Við lifum á áhugaverðum tímum. Það hljómar jákvætt en öllu jafna er sagt að ekki sé gott að lifa á slíkum tímum. Þar er átt við að við, mannskepnan, viljum helst lifa á stöðugum og rólegum tímum. Ef maður hinsvegar hugsar til baka, þá er ekki alveg ljóst hvenær Íslendingar gátu síðast stært sig af slíkum tímum.
Þetta er þó engin opinberun. Að mörgu leyti má segja að Íslendingar séu æstir í rússíbanareið örlaganna. Við búum í landi öfganna, annað hvort eru Íslendingar bestir eða verstir í heimi. Það virðist sjaldan eða aldrei vera nokkur millivegur. Við erum hamingjusamasta land heims á sama tíma og við toppum allar þjóðir í notkun þunglyndislyfja. Sagt er að á Íslandi sé fallegasta og hreinasta náttúra heims, en á sama tíma keppast stjórnvöld um að opna álver og aðra stóriðju. Ísland var eitt ríkasta land í heimi, en yfir nóttu var Ísland fært í ruslflokk á alþjóðamörkuðum, gjaldþrota. Íslendingar orðnir hryðjuverkamenn og athlægi heimsbyggðarinnar.
Svona mætti lengi telja.
En þessir gegndarlausu öfgar eru líklegast þjóðareinkenni okkar, stundum stolt. Hver man ekki eftir hetjudýrkun víkinga útrásarinnar á síðasta áratug, vonarstjörnunni Decode Genetics á tíunda áratug síðustu aldar og „við erum búin að vinna! - Gleðibankinn” á þeim níunda. Ísland er eins og birtan í árstíðunum. Annað hvort er dimmt eða bjart allann tímann. Eitt er þó staðreynd: Hér er alltaf rok.
Von-sölumenn
Það virðist ekki skipta nokkru máli hvernig viðrar, hvort sem það er tekið í bókstaflegri merkingu eða tilfinningalegri, þá er óánægjan í samfélaginu áþreifanleg, það sem verra er þá fer hún vaxandi. Hvað er í gangi? Hverju er um að kenna? En svarið blasir við hverjum þeim sem vill sjá.
Á fjögurra ára fresti gerist nokkuð í samfélaginu. Háfleygir menn í háfleygum flokkum selja okkur von. Vonir um betri tíma (minna áhugaverða), vonir um bætt ástand og meiri hagsæld.Traust okkar fá stjórmálamenn fjögur ár í senn. Engu máli skiptir hvort það sé til staðar þegar líður á kjörtímabilið kosningadaginn örlagaríka.
Þess vegna þykir mér nær að kalla stéttina „Von-sölumenn“. Þeir selja vonir og í kjölfarið þurfa þeir að standa undir þeim með gjörðum. Undanfarin ár hefur það því miður ekki verið raunin og má segja að sölumennirnir hafa brugðist. Ég hef sjálfur mikla reynslu í sölu- og þjónustu, þar myndi slík hegðun einfaldlega kallast vörusvik.
Til einföldunar mætti segja að oft valdi „Von-sölumennirnir” vonbrigðum.
Því hefur verið haldið fram að við sem kjósum okkur framtíð og vonir um bjartari tíma erum eingöngu frjáls einn dag á fjögurra ára fresti. Þó það sé kannski ekki augljóst, þá er að mínu mati heilmikið til í þessari fullyrðingu. Hún er þó ekki mín, heldur var það hinn fransk-svissneski heimspekingur Rousseau sem á heiðurinn í ritgerð sinni „Samfélagssáttmálinn“.
Traust
Svo ég haldi mig aðeins við Rousseau, þá tók ég saman að hluta til boðskap úr verki hans „Orðræða um uppruna og grundvöll ójöfnuðar meðal manna“.
Mikill ójöfnuður skapar samfélag sem er í raun ekki eitt samfélag heldur tvö. Lágmarksjöfnuður er nauðsynleg forsenda réttláts samfélags. Enginn má eiga það lítið að hægt sé að kaupa hann og að sama skapi má enginn eiga það mikið að hann geti keypt aðra.
Ofangreind samantekt er að mörgu leyti óraunsæ í samfélagi nútímans, hinsvegar er öllum hollt að velta fyrir sér hvort sannleikskorn leynist í þessum orðum Rousseau, þá sérstaklega gildi síðustu setningarinnar.
