Snýst um félagsskapinn frekar en að toppa tinda

Þrjár vin­kon­ur sem hafa bak­grunn í fjalla­mennsku standa á bak við göngu­hóp­inn Fjall­kyrj­ur. Já­kvætt, hvetj­andi og heil­brigt um­hverfi er leið­ar­stef hóps­ins og stefn­an er ekki endi­lega sett á hæsta fjall­ið. Fé­lags­skap­ur­inn skipt­ir mestu máli.

Snýst um félagsskapinn frekar en að toppa tinda
Í öllum regnbogans litum Fjallkyrjur er samfélag kvenna sem njóta eða langar að læra að njóta þess að stunda fjallgöngur og útiveru í skemmtilegum hópi kvenna. Mynd: Fjallkyrjur

Fjallkyrjur er kærleiksríkur kvennahópur sem nýtur þess, eða langar að læra að njóta þess, að stunda fjallgöngur og útiveru í skemmtilegum hópi kvenna. Fjallkyrjur eiga rætur sínar að rekja í kvennahóp í Ferðafélagi Íslands sem nefnist Kvennakraftur. „Fjallkyrjur er okkar eigið verkefni, okkur þótti mikilvægt að standa vörð um þennan kjarna, konur sem eru að byrja, sem skila sér svo oft í hina hópana,“ segir Eyrún Viktorsdóttir, ein af þremur fjallstýrum Fjallkyrja, en ásamt henni stýra Dögg Ármannsdóttir og Kolbrún Björnsdóttir göngum hópsins. Allar hafa þær unnið við leiðsögn í fjölda ára og stýrt hópum á fjöllum.

„Við viljum búa til jákvætt, hvetjandi og heilbrigt umhverfi þar sem stefnan er ekki endilega sett á hæsta fjallið eða að fara hraðast yfir. Þetta snýst meira um félagsskapinn sem okkur er svo annt um og við viljum byggja upp,“ segir Eyrún. Vorverkefni Fjallkyrjanna hófust í febrúar og það er mikill hugur í Fjallkyrjum að takast á við fjölbreytt verkefni með hækkandi sól. 

FjallstýrurEyrún Viktorsdóttir, Dögg Ármannsdóttir og Kolbrún Björnsdóttir stýra göngum Fjallkyrja.

„Það eru margar konur sem hafa verið með okkur í mörg ár og svo eru einhverjar sem taka sér pásu og koma svo aftur inn. Við höfum lítið þurft að peppa upp stemningu, þær hafa alveg séð um það sjálfar. Þetta er orðinn mikill vinkvennahópur,“ segir Eyrún. 

„Ég varð eiginlega bara háð því að kynna aðrar konur fyrir þessum töfrum“
Eyrún Viktorsdóttir
fjallstýra

Sjálf hefur hún stundað útivist frá því að hún man eftir sér. „Það er enginn sérstakur byrjunarreitur, þetta hefur verið viðloðandi frá því í æsku, frá því að ég var í pollagallanum sem krakki. Það er eitthvað við útivistina sem er svo heillandi, hún er svo nærandi. Mér fannst það líka hjálpa til við að halda striki í námi, að fá útrás, ég fann einhverja tengingu í útivistinni og hún hefur knúið mig áfram í öllu sem ég geri, og enn þann dag í dag. Ég varð eiginlega bara háð því að kynna aðrar konur fyrir þessum töfrum af því að ég hafði sjálf upplifað það svo sterkt hvað lífið varð betra og allt auðveldara með útivistinni.“

Upp á fjallEyrún leiðir fjallkyrjur á Akrafjall. Útivist hefur verið hluti af lífinu frá því að hún man eftir sér.

Öruggt umhverfi eftir getustigi

Eyrún hefur einnig bakgrunn úr starfi í björgunarsveitinni en hún fór í gegnum nýliðaþjálfun og hefur verið virk í starfi björgunarsveitanna. „Þar kemur öryggi og fjallamennska inn, sem er líka ágætt því við erum allar með svo ólíkan bakgrunn, okkur þykir mikilvægt að við séum ekki allar eins, við erum allar frekar ólíkar en samt með þessa sömu sýn. Allar fjallstýrur hafa notað útivistina til góðs.“

Úr varð að Eyrún, Dögg og Kolbrún ákváðu að stofna tvenns konar gönguhópa: Fjallkyrjur I og Fjallkyrjur II. „Við erum með þessa tvo hópa sem eru getuskiptir og okkar sál er rosa mikið í þessum konum sem eru annaðhvort nýjar eða að koma sér aftur af stað, jafnvel eftir veikindi eða bara lífið. Það er alls konar sem getur gengið á í lífi kvenna. Okkur fannst mikilvægt að bjóða þeim öruggan stað í göngum og útivist,“ segir Eyrún. 

Fjallkyrjur I hentar þeim sem eru að byrja í göngum og þeim sem eru vanari en vilja njóta og ganga aðeins hægar yfir. Hópurinn fer í göngu annað hvert miðvikudagskvöld og einn sunnudag í mánuði, samtals ellefu göngur. Kvöldgöngurnar í mesta myrkrinu snúast um að vera í núinu, fá hreyfingu og súrefni og upplifa hversu magnað það er fyrir bæði líkama og sál að ganga úti í skammdeginu og í raun auðveldara en margar halda enda eru þær göngur oft og tíðum í miklu uppáhaldi kvenna, að sögn Eyrúnar. Helgarnar eru svo nýttar til að kanna nýjar slóðir og njóta umhverfisins og útsýnis.

Aðalmálið er að fara út og hreyfa sig, njóta þess að vera í náttúrunni í góðum félagsskap. „Hópur eitt er fyrir þær sem eru nýjar og kannski hræddar við að byrja. Við viljum búa til öruggt fyrsta skref fyrir þær til þess að stíga inn í útivistina. Það er engin forkrafa um neitt nema áhuga. Sömuleiðis fyrir þær sem hafa ekki áhuga á að ganga hratt. Ótrúlegt en satt þá eru ekkert allir sem vilja ganga hratt eða fara hátt, okkur fannst mikilvægt að það væri pláss fyrir þann hóp kvenna,“ segir Eyrún. 

Líf og fjörFjallkyrjur bregða á leik á Brekkukambi í Hvalfirði.

„Jæja“-konurnar

Fjallkyrjur II hentar þeim sem eru vanar göngum. Hópurinn fer í aðeins meira krefjandi göngur en hópur I, annað hvert þriðjudagskvöld og einn laugardag í mánuði, samtals ellefu göngur. Eyrún kallar konurnar í þessum hópi stundum „Jæja-konurnar“. „Þær eru svo ótrúlega kröftugar, það má ekki setjast niður og taka bita af nestinu áður en einhver segir „jæja“. Þær eru svo ótrúlega spenntar og hvetjandi og vilja komast á toppinn. Við leyfum okkur að fara aðeins lengra og hærra með þann hóp. Þær eru öllu vanar.“

„Það má ekki setjast niður og taka bita af nestinu áður en einhver segir „jæja““
Eyrún fjallstýra
um fjallkyrjurnar í hópi II
NestispásaDögg og Eyrún fjallstýrur njóta nestispásu, sem er oftast styttri í hópi II en hópi I, ákafinn er slíkur.

Með því að skipta hópunum í tvennt vilja fjallstýrurnar tryggja að hver kona finni sinn stað, ekki síst til að efla sjálfstraustið. „Það eru einhverjar sem halda að þær geti ekki neitt og mæta í hóp eitt en svo eiga þær engan veginn heima þar og það er auðvelt fyrir okkur að geta staðsett þær og hvetjum þær til að finna sig í réttum hópi,“ segir Eyrún. Lítið mál er að færa sig milli hópa yfir önnina. „Við viljum bara að hver og ein geti notið sín og leyfum þessu að flæða eins og konur þurfa á að halda.“

Starfinu er skipt upp í tvær annir: Vorstarf og hauststarf og greitt er fyrir hverja önn. Um 30 konur eru í Fjallkyrjum I en örlítið fleiri í hópi II, eða um 35–40. Hægt er að fylgjast með starfinu og fá upplýsingar um næstu verkefni með því að leita uppi „Fjallkyrjur“ á Facebook.  Samfélag Fjallkyrja fer nefnilega ört stækkandi.

En hvaða þýðingu hefur það að tilheyra félagsskap eins og Fjallkyrjum? 

„Það er persónubundið, ég held að flestar sem hafa áhuga á útivist tengjast í gegnum að mæta. Við höfum séð ólíkustu konur tengjast og verða vinkonur sem hefðu líklegast aldrei náð saman undir venjulegum kringumstæðum. Það er ótrúlega fallegt að sjá hvað það er hægt að víkka sjóndeildarhringinn með því að kynnast alls konar fólki í gegnum sameiginlegt áhugamál,“ segir Eyrún. 

Áfram gakkGöngur Fjallkyrja eru fjölbreyttar.

Fjallstýrunni fallast hendur þegar hún er beðin um að velja uppáhaldsgöngu með Fjallkyrjunum hingað til. Þær eru óteljandi. „Við áttum mjög góða göngu í Eldvörpum á Reykjanesi þegar verið var að bíða eftir gosi. Við vorum þar í lok nóvember í dásamlegu veðri, það var sól og enginn snjór. Við fórum í 20 kílómetra göngu og þegar við komum til baka voru heimamenn að spila golf og við vorum búnar að leggja fyrir gámana þar sem þeir voru með golfbíla, okkur datt ekki í hug að einhver væri að spila golf á þessum tíma.“

Glymur í Hvalfirði er sömuleiðis í uppáhaldi. „Okkur þykir hann voða notalegur og konur hafa notið þess að vera þar með okkur. Það er erfitt að velja eina göngu af því að þetta snýst kannski meira um þessi litlu augnablik, þessar litlu, stuttu göngur, jafnvel bara upp á Úlfarsfell eða Helgafell. Það þarf ekki meira til til að finna töfrana í hópunum. Það eru ekki tindarnir heldur frekar félagsskapurinn sem situr eftir.“

FjallkyrjurGönguhópur Fjallkyrja við Tröllafoss.




Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár