Ekki er meiningin að vera hér með íþróttafréttir, en ég get þó ekki stillt mig um að vekja athygli á einu.
Í gær, sunnudaginn 14. febrúar 2016, spilaði fótboltalið Barcelona við Celta Vigo í spænsku efstu deildinni. Á 81. mínútu var dæmd vítaspyrna á Celta. Þá var staðan 3-1 fyrir Barcelona og Lionel Messi steig fram til að taka vítið.
Hérna má sjá hvað gerðist (sjá 2,20 á myndbandinu):
Messi skaut sem sagt ekki sjálfur, heldur gaf boltann á Suárez sem kom aðvífandi og skoraði.
Svona tilþrif sjást einstaka sinnum þegar lið fá víti - en afar sjaldan þó. Sumum finnst að þetta sýni virðingarleysi í garð liðsins sem skorað er gegn. Það sé verið að hæðast að greyjunum sem fengu á sig vítið.
Frægasta dæmið um svona víti er úr leik Arsenal og Manchester City 22. október 2005. Frakkinn Robert Pires hafði komið Arsenal yfir úr víti og þegar Lundúnaliðið fékk aftur víti steig hann enn á punktinn.
Að frumkvæði félaga síns, Thierry Henry, ákváðu þeir hins vegar að framkvæma svona vítaspyrnu. Pires átti að gefa til hliðar og Henry koma brunandi og skora.
Nema hvað á einhvern furðulegan hátt klúðraði Pires sendingunni til Henrys og stóð bara yfir boltanum þegar Henry kom þjótandi. Hvorugur þeirra vissi eiginlega hvaðan á sig stóð veðrið. Leikmenn City brugðust hins vegar skjótt við og náðu boltanum. Hér má sjá þetta klúður:
Þeir Arsenal-félagar voru að reyna að endurtaka frægt mark sem Johann Cruyff skoraði eftir vítaspyrnu í leik með Ajax gegn Helmond 5. desember 1982. Í stöðunni 4-0 fékk Ajax víti, Cruyff bjóst til að taka vítið en í stað þess að skjóta renndi hann boltanum til vinstri þar sem liðsfélagi hans Jesper Olsen kom brunandi.
Olsen renndi svo boltanum aftur til Cruyffs sem skoraði auðvelt mark framhjá markverði Helmond sem kominn var út á móti Olsen. Hér má sjá þetta:
Nú hefur hins vegar komið upp úr dúrnum að líklega var þessi brella reynd í fyrsta sinn í leik gegn íslenska landsliðinu.
Það var í undankeppni fyrir HM 1958 að Íslendingar mættu á Heysel-leikvanginn í Brussel til að spila við Belga. Ekki var búist við miklu af íslenska liðinu, enda hafði það þremur dögum áður tapað 0-8 gegn Frökkum í París.
Og ekki byrjaði leikurinn í Brussel vel. Þegar leið að lokum fyrri hálfleiks var staðan orðin 5-1 fyrir Belga. Þórður Þórðarson hafði skorað mark Íslands.
Á 42. mínútu fengu Belgar víti. Rik Coppens leikmaður Beershot steig fram og bjó sig undir að taka vítið. En þá framkvæmdu Belgar þessa brellu - að því er best er vitað í fyrsta sinn í sögunni. Coppens gaf til hliðar, þar var mættur félagi hans og sá kom boltanum aftur á Coppens sem skaut í rólegheitum framhjá Björgvini Hermannssyni markverði. Björgvin hafði brunað út á móti manninum sem fékk boltann frá Coppens en fékk nú ekki að gert. Sjón er sögu ríkari:
Tveimur mínútum síðar fengu Belgar annað víti og í þetta sinn skoraði Coppens á venjulegan hátt. Staðan í hálfleik var því 7-1. Belgar slökuðu á í seinni hálfleik og leikurinn endaði 8-3. Í blálokin, þegar Belgar voru nærri sofnaðir, skoraði Þórður á ný og svo Ríkarður Jónsson síðasta mark leiksins.
Athugasemdir