
Forsetaframbjóðendur repúblikana í Bandaríkjunum fara í hverjum einustu kappræðum með möntrur sínar um þá gífurlegu hættu sem almennum Bandaríkjamönnum stafi af hryðjuverkamönnum múslima.
Og engum nema þeim sé treystandi til að sýna nægilega hörku gegn þessari miklu hættu.
Þeir stunda því þrotlaus yfirboð um hver ætlar að bregðast harðar við. Á kosningafundum brjótast út fagnaðarlæti þegar frambjóðendur lofa að láta drepa fjölskyldur grunaðra hryðjuverkamanna, eða banna allar ferðir múslima til Bandaríkjanna.
Svipað lýðskrum - þó ekki sé það orðið alveg eins blákalt - er líka á sveimi í Evrópu.
En hér að ofan má sjá andlit þeirrar mestu hættu sem steðjar að almennum Bandaríkjamönnum.
Þetta er ekki dökkleitur illskeyttur Arabi eða Afríkumaður með kóransþulur á vörunum.
Þetta er Jason Brian Dalton sem í gær var handtekinn í bænum Kalamazoo í Michigan, nokkurn veginn miðja vegu milli Chicago og Detroit.
Dalton drap sex manns af handahófi - sér til skemmtunar að því er virðist - og ein 14 ára stúlka berst nú fyrir lífi sínu á gjörgæsludeild.
Forsetaframbjóðendur repúblikana munu sjálfsagt bregðast við með því að leggja til að 14 ára stúlkur gangi um vopnaðar.
Og svo munu þeir halda áfram að froðufella yfir hættunni sem kjósendum þeirra stafi af múslimum.
Athugasemdir