„Enginn má eiga það lítið að hægt sé að kaupa hann og að sama skapi má enginn eiga það mikið að hann geti keypt aðra“
Staðreyndin er sú að kosningaþáttaka fer minnkandi hérlendis sem erlendis. Það virðist einnig haldast í hendur við auðdreifingu sem er, að því er virðist, að safnast á sífellt færri hendur. Það er ekki ósanngjarnt að líta til Bandaríkjanna í þessu tilliti, Bandaríkin eru lýsandi dæmi yfir samfélag sem stjórnað er af peningum. Þar er misskiptingin á þeim sem eiga og ekki eiga hrottaleg. Bandaríkjamenn búa við kerfi þar sem „lobbýistar“ dæla peningum í stjórnmálamenn gagngert til þess að njóta sértækra fríðinda, óháð vilja eða hag almenning landsins.
Í samanburði við Ísland þá megum við þakka fyrir að ástandið er ekki eins vont og það er í Bandaríkjunum.
Og þó?
Rétt er að við eigum ekki vandamál af sömu stærðargráðu og almenningur Bandaríkjann, en ekki er þar með sagt að þetta viðgengst ekki hér á landi. Ég man ekki til þess að stjórnvöld lofuðu í kosningabaráttunni að skerða auðlindagjaldið, eða gefa makrílkvóta til sex ára [og þar með sjá til þess að næsta ríkisstjórn gæti engu breytt]. Hvergi var talað um að Sjálfstæðisflokkurinn hygðist veita ívilnanir til fyrirtækis þar sem eignarhaldið er nátengt áhrifamanna Sjálfstæðisflokksins.
Ég man hinsvegar eftir því að báðir flokkar núverandi ríkisstjórnar lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Utan þessa atriða má einnig benda á önnur Von-brigði. Má þar sérstaklega nefna farsakennt mál Hönnu Birnu og æpandi þögn Sigmundar Davíðs vegna moskumálsins.
Það er þó alveg ljóst að við, Íslendingar erum orðnir afskaplega þreyttir á innihaldslausum loforðum, fordæmalausri hagsmunagæslu og óheiðarleika. Kannanir sýna að traust almennings til alþingis síðustu misseri er minna nú en nokkru sinni áður. Ef ég ætti kost á því að koma einni setningu til skila til allra alþingismanna þá væri hún þessi:
Traust er ekki gefið, traust er áunnið!
Tilgangur þessa pistils er þó ekki til þess að rægja stjórnvöld á yfirstandandi kjörtímabil sérstaklega. Þó verður að segjast, að það er bæði sorglegt og leiðinlegt hversu auðvelt það er. Áður en ég skil við málefnið þá á ég þó eftir að nefna ein svik til viðbótar.
Ég skrifa að sjálfsögðu um nýju stjórnarskrána. Allir stjórnmálaflokkar, utan eins, gerðust sekir um ein mestu svik við kjósendur frá upphafi lýðræðisins að margra mati. Það fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnarlagaráðs sem í kjölfarið voru samþykktar á einn lýðræðislegasta máta sem hugsast getur í nútíma samfélagi. Í kjölfarið gerðust allir flokkar sekir um að sópa niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar undir teppi og vilji almennings var þaggaður niður.
Hér er gott að staldra við og hugsa af hverju farið var í að skrifa nýja stjórnarskrá?
Ástæðan var að traust almennings til stjórnmála eftir hrunið 2008 var glatað. Ný stjórnarskrá var lausnin sem allir stjórnmálaflokkar tóku undir og að allra mati besta leiðin við endurheimta traustið sem glataðist. Í landi öfga, myrkurs og storma hefð, að mínu mati, ný stjórnarskrá sefað, lýst og lygnt íslenskt samfélag.
Stjórnarskrá
Ekki eru allir á eitt sáttir við drög nýju stjórnarskrárinnar. Í henni er að finna ákvæði sem ég sjálfur er ekki hrifinn af. Þar væri helst að nefna ákvæðið um kirkjuskipan. Hins vegar, þó svo að ég sé persónulega sé ekki sáttur, þá mun ég aldrei setja mig á það háan hest að afneita niðurstöðunni né heldur hafna stjórnarskránni vegna hennar. Mitt álit skiptir þar engu máli.
