Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er ákvæði um að tíu prósent kjósenda geti krafist þess að lög frá Alþingi séu borin undir þjóðaratkvæði.
Sjá hér. (Og hérna eru svo allar tillögur stjórnlagaráðs.)
Eins og kunnugt er samþykktu tveir þriðju þeirra sem síðan greiddu atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs að þær skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár.
Í aðdraganda þingkosninganna 2013 sammæltust allir stjórnmálaflokkarnir (nema Hreyfingin) um að hafa þessa þjóðaratkvæðagreiðslu að engu.
Flokkarnir fimm báru þar mismikla sök, en áttu allir einhvern þátt í að stinga tillögunum undir stól.
Það er vitaskuld fáheyrt í lýðræðisríki að þjóðaratkvæðagreiðsla sem snýst um sjálfa stjórnarskrá ríkisins skuli höfð að engu - og það gleymist auðvitað seint.
En nú hefur stjórnarskrárnefnd stjórnmálaflokkanna sjálfra lagt fram tillögur um breytingar á nokkrum greinum stjórnarskrárinnar gömlu.
Þar á meðal er ákvæði um að fimmtán prósent kjósenda geti kallað eftir lögum í þjóðaratkvæði.
Í sjálfu sér virðist kannski ekki skipta öllu máli hvor talan verður ofan á. Menn segja sem svo að sé um raunverulegt alvörumál að ræða, þá verði ekkert mjög miklu erfiðara að safna undirskriftum 15 prósent landsmanna en 10.
Kannski.
En samt ekki mergurinn málsins.
Mergurinn málsins er sá að tillögu stjórnarskrárnefndar stjórnmálaflokkanna er beinlínis ætlað að leggja stein í götu þeirrar lýðræðisvæðingar, sem stjórnlagaráð lagði grunn að - eftir tillögur eftir þjóðinni sjálfri, meðal annars á Þjóðfundi.
Þetta gera stjórnmálaflokkarnir með því að hækka töluna.
Stjórnmálaflokkarnir vilja í rauninni ekki að þjóðaratkvæðagreiðslur verði virkt lýðræðistæki á Íslandi - það er ástæðan fyrir hækkuninni úr 10 í 15, engin önnur.
Ég mun aldrei geta fallist á að styðja tillögu sem ætlað er að draga úr lýðræðisvæðingu.
Og ég mun aldrei geta fallist á að styðja tillögu sem er beinlínis sniðin til að draga tennurnar úr niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.
Því mun ég - bara af þessari ástæðu - berjast fram í rauðan dauðann gegn tillögum stjórnarskrárnefndar stjórnmálaflokkann sem var barin saman í bakherbergjum.
Og verði greidd atkvæði um þessa tillögu stjórnmálaflokkanna, þá mun ég greiða atkvæði gegn henni.
Hér á að ríkja lýðræði, ekki hálfkák stjórnmálaflokkanna
Athugasemdir