Öll mín æskuár og langt fram á fullorðinsárin var Fidel Castro ein fyrirferðarmesta fígúran í fréttunum. Lengi vel var hann – leynt eða ljóst – sannkölluð hetja vinstri manna.
Enda verður því ekki neitað að það var ýmislegt jákvætt við Castro.
Hann kom fram á tíma þegar nálega öll Mið- og Suður-Ameríka var sífellt undir járnhæl mismunandi illa þokkaðra einræðisherra sem oft voru hreinir fasistar, arðrændu þjóðir sínar, héldu alþýðunni í fátæktargildrum og kúguðu hana grimmilega.
Allt í trausti þess að ef hróflað yrði við þeim, þá mætti treysta á aðstoð Bandaríkjanna.
Þau myndu í nafni „stöðugleika“ bæla niður andstöðu gegn einræðisherrunum, en í raun væru þau bara að ganga erinda bandarískra auðjöfra og stórfyrirtækja sem höguðu sér áratugum saman eins og þau ættu pleisið.
Og áttu raunar pleisið.
Það er ljóst, og því verður ekki neitað, að eftir að Castro náði völdum á Kúbu árið 1959 breyttist margt til batnaðar í landinu.
Lífskjörum var mun betur dreift en áður, fátækasta fólkið hófst upp úr hinni mestu neyð og heilbrigðis- og menntakerfi Kúbu voru, þegar best lét, mun betri en í flestöllum og kannski bara öllum öðrum löndum Rómönsku Ameríku.
Castro var gagnrýndur fyrir að treysta á stuðning Sovétríkjanna eftir valdatökuna en sumpart var hann neyddur til þess. Viðbrögð Bandaríkjanna við valdatöku hans voru miklu einstrengingslegri og ofsafengnari en þau hefðu þurft að vera.
Bandaríkin studdu innrás kúbanskra útlaga, gerðu ótal tilraunir til að myrða Castro sjálfan og skelltu á grimmilegu viðskiptabanni sem varð mikil raun kúbanskri alþýðu.
Þó var einræðisherrann sem Castro steypti af stóli, Batista, hið versta fól sem leyfði spilltri yfirstétt að vaða uppi og Kúba fyrir 1959 var nánast mafíuríki.
Castro var líka fyrstu áratugina eftir byltinguna sannkallaður vonarneisti alþýðu- og mótspyrnuhreyfinga bæði í Rómönsku Ameríku og víðar um að mögulegt væri að brjótast undan lamandi kaldastríðskapítalismanum sem fólk kveinaði víða undan á áhrifasvæðum Bandaríkjanna.
Og fasískar dauðasveitir sem sums staðar gengu lausar í Rómönsku Ameríku og myrtu stjórnarandstæðinga voru áreiðanlega oftar en ekki mun afkastameiri við manndrápin en kúbanskir byltingarmenn.
Castro sjálfur og Ché Guevara, hinn argentínski kumpáni hans, voru lengi vel eins og vinsælar poppstjörnur í augum vinstrafólks, einnig á Íslandi.
Þeir voru þó engin lömb að leika sér við. Castro kom sjálfur á kúgunarstjórn til að halda völdum eftir byltinguna og Ché Guevara drap fólk með köldu blóði.
Og efnahagurinn versnaði eftir því sem á leið, og kjör fólksins.
Fordæmi Castros átti ugglaust sinn þátt í að smátt og smátt fór stjórnarfar í Rómönsku Ameríku að skána. Einræðisstjórnir lögðust af og lýðræði skánaði stórum. Menn áttuðu sig á að ef fólkinu væri ofboðið gæti risið upp nýr Castro í hverju landi.
Þeim mun kaldhæðnislegra er að núna skuli einræðisstjórnin sem Castro kom á vera sú eina sem eftir er í heimshlutanum.
Með sinni grimmu kúgun.
Það er raunar kúgunin sem fylgdi Castro frá upphafi og til enda sem varpar þvílíkum skugga yfir langa stjórnartíð hans að Castro er löngu fallinn af stalli sem einhvers konar átrúnaðargoð vinstri manna. Kúba Castros var og er einræðisríki þar sem stjórnarandstæðingar eru ofsóttir og fangelsaðir.
Og frelsið fótum troðið.
Og margir voru drepnir. Tölur um þá sem stjórn Castros lét myrða eða dóu í fangabúðum hans eru reyndar mjög á reiki. Sumir kúbanskir útlagar tala um 75.000 manns. Bandarískur háskólaprófessor áætlaði nýlega að talan gæti verið um 16.000 - langflestir allra fyrstu árin.
En það er þá 16.000 manns of mikið. Eða hver sem talan er.
Fjörlegt og lifandi andlit Castros með vindilinn myndarlega verður ævinlega eitt helsta andlit kaldastríðstímans í sögunni.
Hann var vissulega hugsjónamaður sem vildi frelsa þjóð sína úr viðjum hins versta kapítalisma og yfirgangsstefnu Bandaríkjastjórnar og stórfyrirtækja hennar.
En því miður varð andlit hans að lokum andlit einræðisherra.
Athugasemdir