Ég á stundum mjög bágt með að skilja stjórnmálamenn, og einkum hvernig þeir reyna undantekningarlítið að hanga á völdum eins og hundar á roði. Kannski er það vegna þess að ég hef aldrei haft nein pólitísk völd og hef því ekki upplifað það kikk sem menn virðast finna fyrir þegar þeir geta farið að ráðskast með aðra. Eitthvað hlýtur kikkið að vera úr því það heltekur menn svo gjörsamlega að þeir ganga jafnvel í berhögg við alla skynsemi og dómgreind frekar en að gefa spönn eftir af völdunum.
Mér er ævinlega minnisstætt þegar ég hitti einn af leiðtogum sjálfstæðismanna eftir þingkosningar 2003. Þá hafði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins setið í átta ár og þreyta var komin í samstarfið. Flokkarnir héngu saman fyrst og fremst af því það þurfti að halda áfram þeirri frjálshyggjuvæðingu peningakerfisins og samfélagsins alls sem þeir höfðu hleypt af stokkunum, en annars var hugmyndaflug stjórnarinnar augljóslega þorrið. Svo ég spurði þennan mæta sjálfstæðismann: „Jæja, eruð þið ekkert orðnir leiðir á Framsóknarflokknum?“
Hann rak upp skellihlátur.
„Við erum ekki orðnir leiðir á völdunum,“ ansaði hann.
Og svo hélt sú ríkisstjórn áfram, það var að vísu skipt um forsætisráðherra á kjörtímabilinu miðju, en að öðru leyti héngu flokkarnir á völdum sínum – og flutu sofandi að feigðarósi, eins og átti að koma svo hryggilega á daginn þegar útrásin kollkeyrði sig og endaði með hruni.
„Við erum ekki orðnir leiðir á völdunum,“ ansaði hann.
Þeim sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum sem þarna hefðu átt að hafa vit á að láta af völdum og að minnsta kosti hleypa öðrum að líka, þeim til afbötunar má segja að þeir höfðu þó að minnsta kosti raunveruleg völd. Þeir fengu að njóta þess kikks sem bersýnilega fylgir því að deila og drottna. En af hverju fólk hangir á völdum sem í raun og veru engin eru, það er erfiðara að skilja.
Ég á við forystu Samfylkingarinnar.
Um tíma leit út yfir að Samfylkingin gæti orðið einn af þeim stóru og öflugu jafnaðarmannaflokkum sem við þekkjum af Norðurlöndum og lögðu grunn að velferðarkerfinu þar. En eftir stórsjói ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og af margvíslegum misjafnlega flóknum ástæðum er nú svo komið að Samfylkingin er orðin níu prósenta flokkur og engar sérstakar líkur á að það breytist. Hér er aftur við völd ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, stjórn sem gengur blygðunarlaust erinda auðvaldsins í landinu (við skulum tala hreint út) og í stað þess að Samfylkingin taki forystu í andófi gegn þessum óskapnaði, þá drabbast hún nú æ meira niður – og það fer að verða pínlegt að lesa hvurja nýja skoðanakönnun af annarri.
Hér og nú ætla ég ekki að reyna að skilgreina ástæður þessa (ég ætla sem sé ekki að nefna stjórnarskrána). En það er löngu orðið ljóst að Árni Páll Árnason og sú forysta sem hann hefur sér við hlið dugar ekki. Það má öllum vera ljóst. En þá kemur til sögunnar sú furðulega þrjóska sem virðist grípa þá sem komast til einhvers konar valda. Árni Páll er bráðgáfaður maður og snjall á margan hátt, vel meinandi og ég veit ekki hvað. En að hann skuli ekki átta sig á að hann virðist alveg augljóslega ekki rétti maðurinn til að stýra jafnaðarmannaflokki hér og nú – það er undarlegur ljóður á hans ráði. Hann ætlar ekki að segja af sér, heldur berjast fram í rauðan dauðann, skilst mér, meðan „ríki hans“ skreppur saman allt í kringum hann. Og í stað þess að jafnaðarmannaflokkurinn hefji sókn gegn helmingaskiptunum með nýjar hugmyndir og baráttuglaður í fasi, þá mun pólitík Samfylkingar næstu misseri snúast um hvort Árna Páli takist að vinna meinta „varnarsigra“ og hífa fylgið upp um þrjú fjögur prósent. Vonandi bendir einhver honum á hvernig slíkt endar. „Völdin“ á flokksskrifstofu Samfylkingar eru ekki þess virði að svipta jafnaðarmenn á Íslandi tækifæri til að kjósa alvöru jafnaðarmannaflokk.
Athugasemdir