Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Vinslit Steingríms Joð og Björns Vals – saga af grimmri skepnu

Karl Th. Birg­is­son seg­ir sög­una af vinslit­um og vær­ing­um inn­an raða Vinstri grænna.

Vinslit Steingríms Joð og Björns Vals – saga af grimmri skepnu
Steingrímur J. Sigfússon Formaðurinn fyrrverandi sem átti traust Björns Vals Gíslasonar. Mynd: Pressphotos

Fyrir nokkru rakti ég hér í blaðinu stutta útgáfu af átökum innan Vinstri grænna og beindi einkum athyglinni að Birni Val Gíslasyni, fráfarandi varaformanni.

Frekari eftirgrennslan hefur leitt í ljós að þessi átök hafa verið mun djúpstæðari og persónulegri en áður kom fram. Þau hafa valdið vinslitum bæði á milli Steingríms J. Sigfússonar og Björns Vals, en ekki síður á milli Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur og fjölskyldna þeirra Björns Vals.

Byrjum á einhverri byrjun.

Steingrímur talar við skipstjórann

Um áramótin 2008-2009 hafði Steingrímur samband við Björn Val og lagði hart að honum að taka þriðja sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi fyrir kosningarnar vorið 2009. Steingrímur kvaðst gera ráð fyrir að þetta yrði hans síðasta kjörtímabil og sömuleiðis Þuríðar Backman, sem skipaði annað sætið. Steingrímur sagðist einnig myndu vinna að því að Björn Valur tæki við af honum sem oddviti Vg í kjördæminu eftir hans daga.

Björn Valur var á þessum tíma í góðu starfi sem skipstjóri á einu aflahæsta skipi landsins, frystitogaranum Kleifabergi. Eftir fleiri hvatningar sagði hann sig frá skipstjórastarfinu og náði kjöri á þing í miklum kosningasigri Vg um vorið. 

Á þingi varð Björn Valur einn helzti trúnaðarmaður Steingríms, tók alla slagi sem þurfti fyrir flokkinn og ríkisstjórnina og á þeim var enginn skortur. Hann naut þannig trausts hans og trúnaðar sem formaður fjárlaganefndar og þingflokksformaður.

Í miðju atinu sumarið 2010 bauðst Birni Val skipstjórastaða á skipi sem honum þótti freistandi. Hann ámálgaði þetta fyrir Steingrím, sem ítrekaði fyrri plön sín um að hætta og taldi Björn Val á að halda áfram.

Þegar ríkisstjórnin var nokkurn veginn komin fyrir vind sumarið 2012 – að því marki sem það var hægt – tilkynnti Steingrímur Birni að nú væri komið að því að hann myndi hætta á þingi og ítrekaði stuðning sinn við Björn Val sem oddvita flokksins í kjördæminu.

 

Samherjar í stjórnSteingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir og Björn Valur Gíslason á fundi um eflingu innviða 18. maí 2012.

Skipt um skoðun

Þau plön stóðu ekki lengi, því að skömmu síðar hætti Steingrímur við að hætta. Flestir nefna þá skýringu helzta, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ákvað að færa sig úr Reykjavík og í norðausturkjördæmi (með lögheimili á eyðibýlinu Hrafnabjörgum III) vorið 2013. Steingrímur hafi hreinlega ekki staðizt þá freistingu að berja á dekurdrengnum úr Reykjavík á sínum gróna heimavelli.

Hvað um það – nú var flokknum vandi á höndum. Sýnt var að Þuríður Backman myndi hætta og konur innan flokksins, einkum á suðvesturhorninu, lögðust hart gegn því að karlar skipuðu tvö efstu sæti á lista, sem sagt Steingrímur og Björn Valur.

Þessi sjónarmið urðu ofan á og Björn Valur ákvað í staðinn að bjóða sig fram í forvali flokksins í Reykjavík haustið 2012. Það þótti mörgum djörf ákvörðun, en hún var líklega ekki sízt tekin til að ögra þeim sem höfðu lagzt gegn framboði hans fyrir norðan.

Björn Valur lenti í sjöunda sæti í forvalinu, en innvígðir segja mér að aðeins hafi vantað átján atkvæði upp á að hann næði þriðja sæti og þar með öðru sæti á lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna, þrátt fyrir ýmis bandalög gegn aðkomumanninum. En átján atkvæði eru átján atkvæði.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu