Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Með stúdíó í bílskúrnum

Jarþrúð­ur Karls­dótt­ir er tón­skáld, kundal­ini yoga- og hug­leiðslu­kenn­ari og heil­ari sem býr í fal­legu húsi við Hring­braut í Vest­ur­bæn­um, þar sem hún get­ur rækt­að blóm og ma­t­jurtir. Í bíl­skúrn­um er hún með stúd­íó þar sem hún vinn­ur að kvik­mynda­tónlist fyr­ir mynd­ina Atomy.

Með stúdíó í bílskúrnum

Jarþrúður Karlsdóttir er tónskáld, kundalini yoga- og hugleiðslukennari og heilari. Hún kennir jóga í Amara jógastöðinni í Hafnarfirði sem og heima hjá sér en einnig hyggst hún kenna jóga og hugleiðslu utandyra en hægt er að finna upplýsingar um þá tíma á heimasíðu hennar, Pop-up Yoga.

Jara, eins og hún er oftast kölluð, lærði kundalini jógafræðin í Ra Ma Institute of Yogic Science and Technology á Mallorca en hún hefur lengi verið hugfangin af fræðum af svipuðum toga. Síðustu tuttugu ár hefur hún stúderað vestræna og austræna heimspeki sem og dulspeki.

Jara hefur síðastliðin átta ár búið í fallegu húsi við Hringbraut í Vesturbænum. „Það sem hreif mig helst við húsið var hvað það var ódýrt og ég hef gert það heilmikið upp. Þetta er passleg stærð fyrir okkur, miðsvæðis og stutt í skólann fyrir yngri strákinn minn. Mér finnst yndislegt að hafa garð þar sem ég get ræktað blóm og matjurtir, svo fylgdi líka bílskúr með íbúðinni sem ég nota sem tónlistarstúdíó.“

Jara vinnur einmitt að kvikmyndatónlist þessa dagana fyrir myndina Atomy eftir Loga Hilmarsson. Hún fjallar um Brand sem hefur verið lamaður í hjólastól í nokkur ár og ferð hans til Nepal til að hitta heilara sem hefur tekist að fá hann til að standa í fæturna í smá tíma og sitja uppréttur óstuddur. Að sögn Jöru mun heilarinn vinna með Brandi næstu mánuði og meðferðin lofar góðu, það magnaða sé að vestræn læknavísindi hafa ekki náð að hjálpa honum.

Stundin fékk Jöru til að deila með lesendum nokkrum af hennar uppáhaldshlutum, uppskrift sem henni er kær en einnig deilir hún hugleiðslu sem hún hvetur lesendur til að prófa.

Gjöf frá kærastanumGongið er gjöf frá Þóri, kærasta Jöru, sem var sérvalið fyrir hana úti í Nepal af vinum hennar sem voru á ferð að taka upp áðurnefnda heimildarmynd. „Þetta er dásamlegt hljóðfæri og ég nota það til þess að setja fólk í gongbað og framkvæma tónheilun á fólki. Gongið er alveg magnað því þegar er spilað á gong þá fer hugur fólks í pásu á meðan en þá fær líkaminn tækifæri til að laga það sem þarf að laga.“
Gyðjan TaraStytta af gyðjunni Töru sem Jara fann í bænum Glastonbury í ferð sem hún fór þangað á síðasta afmælisdegi sínum. „Þessi bær er virkilega áhugaverður og aðalgatan minnir á Skástræti í Harry Potter, þarna er til dæmis hægt að kaupa galdrastafi, kristalla, efni í töfraseyði og galdraskikkjur en ekki venjuleg föt. Ég valdi mér þessa styttu því mér var gefið andlega nafnið Gian Tara. Gian þýðir viska og Tara þýðir bæði stjarna og tíbeska gyðjan Tara. Þetta er stytta af hvítu Töru þótt hún sé svört, en hvíta Tara er gyðja samúðar, heilunar og langlífis. Tara er mikilvæg í búddisma og birtist sem kvenkyns Boddisattva í annarri aðalgrein búddisma.“
Glimmergítar„Gull-glimmer rafmagnsgítarinn var líka gjöf frá kærastanum og mig var lengi búið að dreyma um góðan glimmer-rafmagnsgítar. Þessi hljómar mjög vel en aðalmálið er náttúrlega útlitið.“
Hengistóllinn„Hengistólinn minn fékk ég gefins þegar yngri strákurinn minn var nokkurra mánaða og ég naut þess að sitja þar með hann í fanginu. Hann er ótrúlega þægilegur, góður til að sitja og lesa í og þegar gestir koma í heimsókn þá vilja allir sitja í honum.“
Uppáhaldsbókin„Þessi mynd hefur fylgt mér í tugi ára en æskuvinkona mín, sú sem á hörpuna, gaf mér hana þegar við vorum litlar og hún var nýkomin heim frá ferð til Japan en mamma hennar var japönsk. Við hliðina á myndinni er uppáhaldsbókin mín, sem hlutur, The Secret Life of Plants. Hún er gjöf frá vini mínum sem fann hana og varð strax hugsað til mín. Textinn og myndirnar í henni eru svo falleg en bókin inniheldur alls kyns rannsóknir um leynilegt líf plantna. Til dæmis að ef maður hótar plöntu að maður ætli að kveikja í henni þá sýnir hún mælanleg óttaviðbrögð og að plöntur eru hrifnar af klassískri tónlist og noise tónlist en þola ekki þungarokk.“
Skilur ekki tíma„Þetta eru nokkrar af bókunum mínum um tíma. Tíma í meðförum eðlisfræðinnar og í bókmenntum. Tími er ein aðal þráhyggjan mín af því að ég skil hann alls ekki. Ég held til dæmis að allt taki fimm til 10 mínútur, sem skapar mér alls konar vandamál. Ég er að vinna að verki um tímann sem verður kannski að veruleika á næsta ári, já eða eftir fimm til tíu mínútur.“

Jara á Instagram: https://www.instagram.com/jaragiantara/
Jara á Facebook: https://www.facebook.com/giantara11/

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár