„Ógeðslegt í raun og veru að horfa upp á þetta”

Hinum kól­umb­íska Oscar Andres Flor­ez Boca­negra hef­ur ver­ið synj­að um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fjöldi mót­mæl­enda kom sam­an nið­ur á Aust­ur­velli til þess að mót­mæla úr­skurð­in­um. Skila­boð­in voru skýr: „Oscar á heima hér!"

„Ógeðslegt í raun og veru að horfa upp á þetta”
Fjölmennt á mótmælum gegn brottvísun Oscars Mótmælendur sýna Oscari stuðning Mynd: Golli

Fjöldi mótmælenda voru saman komnir á Austurvelli kl. 15 í dag til þess að mótmæla úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli Oscars Andres Florez Bocanegra, 17 ára drengs frá Kólumbíu. Búið var að girða Alþingishúsið af og lögreglan var með viðbúnað á svæðinu. Mótmælin fóru friðsamlega fram, haldnar voru ræður og mótmælendur, á öllum aldri, létu í sér heyra með hinum ýmsu slagorðum.

Fjöldi mótmæla brottvísun OscarsMargt var um manninn á Austurvelli

„Mjög óréttlátt að það sé verið að senda hann úr landi”

Augljóst var að fólki misbauð niðurstaða úrskurðarins. „Mér ofbýður framkoma við þennan dreng sem er með fjölskyldu sem vill sinna honum og fósturpabbi hans hefur farið út að sækja hann meira að segja,” sagði Anna Jóna Jóhannsdóttir, og bætti við: „Ég trúi ekki öðru en að við höfum pláss fyrir einn svona dreng hjá einni fjölskyldu. Nóg er af vandamálum í heiminum og við bætum ekki einu barni við.” 

„Mannslíf eru í húfi og í þetta skiptið er það líf barns sem er í húfi.”
Hafsteinn Guðmundsson
Mótmælandi

„Mér finnst þetta mjög óréttlátt að það sé verið að senda hann úr landi. Þetta er bara ógeðslegt í raun og veru að horfa upp á þetta og maður fær illt í hjartað að sjá þetta,” sagði Hafsteinn Guðmundsson.

Mótmæli brottvísunar OscarsMótmælendur mættu með skýr skilaboð

„Oscar er búinn að koma sér fyrir hér, á fjölskyldu hér orðið, þannig þetta er algjörlega út í hött,” sagði Einar Ólafsson sem mætti á mótmælin.

„Kom okkur ofsalega á óvart að þetta yrði niðurstaða kærunefndar”

Lögmaður Oscars, Helga Vala Helgadóttir, var viðstödd mótmælin og á meðal ræðumanna. Spurð út í niðurstöðu úrskurðarins sagði Helga Vala: „Mér finnst þetta bara efnislega rangt. Ég get ekki séð af hverju er ekki hægt að skjóta skjólshúsi yfir hann, það liggur alveg fyrir að hans félagslegu aðstæður í heimalandinu eru gríðarlega flóknar. Það liggur líka fyrir að barnaverndaryfirvöld á Íslandi brutu á réttindum hans á sínum tíma þegar hann var hérna.” En þá vísar Helga Vala til þess þegar Oscar var sendur til Bógóta í október síðastliðin með föður sínum og var í kjölfarið skilinn eftir á flugvellinum þar. 

Mótmæli brottvísunar OscarsOscar á heima hér

Útlendingastofnun synjaði Oscari, föður hans og systrum um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum og var þeim jafnframt brottvísað frá landinu 15. október í fyrra. Oscar endaði í kjölfarið á götunni í Bógóta en Svavar Jóhannsson, fósturfaðir hans, sótti hann til Kólumbíu um miðjan nóvember. 

Oscar lagði fram endurtekna umsókn um alþjóðlega vernd 10. febrúar síðastliðin eftir að Útlendingastofnun hafði synjað honum, föður hans og systrum í október í fyrra. Nú lagði hann fram umsókn á þeim grundvelli að hann væri fylgdarlaust barn en Útlendingastofnun vísaði umsókninni frá þar sem ástæðan þótti ekki auka líkur á því að fallist yrði á fyrri umsókn hans skv. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. 

Í apríl kærði Oscar ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar og gerði grein fyrir því að hann hefði búið við líkamlegt og andlegt ofbeldi af hálfu föður síns og ekki notið verndar móður sinnar en hún og faðir hans eru skilin. Oscar hafi þurft að flýja frá föður sínum og fékk skjól hjá Svavari Jóhannssyni og Sonju Magnúsdóttur. 

Sonja Magnúsdóttir og Svavar JóhannssonFósturforeldrar Oscars voru viðstödd mótmælin

Í úrskurði kærunefndar útlendingamála, sem kom út 22. maí, er greint frá því að Oscar eigi fjölskyldu og forsjáraðila í Kólumbíu en þar að auki séu barnaverndaryfirvöld þar í landi sem munu veita honum viðtökur við komu til landsins. Kærunefnd staðfesti niðurstöðu Útlendingastofnunar er varða 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. 

„Það skortir mennsku í þessar ákvarðanir og þau skýla sér á bakvið lögin, en lögin heimila að veita honum dvalarleyfi til dæmis af mannúðarástæðum."
Helga Vala Helgadóttir
Lögmaður Oscars

Helga Vala segir það efnislega rangt að Oscar eigi foreldra í Kólumbíu þar sem þau geti ekki annast hann og hann sé því fylgdarlaust barn. Þar að auki segir hún úrskurðinn rýra frásögn Oscars um að hann hafi orðið fyrir ofbeldi en nefndin fékk í hendur greinargerð Barnaverndar Suðurnesja í stað endurrits af skýrslu hennar. Þetta hafi verið gert til að koma í veg fyrir að smáatriði yrðu gerð opinber. Helga Vala segist hafa talið að greinargerðin myndi teljast fullnægjandi gögn þar sem skýrt kemur fram í greinargerðinni að mælt sé gegn því að Oscari sé brottvísað.

Sonja MagnúsdóttirFósturmóðir Oscars á mótmælunum

Gaslýsingar” Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun sendi fyrr í dag frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Spurð út í viðbrögð sín vegna hennar segir Helga Vala: „Ég leyfi mér að nota orðið gaslýsing í þessu, tímasetning þessarar yfirlýsingar Útlendingastofnunar er engin tilviljun þau voru auðvitað að reyna að koma í veg fyrir að hér yrði mannfjöldi – þeim tókst þó ekki ætlunarverk sitt.”

Í yfirlýsingunni er því haldið fram að ekki sé gott að skapa væntingar sem ekki séð hægt að standa við sem Helga Vala gagnrýnir: „Þau leyfa sér að vega að Sonju og Svavari fyrir að búa til of miklar væntingar hjá drengnum, að þau hafi í raun valdið honum meiri skaða heldur en ákvörðun stjórnvalda á Íslandi. Þetta eru auðvitað ótrúlega ómanneskjulegt og bara lélegt finnst mér af þeim að fara fram með þessum hætti og ég skil ekki alveg tilganginn í því.” 

Næstu skref

Nú er verið að bera ákvörðun kærunefndar undir dómstóla en Helga Vala segir að þau ætli að: „treysta því að það sé aðeins meiri mennska þar.”

Það þurfi þó einnig að biðla til kærunefndar útlendingamála að fresta réttaráhrifum svo að Oscar fái að vera á landinu á meðan ákvörðunin er borin undir dómstóla en til stendur að senda Oscar úr landi í næstu viku þannig að tíminn er naumur.

Kjósa
19
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
    Þvílík mannvonska gegn þessum dreng og fósturforeldrum hans !
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu