
Ég fylgdist örlítið með forkosningum fyrir amerísku forsetakosningarnar sem fram fóru í New Hampshire í gær. Og þar komu fyrir sömu frasarnir og ég hef heyrt nánast frá því ég man eftir mér.
Það virðist standa í starfslýsingu forsetaframbjóðenda í þvísa landi að þeir skuli horfa einbeittir út í fjarskann og heita því að „make America great again“.
Aldrei nefna þeir samt til hvaða tíma þeir eru að vísa.
En um leið tönnlast þeir á því - og vei þeim sem gleymir að geta þess einu sinni hverri ræðu - að Bandaríkin séu „the greatest country on Earth“.
Okkur þætti svona belgingur frekar varhugaverður í munni stjórnmálamanna frá Kína eða Rússlandi eða Norður-Kóreu, en öllum þykir sjálfsagt að amerískir stjórnmálamenn tali svona.
Og mótsögnin er náttúrlega himinhrópandi.
Ef þeir eru „greatest“ hvernig geta þeir þá orðið “great again“?
Kannski eru þeir farnir að miða sig við einhver heimsveldi úti geimnum? Hvað veit ég? Ég skil fátt í lógík og baráttuaðferðum amerískra forsetaframbjóðenda.
Hér er svo þessi frægi bútur úr sjónvarpsþættinum Newsroom. Mörgum þar vestra þótti þetta stappa guðlasti næst.
Athugasemdir