
Ég hef upp á síðkastið verið að skrifa og ritstýra röð af fróðleiksbókum sem ætlaðar eru börnum og ungum lesendum. Þetta eru bækur um dýr í útrýmingarhættu, hættulegustu eldgosin, víkinga, sjóræningja og þess háttar. Ein bókin - og sú sem ég er reyndar ánægðastur með - fjallar um ævi og áhrif Adolfs Hitlers.
Hún er kannski ekki beinlínis fyrir smábörn en þarna er gerð alvöru tilraun til að fræða unga lesendur um skelfilegan mann sem hafði skelfileg áhrif á söguna, og þetta er allt sett fram á svo „penan“ hátt sem unnt er, án þess að fjöður sé dregin yfir alvöru málsins.
Margar af þessum fróðleiksbókum hafa líka verið gefnar út í Svíþjóð, þar á meðal bókin um Hitler.
Nema hvað - hingað bárust þær fréttir að stærsta bókabúðakeðjan í Svíþjóð hefði neitað að tala bókina í sölu. Það væri ekki talið hollt fyrir sænskan ungdóm að hafa bók um Hitler til sölu í ungmennadeildunum.
Mér fannst þetta aðallega fyndið. Það eru engar ógeðslegar myndir eða neitt í bókinni, svo þar er ekkert sem vakið getur skelfingu.
En maður er orðinn vanur forræðishyggjunni í Svíum.
Nú hafa þeir hins vegar gengið of langt.
Nú hafa leikskólayfirvöld í Malmö lagt við kvikmyndasýningum að minnsta kosti á einum leikskóla eftir að eitt barn - segi og skrifa EITT BARN - fékk martröð eftir að hafa horft á bíósýningu í leikskólanum sínum.
Og myndin sem olli barninu þvílíku hugarangri að ekki aðeins hún, heldur allar aðrar teikni- og bíómyndir af öllu tagi, hafa nú verið teknar úr umferð af skólayfirvöldunum, var hvorki meira né minna en um Einar Áskel!
Þennan pena og skemmtilega sænska ungpilt sem í áratugi hefur glatt börn um allan heim með hugleiðingum sínum um lífið og tilveruna, og hefur hingað til þótt meinhollur hverju barni.
En ekki lengur.
Myndin Einar Áskell og ófreskjan, sem gerð var 1980 eftir einni af bókum Gunillu Bergström, fjallar um þegar Einar Áskell verður smeykur um að það sé skrímsli undir rúminu hans. Bókin á einmitt að kenna börnum að glíma við órökréttan ótta, og hefur alltaf þótt í hópi hinna bestu bóka um þennan erkisænska dreng.
Og sjálfsagt hafa milljónir sænskra barna séð teiknimyndina eftir henni sér til lærdómsríkrar ánægju á þeim 35 árum sem liðin eru frá því hún var frumsýnd.
En ekki lengur. Nú hefur Einar Áskell verið tekinn úr umferð, vegna þess að þetta eina barn fékk martröð. Þegar barnið sagðist enn vera hrætt viku eftir að hafa séð myndina klöguðu foreldrarnir til skólayfirvalda í Malmö og nú hefur sem sé ekki aðeins Einar Áskell og ófreskjan verið fjarlægður, heldur allar teiknimyndir um Einar Áskel og allar teiknimyndir yfirleitt.
Og allir foreldrar leikskólabarna munu héðan í frá fá nákvæma stundaskrá yfir allt sem í boði er í leikskólunum.
Þegar þetta er skrifað virðist svolítið óljóst hvort bannið gildi aðeins á þessum eina leikskóla eða hvort ætlast sé til að aðrir leikskólar í Malmö fylgi í kjölfarið, en það kemur væntanlega í ljós.
Hér er frétt hins sænska Aftonbladet um þessa makalausu forræðishyggju! Og hér er svo önnur frétt um málið.
Að lokum er rétt að taka fram að í fyrri útgáfu pistilsins kom fram að bannið umrædda væri mun víðtækara en raun virðist vera, og næði jafnvel yfir alla Svíþjóð. Svo var ekki sem betur fer. En mér finnst það samt galið fyrir því!
Athugasemdir