Þjóðin kaus, þetta var vilji hennar, svo einfalt er það.
Í frumvarpi til stjórnskipunarlaga er 65. gr. mikilvægasta ákvæðið að mínu mati. Þið getið nálgast það hér. Með þessu ákvæði í stjórnarskrá væri hægt að koma í veg fyrir áhyggjur Rousseau um frelsi einstaklingsins. Það kveður á um málskotsrétt þjóðarinnar.
Með þessu ákvæði í stjórnarskrá skapast ábyrgð og skyldur á hendur beggja aðila samfélagsins. Annars vegar hins almenna borgara og hins vegar stjórnmálamanna. Skylda okkar, hins almenna borgara, er að fylgjast með gjörðum þingmanna og veita aðhald. Skylda þingmanna er að starfa í þágu okkar, hins almenna borgara. Til einföldunar þá má leggja þetta upp með dæmi frá sjónarhorni hins almenna borgara.
Starfandi ríkisstjórn leggur fram frumvarp sem augljóslega hyglir hópi fárra tengdra aðila, almenningur sættir sig ekki við frumvarpið og knýr fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og hafnar.
Ef slíkt ákvæði væri virkt í stjórnarskránni þá væri ómögulegt fyrir ríkisstjórn, í krafti meirihlutans að þvinga málum í gegnum þingið í krafti stærðar. Stjórnarandstaðan er þá ekki lengur eina fyrirstaðan heldur almenningur allur. Ég tel alveg ljóst að stjórnvöld myndu strax taka tillits til þessa ákvæðis og reyna af fremsta megni að vinna fyrir skjólstæðinga sína alla [okkur]. Málskotsrétturinn væri alltaf fyrir hendi og öll frumvörp þyrftu að taka mið af því.
„Lex iniusta non est lex“ , eða „Óréttlát lög eru ekki lög“, er tilvitnun upphaflega frá sankti Ágústínusi. Margir heims- og stjórnmálaspekingar hafa hugleitt gildi hennar í samhengi við rétt borgara til uppreisnar. Mitt álit er að ef ákvæði um málskotsrétt öðlaðist gildi, þá væru, að mínu mati, fáar ástæður og litlar líkur að byltingar á Íslandi yrðu að raunveruleika.
Raunveruleg Von!
Sjálfur hef ég ekki alltaf haft mikinn áhuga á stjórnmálum. Þó hef ég kosið í öllum kosningum eftir að ég öðlaðist til þess aldur. Öllum er hollt að hugsa til þeirra sem ekki mega ákveða um framtíð eigin lífs og lands, ég lít á það sem mína skyldu gagnvart þjóðfélaginu að nýta kosningaréttinn.
Það er í dag komið nýtt afl, afl sem þjóðin virðist hafa kallað eftir í langann tíma. Sérstaða flokksins er í nokkrum liðum og töluvert frábrugðin öðrum. Liðsmenn flokksins hafa stundað pólitík sem margir landsmenn hafa kallað eftir.
Meðlimir flokksins eru ekki óskeikulir, þá hafa þeir gert mistök. Á móti kemur þegar þeim var það ljóst báðu þeir afsökunar. Hefur nokkur íslenskur stjórnmálamaður eða flokkur áður gert það? Að mínu viti boðar þetta afskaplega góð fyrirheit um það sem vænta má.
Flokkurinn hefur ekki stundað neinar blekkingar [hyllingar] þegar kemur að loforðum eða „vonarsölu”. Flokkurinn mun ekki lofa óheyrilegum peningum í skiptum fyrir atkvæði. Meðlimir flokksins eru ekki hluti af „elítu“ hóp sjávarútvegs, landbúnaðar, banka eða annarra hópa.
Flokkurinn hefur þó lofað bættum stjórnmálum í formi lýðræðisumbóta, flokkurinn mun m.a. berjast fyrir stjórnarskránni í öllum efnisatriðum, gagnsæi í ríkisrekstri og loforði um að hinn almenni borgari hafi rödd.
Hvað þarf til þess að Íslendingar geti treyst stjórnmálum aftur? Svarið er mun dýrmætara en loforð allra stjórnmálaflokka, svarið er einfalt.
Svarið er… Þig.
Hákon Helgi Leifsson
(Höfundur er ekki sagnfræðingur)
Athugasemdir