýra með afar næmt eðli sem og eðlislega þörf til að hlúa vel að afkvæmum sínum. Eins eru afkvæmi spendýra genalega útbúin sterkri grunnþörf til að fá næringu og snertingu frá móður sinni.

Með þessa skýringu á móðurhlutverkinu með hliðsjón af þróunarsögunni er áhugavert að spyrja hvort það sé réttlætanlegt hvernig við mannfólkið komum fram við mömmur og afkvæmi annarra dýrategunda. Í þessu samhengi liggur beinast við að beina sjónum að þeim dýrum sem við höfum hvað mest áhrif á; nautgripi, svín, hænsn og kindur. Hvað segja kúamömmur gott? Hvað eru kjúklingamömmur að bralla núna?

Kýr eru augljóslega ekki mennskar verur en verur eru þær. Lífverur sem hafa lifað af í gegnum þróunarsöguna að miklu leyti á sömu leið og við maðurinn sem, ásamt öðrum spendýrum, hefur tekið yfir 300 milljónir ára. Kúaeldi til mjólkurneyslu ber þess ekki merki að við sem lífverur tökum tillit til hagsmuna kúa til að sinna sínu móðurhlutverki eins og þeim er eðlislægt. Vegna tilstilli mannsins verður samruni sáðfrumu og eggfrumu innan í líkama kúa nær um leið og þær ná kynþroska. Meðgöngutími kúa er um 9 mánuðir og til að viðhalda nær stanslausri mjólkurframleiðslu er stefnt að einni okfrumuframleiðslu á ári og er því kúin nær alltaf, af mannavöldum, þunguð. Þegar við keyrum um þjóðvegi landsins á fallegum degi og sjáum kýrnar slaka á í náttúrinni þá er auðvelt að halda því fram að hér séu á ferðinni hamingjusamar kýr. Þá ber að hafa í huga að þessar kýr sem birtast fyrir augum okkar eru líklega allar undir 6 ára aldri (sennilega flestar 2-4 ára) þó svo að við viðunandi aðstæður geti þær hæglega náð 20 ára aldri. Hvar eru allar gömlu kýrnar? Fá þær ekki að fara út? Einnig hafa allar þessar kýr fætt kálfa en samt hefur engin þeirra fengið að vera mamma. Að sama skapi hafa kálfarnir sem þær fæddu aldrei átt mömmu. Fyrir flestar spendýrategundir heyrir það til algerrar undantekningar að kvendýr fæði afkvæmi og fái ekki að vera mamma.

Það að við gerum enga athugasemd við þessa framkomu, sem sviptir heilu dýrategundirnar þeirri eðlisþörf að mömmur fái að vera mömmur og að afkvæmi þeirra fái að eiga mömmu, er merki þess að eitthvað er ekki rétt og við þurfum að bregðast við á siðlegan hátt og breyta framkomu okkar gagnvart ómennskum dýrum sem við nú ölum til manneldis. Ef okkur er raunverulega umhugað um velferð dýra þá ættum við að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að leyfa þeim sem fæða afkvæmi að fá að vera mömmur, sem og að leyfa þeim sem fæðast að eiga mömmur.

Hænur eru ekki spendýr heldur fuglar sem verpa eggjum. En fuglar eru ekki það ólíkir spendýrum í grundvallaratriðum. Til dæmis, eins og áður sagði, þá eru til spendýr sem verpa eggjum. Að auki eru til ótal dæmi þess að fuglar leggji mikið á sig við uppeldi afkvæma og eru mörgæsir kannski eitt mest sláandi dæmi þess, þar sem bæði mömmurnar og pabbarnir leggja sig mikið fram til að viðhalda lífi unganna sinna. Í það minnsta er ljóst, og þarf ekki að koma á óvart, að margir fuglar sýna mikla þörf til að viðhalda foreldrahlutverki sínu af miklum metnaði og alúð.

Mömmur kjúklinganna sem maðurinn borðar þrauka allt líf sitt við aðstæður sem fæst okkar gera sér grein fyrir. Allir kjúklingar sem maðurinn borðar vaxa ofurhratt vegna inngrips mannsins í vali og ræktun þeirra í gegnum tugi ára. Þeir eru því með ákveðna genauppbyggingu, sem valin er af manninum frekar en náttúrunni, sem gerir þeim kleift að vaxa mjög hratt, aðallega með því að svala gífurlegri svengd og þörf fyrir mat. Vegna þessarra aðstæðna þá geta þessir óheppnu fuglar ekki náð að lifa löngu lífi því þeir stækka svo hratt að beinin bera ekki þyngdina. Eins þá fylgir slíkum ofvexti fjöldinn allur af líkamlegum kvillum sem kemur í veg fyrir að fuglarnir nái að lifa nema brot af sinni náttúrlulegu ævi. Fyrir flesta kjúklinga skipta þessi stórvægilegu atriði engu máli því þeir eru drepnir löngu áður en verstu einkenni þessa vaxtar og ofáts ná að koma fram. Nema fyrir kjúklingamömmunar. Þær þurfa að, í það minnsta, að lifa nógu lengi til þess að verpa ótal eggjum sem hýsa alla kjúklingana sem við borðum. Til þess að koma í veg fyrir að hænurnar, sem verpa kjúklingunum sem við borðum, borði ekki of mikið og deyji of snemma þá eru þær sveltar. Þær lifa því sína ævi svangar á meðan þær verpa eggjum sem útúr klekjast ungar sem aldrei verða svangir.

Aðrar mæður í dýrabúskap, sér í lagi svínamömmur, hljóta einnig forkastanlega meðferð til að koma eins mörgum afkvæmum þeirra inn fyrir dyr sláturhúsanna og þaðan yfir í reglubundið neyslumynstur okkar. Neyslumynstur sem alltof fá okkar setja spurningarmerki við. Það er afar sorgleg staðreynd, í ljósi þess hve maðurinn drepur og borðar gífurlegt magn af ómennskum dýrum, að hvaða virðing sem við teljum okkur bera fyrir móðurhlutverkinu er ósýnileg þegar kemur að öðrum tegundum en okkar eigin.

Mömmur eiga, nær undantekningalaust, skilið hrós og virðingu fyrir að bera, fæða og ala upp afkvæmi sín. Við ættum að gefa þeim bestu tækifærin til þess að sinna því hlutverki. Óháð tegund.

Titilmyndin með þessu bloggi er tekin af kápu frá verkinu MAMMA eftir Hugleik Dagson og Pétur Anton Atlason.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni