Ég var alveg úti að aka um hver væri morðinginn í Ófærð. Það er mikill kostur við svona seríur ef maður veður enn í villu og svíma um slíkt grundvallaratriði þegar komið er fram í síðasta þátt.
Ófærð var náttúrlega spölkorn frá því að vera gallalaust sjónvarpsefni, en það eru fleiri sjónvarpsseríur. Plottið í hinni rómuðu fyrstu seríu af Broen var til dæmis svo götótt að það var í rauninni hlægilegt að bjóða upp á þvíumlíkt - en af því serían var svo vel gerð og Saga Norén svo stórkostleg persóna, þá tók maður ekkert eftir því.
Meginplottið í Ófærð gekk reyndar í stórum dráttum alveg upp, og aðalpersónurnar voru bæði eftirminnilegar og sannferðugar. Hitt og þetta smálegt í þáttunum má fetta fingur út í en ekkert af því pirraði mig svo til muna væri. Það var helst að skoða hefði mátt nánar díalóginn sem lagður var í munn persónanna.
Heildin var hins vegar góð og öll vinnan við þættina.
Persónusköpun var í góðu lagi, leikurinn blátt áfram skínandi og öll tæknivinna afbragð. Það tókst prýðilega að halda uppi spennu, hún var að vísu svolítið að lognast út af um miðbikið en þá var Pálmi sem betur fer drepinn og athyglin vaknaði á ný. Eins og margir hafa komist að orði, þá skapar þessi sería ný viðmið fyrir íslenskt sjónvarp - ekki bara út af gæðum þáttanna - heldur líka einfaldlega út af umfanginu og athyglinni sem þættirnir fengu.
Þetta var semsagt allt saman í rauninni eins og best varð á kosið - og sunnudagskvöldin verða ögn tómleg á næstunni. Og svo er þetta ein sönnun þess enn - ef við þurfum þá fleiri - að ef það er eitthvað sem heldur lífinu í þessari þjóð, þá eru það listamenn vorir!
Athugasemdir