Þóttumst við ekki hafa lært einhverja lexíu um hvernig á að fara með fólk?
Þóttumst við ekki ætla að taka eins og manneskjur á móti manneskjum í vanda?
Hvað er þá hér á seyði?
Katrín Oddsdóttir lögmaður skrifaði rétt í þessu á Facebook:
„Í morgun sat ég með samkynhneigðum hælisleitanda þegar honum var sagt að hann yrði sóttur af lögreglu klukkan 5:30 í fyrramálið og sendur til Ítalíu. Hann hefur dvalist hér á landi í fjögur ár og er með atvinnu- og dvalarleyfi til bráðabirgða. Hann heitir Martin og á hér fjölda vina, sinnir tveimur störfum og býr í eigin íbúð.
Staðan á Ítalíu er gjörsamlega óboðleg vegna ástands sem m.a. hefur versnað gríðarlega með auknum fjölda flóttamanna þar í landi. Þessi maður hefur ekki fengið mál sitt skoðað sérstaklega með tilliti til hinnar löngu dvalar hans hér á landi, þrátt fyrir beiðni um.
Er það boðlegt að manneskja sem hefur myndað tengsl á fjögurra ára dvöl fái ekki endurskoðaða ákvörðun um dvöl í landinu og sé vísað burt með innan við sólarhrings fyrirvara?
Væri ekki viðeigandi að við, sem eitt þeirra landa í heiminum þar sem réttindi samkynhneigðra eru sem best tryggð, myndum sleppa því að koma svona fram við fólk?“
Hérna er frétt Vísis um málefni Martin Omulu frá því í nóvember.
Og hérna er frétt RÚV frá því í gær um hann.
En það er ekki nóg með að Martin verði vísað úr landi. Með honum á að fara tveir aðrir, þar á meðal Christian Boadi. Hann reikaði um allslaus á Ítalíu og gisti á almenningssalernum, en hér á Íslandi hefur hann stundað vinnu og vonast til að fá að búa hér áfram.
Hér er frétt Stundarinnar um Christian.
Vinnuveitandi hans á Lækjarbrekku ætlar að standa við bakið á honum fram í rauðan dauðann.
Þriðja manninn á svo líka að senda úr landi með þeim Martin og Christian.
Þetta gengur ekki. Það þýðir ekki að þykjast taka með bros á vör á móti flóttamönnum en láta annað eins viðgangast um leið.
Þetta verður að stoppa og ekki seinna en í kvöld!
Athugasemdir