Jæja Snæbjörn. Hvar eigum við að byrja?
Ég skal byrja á því að segja þér að þú ert að öllum líkindum femínisti, jafnvel þótt þú sért ekki sammála þeim öllum. Alveg eins og þú ert tónlistarmaður þótt einhver myndi segja að metall sé ekki tónlist. Að vera femínisti er nefnilega að vera 'jafnréttissinni' með meiru. Allir femínistar eru jafnréttissinnar sem átta sig á því að heldur hallar á hlut kvenna í þjóðfélaginu, alveg eins og hjartaskurðlæknir er læknir sem hefur sérhæft sig. Femínismi er undirflokkur í jafnréttisbaráttunni. Alveg eins og Black Lives Matters baráttan í USA, og hér birtist þú bara og hrópar "All Lives Matter" eins og sauður. Auðvitað skipta öll líf máli, það eru allir sammála um það, en mergurinn málsins er að það virðist þurfa að minna á að svört líf skipti máli. Sama gildir um femínismann og því eru hreyfingarnar nefndar eftir þeim sem eiga undir högg að sækjast.
Femínisminn er svolítið eins og kaffi. Hann birtist í mörgum myndum, getur verið americano eða cold brew, filter eða double espresso. Allt er þetta það sama í kjarnann, en bragðast ólíkt eftir því hvaðan það kemur og hvernig það er sett fram. Síðan getur kaffibollinn verið bitur eða súr ef einhver sem ekki kann til verka eða þekkir ekki aðferðafræðina ber hann á borð fyrir þig. Ekkert okkar kann að meta súran kaffibolla, heldur ekki við kaffidrykkjufólkið.
Á kaffihúsi femínismans er 'jafnréttissinninn' þinn jafngildi Dirty Chai Latte með vanillusýrópi. Alveg fínt að fá sér svoleiðis annað slagið, og jú jú, það leynist kaffi þarna einhvers staðar undir allri froðunni, en það hringir enginn inn þessa pöntun þegar þarf að breyta heiminum.
„Glerþakið er erfitt að sjá fyrir þann sem ekki rekur hausinn í það.“
Kannski upplifir þú ekki þörfina á að breyta heiminum, en treystu mér, fólk í þínu lífi upplifir hana mjög sterkt í daglegu lífi. Þú sagðir við mig um daginn að konur þyrftu bara að vera betri að hafa sig í frammi. Hversu margar tilraunir fyrir daufum eyrum heldur þú að liggi að baki hverri konu sem nær áheyrn? Rannsóknir sýna að það eitt að vera kvenkyns er til þess að bæði karlar og konur bera minni virðingu fyrir framlagi þínu. Glerþakið er erfitt að sjá fyrir þann sem ekki rekur hausinn í það.
Til þeirra sem halda því fram að jafnrétti sé náð vil ég benda á afturförina sem gerist í löndum í kringum okkur. Í Bandaríkjunum eru sífellt fleiri ríki að taka sjálfræði kvenna yfir eigin líkama til baka með að hætta að tryggja getnaðarvarnir, banna fóstureyðingar og fleira. Konur í fjölmiðlum fá enn miklu fleiri nauðgunar- og morðhótanir fyrir það eitt að tjá sig. Til að mynda Anita Sarkeesian, sem berst frábæran bardaga í heimi tölvuleikja! Femínisminn er líka harður í mörgu öðru tengdu kyni, kynhneigð og kyngervi og styður því alls kyns baráttu LGBTQ+ og karlmanna þegar vegið er að þeim hópum. Góður femínismi er nefnilega intersectional, skiptist í marga anga og hugar að mörgum hliðum baráttunna á sama tíma. Auðvitað eru skítseiði innan femínismans, en ætlarðu að halda því fram að ekki séu til skítseiði innan metalheimsins? Ertu kannski sammála öllum aðferðafræðum allra annarra í auglýsingabransanum?
Ef fólk með ítök ætlar að hafa hátt um skoðanir sínar í fjölmiðlum er það lágmarkskrafa að kynna sér fræðin áður en maður myndar sér skoðun. Þú hefur til að mynda áhrif á margan ungan manninn og nú hafa margir fengið leyfi til að kalla sig ekki femínista án þess að vita hvað það þýðir, því "Bibbi í Skálmöld sagði það." Tvær góðar leiðir eru til að kynna sér málefnið betur; lesa sér til (ég skal henda í yndislestursyfirlit hér að neðan) eða spyrja þá sem vita betur og hafa hugsanlega mikilla persónulegra hagsmuna að gæta. Þekkjandi þig finnst mér líklegt að þú kjósir þér seinni kostinn og þá hefði nú verið gott að þú hefðir til að mynda samband við konur í lífi þínu sem hafa fundið fyrir aggressívum kynjafordómum á eigin skinni. Þú gætir heyrt í konunni sem:
- hefur verið byrlað ólyfjan á djamminu
- hefur verið klipin af ókunnugum karlmanni í ofanvert lærið, korter í kynfæri, um miðjan dag fyrir að dirfast til að vera berleggjuð í fjölmenni
- hefur fengið nauðgunarhótanir í FB messenger
- lærði 13 ára að stelpur þurfa bara að hundsa tröllin á IRCinu sem spyrja hvort hún sé með stinn brjóst og þrönga píku
- hefur bjargað fleiri en einni ofurölvi (eða lyfjaðri) stelpu úr heljargreipum ókunnugum edrú manns
- svaf hjá manninum sem hélt að ekki þyrfti að spyrja hana hvort hún væri ekki til í endaþarmsmök heldur lét bara vaða í miðjum klíðum
- hætti í vinnunni eftir að hún krafðist hærri launa þegar hún, reynd í sínu fagi, fékk sama launatilboð og alls óreyndi maðurinn með færri tungumál og var sagt að þegja því hann væri nú svo "frábær fjárfesting"
- var hrækt á þegar hún tók ekki vel í kynferðislegar aðdróttanir ókunnugs manns
- verið þvinguð til að vera í háum hælum (yfir 4 cm) í vinnunni
- hefur ósjaldan verið komið fram við sem 'bara' söngkonu þegar hún mætir á tónleikastað ("bíddu, ertu með hljóðfæri?")
- er sagt að hún sé 'of hávaxin' til að reyna við
- er ekki tekin alvarlega hvað varðar tæknileg mál fyrr en einhver karlmaður endurtekur nákvæmlega það sama og hún sagði og hlýtur allan heiðurinn
...og svo mætti lengi halda áfram. Til að gera þetta enn einfaldara fyrir þig er þetta allt eina og sama manneskjan í lífi þínu! Bjóddu mér nú í kaffi og við ræðum þetta á jafningjagrundvelli, ekki í stórum orðum á fréttaveitum landsins.
kveðja, Helga systir, eitilharður femínisti (og þar af leiðandi líka jafnréttissinni)
Pistil Snæbjörns má lesa hér: Ég er ekki femínisti
Yndislestur og áhorf:
Feminism for Dummies
Feminist Frequencies með Anitu Sarkeesian (þessi þáttur fjallar um konur í ísskápum, svolítið þema í þínum skrifum)
Judith Butler (allt því hún er snillingur)
Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity
Betty Friedan - The Feminine Mystique
Rebecca Solnit - Men Explain Things to Me
Athugasemdir