Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

"Það er margt mikilvægara en að lifa"

"Það er margt mikilvægara en að lifa"

Þessi orð eru höfð eftir Dan Patrick, aðstoðarfylkisstjóra Texas, í viðtali á Fox News fyrr á þessu ári. Sagði maðurinn þetta í alvörunni? Já, og það ætti ekki að koma þér svo á óvart. Flest bendir nefnilega til þess að hægrinu sé sama um þig og líf þitt.

Íslenska hægrið, með stuðningi Vinstri-grænna, vill fórna lífi okkar fyrir tekjur af túristum. Fjöldi ferðamanna verður samt auðvitað ekkert í líkingu við fyrri ár. Munurinn á íslenskum og Amerískum hægrimönnum er í raun mun minni en margir vilja halda. í Bandaríkjunum segir hægrið það bara beint út: frelsi hinna ríku til að græða skiptir meira máli en líf fólks. Líf verkafólks. Það er nefnilega framlínufólk sem þarf að setja líf sitt í hættu til að eiga fyrir nauðsynjum en ekki yfirstéttin. Hérna á Íslandi er fólk að hlægja að formanni frjálshyggjufélagsins sem hugðist mótmæla aðgerðum ríkisstjórnarinnar og takmörkunum vegna veirunnar. Samt leiddu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að núna eru nærri þúsund manns í einangrun og þrír á sjúkrahúsi. Ríkisstjórnin og formaður frjálshyggjufélagsins, ef hann fengi að ráða, setja líf fólks í hættu.

Það er ekki ásættanlegt að fólk drepist til þess að nokkur ferðaþjónustufyrirtæki halda áfram að starfa eða "lifa" eins og Jóhannes, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í fréttum fyrir stuttu. Líf fyrirtækja skal vernda í skiptum fyrir líf verkafólks.

Til að réttlæta dauðsföll af völdum veirunnar notar hægrið svo fölsk rök þess efnis að efnahagskreppa gæti einnig leitt til dauðsfalla. Samkvæmt þessu er hægrið að velja meiri hagsmuni fyrir minni. Rök sem ganga aðeins upp ef þú trúir ekki að ríkið geti gripið inn í með því að veita fólki aðstoð (eins og ríkið hefur þegar gert með hlutabótaleiðinni sem dæmi). Staðreyndin er að ríkið getur notfært sér fjölda lausna til að brúa bilið þangað til hættan af veirunni er liðin hjá. Ríkið getur hafið innviðauppbyggingu og aðra starfsemi og þannig skapað störf fyrir alla sem vilja (atvinnutrygging). Ríkið getur hækkað og lengt í atvinnuleysisbótum. Ríkið getur sett aukið fjármagn í menntakerfið og tekið við fleiri nemendum. Bara sem dæmi. Lausnirnar eru fjölmargar og þekktar. En hægrið vill einfaldlega ekki viðurkenna þær því það myndi grafa undan áratuga áróðri þess efnis að ríkið geti ekki gert neitt til að hjálpa fólki eða eigi ekki að gera það. Inn í þessa orðræðu blandast svo önnur mýta hægrisins um ríkisfjármál, sú mýta að það séu bara ekki til neinir peningar. Samt gat ríkið nýlega, og ríki um allan heim, fjármagnað viðbrögð sín við COVID án þess að safna fyrir því. Í Bandaríkjunum hefur seðlabankinn prentað milljarða sem fara í að halda hlutabréfamarkaðinum þar í landi uppi. Þá er til nóg af peningum.

En það eru heldur ekki bara viðbrögð hægrisins við COVID sem sýna okkur að því sé sama um fólk. Kapítalisminn sjálfur framleiðir fátækt og dauðsföll með margvíslegum hætti sem ég ætla ekki að fara út í núna með neinum nákvæmum hætti. En kerfi sem setur sífellt meiri auð í hendur örfárra leiðir af sér að stór hluti fólks er skilinn eftir. Við sjáum þetta hvergi betur en í Bandaríkjunum þar sem stéttaskiptingin er gríðarleg en fjöldi milljarðamæringa hvergi hærri. Þar sem fólk missir lífið á hverjum degi vegna þess að það hefur ekki efni á heilbrigðisþjónustu, vegna heimilisleysis, og svo mætti telja áfram.

Samt er það þannig að ríki þar sem meiri jöfnuður ríkir, þar sem ríkið eyðir peningum í að mennta fólk, byggja húsnæði, og tryggja atvinnu, eru ríki þar sem efnahagskerfið gengur betur og þar af leiðandi gengur atvinnurekendum líka betur. Sem dæmi má nefna bæði Brasilíu þegar Lula da Silva var forseti og Bolíviu undir stjórn Evo Morales. Báðir þessir leiðtogar settu fjármagn í velferð sem varð til þess að draga gríðarlega úr fátækt hvor í sínu landi. Og þrátt fyrir að auðstéttin í þessum löndum hafi þvert á móti auðgast á því að fleira fólk ætti meira á milli handanna, til að kaupa vörur og þjónustu, þá náði hægrið að losa sig við báða þessa leiðtoga með valdaráni. Svo mikil er ást hægrisins á lýðræðinu þegar til kastanna kemur. Lula da Silva var stungið í fangelsi á fölskum forsendum og Evo Morales var bolað frá með lygum í kjölfar þess að sigra sínar fjórðu kosningar í röð. Þetta sýnir okkur að hægrinu er í raun sama um árangur í efnahagslegu tilliti. Hægrinu er sama um umbætur á samfélaginu, jöfnuð og velferð. Hægrið vill bara stjórna og hafa völdin því að málið snýst um yfirráð hægrisinns yfir samfélaginu en ekki að búa til betra samfélag. Í Bólivíu framdi hægrið valdarán til þess að hvíta yfirstéttin haldi völdum og haldi frumbyggjum landsins frá. Svipaða sögu má segja af Brasilíu en Lula da Silva var þar fulltrúi hinna fátæku og kúguðu stétta líkt og Morales. Þrátt fyrir að Lula hafi alls ekki verið neitt rosalega róttækur sósíalisti. Í raun bara hófsamur sósíal-demókrati sem hróflaði ekki í megin atriðum við kapítalismanum þar í landi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni