Nú á dögunum kom út þáttaröð frá Oliver Stone þar sem hann tekur viðtöl við forseta Rússlands, Vladimir Pútín. Oliver Stone hefur hlotið verlaun fyrir heimildamyndir sínar og hefur þáttaröðin, sem skotin var yfir fjögur ár, vakið mikla athygli um allan heim, ekki síst vestanhafs þar sem þeir gáfu nýjan vinkil á dramatíkina um Trump og Rússana. Sú dramatík virðist engan endi ætla að taka, eða svo hefur útlitið verið alveg síðan fregnir bárust af því að Rússarnir höfðu beinlínis fjarstýrt bandarísku forsetakosningunum. Pútín þvertekur hinsvegar fyrir þessa ásökun og hefur nokkuð til síns máls: í fyrsta lagi að engin óvéfengjanleg sönnunargögn hafi hingað til komið fram, í öðru lagi að það að benda á Rússana sem orsök alls ills sé býsna algeng taktík í bandarískum stjórnmálum og hafi í þessu tilfelli verið ætlað til þess að færa ábyrgð á skammarlegum ósigri Demókrataflokksins frá honum sjálfum og yfir á einhverja ytri ógn, Rússana; í þriðja lagi sé það ekki lítið mál fyrir reynda hakkara að fela spor sín og jafvel láta líta út fyrir að árásin komi frá hvaða stað sem er á hnettinum, t.d. Rússlandi, að Wikileaks hafi sýnt fram á þetta þegar þeir birtu leka frá CIA leyniþjónustunni (“Vault 7”) sem innihélt alls kyns netvopn hönnuð einmitt í þessum tilgangi.
En dramatíkin hefur haldið áfram og hafa stærstu varúðarraddirnar, pressan, sakað Stone um skjall og að vera allt of mjúkur við Pútín, sumar hafa allt að kallað hann föðurlandssvikara. Þær hafa hækkað róminn þangað til núna nýlega þegar ein þeirra fékk skell, en þá birti rannsóknarblaðamaður myndbönd sem sýnir tvo framleiðendur fyrir CNN sjónvarpsstöðina þar sem þeir töldu sig vera að tala í trúnaði. Annar sagði þá að ástæðan fyrir því að stöðin fjallaði svona mikið um Trump og Rússland væri vegna áhorfsins og að mest af því væri tómt kjaftæði. Nefndi hann þá að lítið væri um sönnunargögn. Hinn sagði einfaldlega að málið í heild sinni væri einn stór “Ekkert-Borgari”. Fyrr hafði CNN þá þurft að draga til baka frétt um tengsl milli Rússlands og Trump-teymisins, sem byggð var á ónafngreindum heimildum, ásamt því að þrír sögðu upp hjá stöðinni í kjölfarið. Aðrar fréttaveitur hafa líka þurft að leiðrétta sig, þar á meðal New York Times sem nýlega birti leiðréttingu um að leyniþjónustur sem áttu að hafa staðfest tölvuinnrás Rússanna í tölvuþjóna Demókrataflokksins væru aðeins fjórar en ekki 17 eins og í fyrstu var haldið fram.
Á meðan dramatíkin heldur áfram heldur Demókrataflokkurinn áfram að tapa. Af sérstökum kosningum um þingsæti á þessu ári hefur flokkurinn tapað fjórum af fjórum. Demókratar eru í minnihluta á öllum valdsstigum í flestum ríkjum landsins og er ljóst að sú ákvörðun um að eyða allri orku í að tala um Rússland en ekki þau vandamál sem raunverulega steðja að fólkinu í landinu gæti orðið flokknum dýrkeypt.
Athugasemdir