Það getur verið afar krefjandi að skilja umræðuna um sölu áfengis á Íslandi.
Uppruni umræðunnar liggur auðvitað í þeirri forsendu að áfengi skemmi líf fólks nema þess sé neytt í hófi (gleðskap). Það var reynt að banna áfengi, en niðurstaðan var í stuttu máli að við gátum ekki hætt að drekka. Bjór var bannaður, af því að hann er svo góður að fólk drakk mikið af honum. Sterkt áfengi var hins vegar leyft.
Fólk drakk sig því fullt af vodka. Eftir að hafa neytt vörunnar breyttist hegðun sums fólks. Það barði hvert annað á böllum, missti stjórn á tilfinningum sínum og gjarnan meðvitund.
Til þess að minnka drykkju okkar var ákveðið að leyfa ekki verslunum að selja okkur vín. En af því að við gátum ekki hætt að drekka þurfti að stofna sérstaka stofnun til að skenkja okkur í stýrðu umhverfi. Þannig varð til Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
(Hún selur reyndar ekki tóbak, því það þykir í lagi að mest ávanabindandi fíkniefnið fyrir utan heróín sé selt í öllum sjoppum, en það er annað mál.)
ÁTVR er eina verslunarkeðjan sem hefur verið stofnuð með þeim tilgangi að selja sem minnst af vörunni sem hún selur. En við tókum verkefnið alvarlega. Núna erum við með svo góða þjónustu í búðunum sem eiga að takmarka áfengissölu að helstu andstæðingar aukinnar áfengissölu lýsa því yfir að enginn annar gæti selt áfengi eins vel og ÁTVR.
Þetta hefur eiginlega algerlega snúist í höndunum á okkur. ÁTVR hefur staðið sig svo vel að hún er að snúast upp í andhverfu tilgangs síns. Verslunarkeðjan sem var stofnuð til að takmarka aðgengi að áfengi er farin að skara fram úr í aðgengi, þjónustu og úrvali.
„ÁTVR hefur staðið sig svo vel að hún er að snúast upp í andhverfu tilgangs síns.“
„ÁTVR var alveg til fyrirmyndar sem er svolítið kaldhæðnislegt,“ sagði lamaður maður sem fór hringferð um landið í apríl og komst að þeirri niðurstöðu að besta aðgengið fyrir hjólastóla væri hjá ÁTVR af öllum ríkisstofnum.
Eftir að Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram lagafrumvarp um að leggja niður ÁTVR upphófst umræða sem endaði eiginlega jafnskjótt með þeirri niðurstöðu flestra að ÁTVR væri of góð verslunarkeðja til að svipta hana einokun. Með ÁTVR er verðið betra, gæðin meiri, úrvalið meira, aðgengið betra og umfram allt þjónustan miklu betri. Svo er ríkið ekkert að reyna að græða á þér og svína á starfsfólki á unglingsaldri til þess að jakkafatakallar geti tekið út hærri arð og keypt sér meira bling.
Farsæld ÁTVR vegur að grunnhugmyndum okkar um efnahagskerfið. Hún gefur til kynna að samfélag okkar sé byggt á röngum grunni. Hvers vegna ætti ríkið ekki líka að vera betra í að selja ýmislegt annað, til dæmis kleinuhringi og annað bakkelsi? Mikil neysla á kleinuhringjum skaðar mann og því mætti gjarnan stýra henni. Það er líka hægt að gera þetta miklu betur en Dunkin‘ donuts. Í Bakkelsisverslun ríkisins yrði tryggt breitt úrval kleinuhringja, stóraukin gæði og hollusta. Ríkið myndi jafnvel láta smygla heilkorna spelti í þá og starfsmennirnir myndu fræða mann um næringargildið, bragðtegundirnar, uppskriftirnar og upprunann. Þeir myndu skrifa háfleygar lýsingar á bragðkeimunum, mæla með rétta kleinuhringnum með lattenum og segja þér hver væri bestur til að borða eftir steikina eða í morgunmat.
En málið er að við viljum þetta ekki. Ríkið má ekki taka allt yfir. Fordæmi ÁTVR er að lýsa upp gylltan veginn til Sovétríkjanna. Það leiðir okkur til Stalíns. Tekur okkur í Gúlagið.
Þess vegna þarf að breyta ÁTVR. Þó ekki væri nema að skerða þjónustuna örlítið. Fyrsta skrefið er að afnema þessa setningu úr stefnu fyrirtækisins: „Við eigum frumkvæði að því að veita framúrskarandi þjónustu með því að vera lipur og jákvæð“. Starfsfólk ÁTVR ætti þvert á móti að vera óliðlegt og neikvætt þegar fólk er að reyna að nálgast eitur Bakkusar.
Þannig væri hægt að uppfæra þjónustukafla starfsmannahandbókarinnar og hvetja starfsfólk til neysluletjandi samskipta.
„Ætlarðu virkilega að drekka allan þennan bjór?“ gæti starfsmaður spurt til að vekja neytandann til meðvitundar.
„Veistu að það er þriðjudagur?“ spyrði starfsmaður í umþóttunartón þegar það væri þriðjudagur.
„Varstu ekki hérna í gær líka?“ með áhyggjufullri rödd þegar viðskiptavinur kemur aftur.
„Finnst konunni þinni lykt af römmum andardrætti vera góð?“ í gríni, en samt ekki.
„Er þetta það sem launahækkanirnar fara í?“ í hneykslunartón.
Og svo almennar athugasemdir og hlutlausar lýsingar.
„Áfengi sýnir innri mann. Svona ertu þá.“
„Þú ert eitthvað svo þrútinn.“
„Þú heldur að þú getir hætt.“
„Ha? Hvað er þetta? Hver er að öskra í fjarska? Ó, þetta er bara lifrin í þér.“ Ef viðskiptavinur er veiklulegur.
„Leiðin til einkareksturs í heilbrigðisgeiranum er að skerða þjónustu Landspítalans.“
Ég treysti Sjálfstæðisflokknum vel til þess að koma þessu til leiðar og einkavæða sölu áfengis. Eins og í heilbrigðiskerfinu. Leiðin til einkareksturs í heilbrigðisgeiranum er að skerða þjónustu Landspítalans þannig að hún verði svo léleg og biðin svo löng að fólk neyðist til að kaupa sér lækningu dýrum dómi hjá einkareknum læknum, sem taka síðan út arð. Til dæmis bíða þrjú þúsund manns eftir augnsteinaaðgerð á Landspítalanum og biðröðin er þrjú ár. Nú er hægt að stökkva fram fyrir röðina með því að borga einkarekinni augnlæknastofu fjögur hundruð þúsund krónur. Kaupa gullvild í heilbrigði eins og í Albaníu.
Hvernig væri að byrja á því í ÁTVR að fækka starfsfólki, lækka laun þess, auka álagið á það og skerða lífsgæði þess þannig að það verði neikvæðara í vinnunni og veiti verri þjónustu við sölu áfengis?
Þannig myndu myndast raðir sem takmarka aðgengi að áfengi og letja til neyslu þess, og veita umfram allt sterk rök fyrir einkarekstri. Svona eins og í heilbrigðiskerfinu.
Nema við viljum að fólk fái heilbrigðisþjónustu, miklu meira en áfengi. Eða hvað? Er kannski kostnaðarminnkandi fyrir ríkið þegar við drepumst?
Athugasemdir