Stígamót stóðu fyrir gjörningi fyrir héraðsdóm Reykjavíkur í gær, þar sem konur þrifu skítinn þar fyrir utan, öskruðu og sameinuðust síðan við dyrnar. Gjörningurinn markaði upphafið að herferð sem Stígamót standa fyrir og mun ná hámarki með fjáröflun þann 18. nóvember.
Í þessari herferð koma þolendur fram, hver á fætur öðrum, í stuttum myndböndum þar sem þeir segja frá því hvaða gildi það hafði fyrir þá þegar þeir leituðu sér loks aðstoðar og birta tölur, sem standa fyrir það hvað það tók þá langan tíma að sækja sér þá hjálp sem þeir þurftu á að halda.
„Hann hótaði mér, ef ég myndi einhvern tímann segja frá þessu þá myndi hann drekkja mér.“
Hér að neðan eru myndböndin sem voru birt í dag. Þar segja þau Bjarney Rún Haraldsdóttir og Karl Ómar Guðbjörnsson frá reynslu sinni, en Karl Ómar var aðeins ellefu ára gamall þegar póstburðarmaður í Kópavoginum braut gegn honum og hótaði honum í kjölfarið lífláti:
„Hann hótaði mér, ef ég myndi einhvern tímann segja frá þessu þá myndi hann drekkja mér. Svo var það einhverjum mánuðum seinna, eftir þennan atburð, finnst látinn unglingspiltur í sundlaug Kópavogs og hann var bendlaður við þennan verknað. Eftir þetta var ég alltaf smeykur um að svona myndi fara fyrir mér og ég bara lokaðist.“ Það tók Karl Ómar 40 ár að leita sér aðstoðar.
Athugasemdir