Foreldrar vinna á leikskóla til að brúa bilið
Í leikskóla er gaman Vilhjálmur Þór Svansson lögfræðingur, Gunnhildur Gunnarsdóttir sálfræðingur, Auður Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og Arnar Dan Kristjánsson leikari tryggðu börnum sínum pláss á leikskóla með því að hefja þar störf. Það er lausn, en engin töfralausn, að sögn leikskólastjóra. Mynd: Golli
Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

Foreldrar vinna á leikskóla til að brúa bilið

Veru­leiki barna­fjöl­skyldna í Reykja­vík ein­kenn­ist af því að börn eru orð­in alltof göm­ul til að telja ald­ur í mán­uð­um þeg­ar þau loks kom­ast inn á leik­skóla. Ár­um sam­an hef­ur öll­um 12 mán­aða göml­um börn­um ver­ið lof­að leik­skóla­plássi en raun­in er að mán­uði barna sem fá pláss er hægt að telja í tug­um. For­eldr­ar hafa grip­ið til sinna ráða, með­al ann­ars með því að starfa á leik­skóla til að fá for­gang að leik­skóla­plássi.

Sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur, leikari og lögfræðingur. Allt eru þetta starfsheiti foreldra sem hafa lagt ferilinn á hilluna, að minnsta kosti um sinn, og hafið störf á leikskóla. Ástæðan er einföld: Að tryggja barni sínu leikskólapláss. Sögur þessara leikskólastarfsmanna, og fjölskyldna þeirra, má finna í Heimildinni í dag, sem og viðtal við Halldóru Guðmundsdóttur, leikskólastjóra á Drafnarsteini. 

Halldóra hefur starfað á sama leikskólanum alla sína starfsævi, aldarfjórðung, og hefur tekist á við ótal krefjandi verkefni, allt frá verkföllum til heimsfaraldurs. Það eru tímabundin verkefni en viðvarandi verkefni er mannekla. Í orðaforða leikskólastjórans má meðal annars finna orð eins og „mannekluhaust“ og Halldóra talar um starfsfólkið sitt sem „staðfugla“ og „farfugla“. „Staðfuglarnir eru fólk með góða reynslu og menntun sem starfar lengi en farfuglarnir eru til dæmis ungt fólk sem er að taka sér hlé frá námi eða er ekki búið að ákveða hvað það ætlar að verða þegar það verður stórt. En um leið og farfuglarnir verða fleiri en staðfuglarnir þá er maður í vanda,“ segir Halldóra í viðtali við Heimildina. Foreldrar sem hefja störf á leikskólum til að tryggja börnum sínum leikskólapláss eru farfuglar. Það er engin töfralausn, þetta er úrræði sem hefur verið lengi til staðar en hefur færst í aukana síðustu ár. 

Á leikskóla í aldarfjórðungHall­dóra Guð­munds­dótt­ir, leik­skóla­stjóri á Drafnar­steini, seg­ir það enga töfra­lausn að for­eldr­ar ráði sig til starfa á leik­skól­um til að tryggja börn­um sín­um leik­skóla­pláss.

Í reglum um leikskólaþjónustu Reykjavíkurborgar segir að starfsmaður leikskóla geti sótt um forgang að leikskólum borgarinnar, svo lengi sem lögheimili starfsmanns er í Reykjavík og þarf starfsmaðurinn að vera að lágmarki í 50 prósent starfshlutfalli. Þar segir einnig að ef starfsmaður hættir störfum eftir að hafa starfað í 12 mánuði eða færri sé „ekki unnt að tryggja að starfsmaður haldi leikskólaplássi fyrir barn sitt“. Undantekning virðist þó vera gerð á þeirri reglu en Vilhjálmur Þór Svansson lögfræðingur gerði til að mynda sex mánaða ráðningarsamning við leikskóla dóttur sinnar. Hann lítur á þetta sem tímabundið ástand en sér jákvæðar hliðar á fyrirkomulaginu. „Ég held að þetta sé hollt og gott að fara aðeins út fyrir sinn sérfræðiramma tímabundið,“ segir hann í samtali við Heimildina. Arnar Dan Kristjánsson leikari lítur öðrum augun á leikskólastarfið, en hann hóf störf á Drafnarsteini til að koma dóttur sinni að. Hann lítur ekki á það sem fórn að starfa á leikskóla. „Mér finnst það mikil gjöf fyrir mig að hafa fengið innsýn inn í þetta starf og þennan heim,“ segir Arnar. 

Áhrif á jafnrétti kynjanna og samfélagið í heild

Í ágúst kvaddi Gunnhildur Gunnarsdóttir sálfræðingur leikskólann Steinahlíð sem hún hafði starfað á frá því í janúar 2024. „Bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla lengist og bilið á milli jafnrétti kynjanna eykst en konur eru líklegri til þess að vera lengur frá vinnumarkaði vegna skorts á dagvistarúrræðum fyrir börnin,“ segir Gunnhildur, sem fór að vinna á leikskóla til að koma syninum að. Maðurinn hennar er flugmaður og það reyndist flóknara fyrir hann að gera hlé á sínum störfum.

Það er í takt við niðurstöðu skýrslu frá innviðaráðherra frá því í ágúst 2024 um kostnað foreldra við að brúa bilið frá fæðingarorlofi fram að dagvistun. Þar segir einfaldlega: „Engum vafa er undirorpið að áhrif bils á milli fæðingarorlofsréttar foreldra og þar til barni býðst dagvistun á leikskóla á jafnrétti eru umtalsverð.“ Áhrifin birtast einna helst í tekjulækkun. Samkvæmt rannsókn á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins á tekjubreytingu kynjanna í kringum fæðingu barna á árunum 2013–2022 kemur fram að  ráðstöfunartekjur kvenna hafi lækkað að meðaltali um 30–40 prósent á fyrsta heila árinu eftir fæðingu barns. Á sama tíma hafi ráðstöfunartekjur karla lækkað um 3–5 prósent.

Samfélagsleg áhrif þess að foreldrar hverfi frá störfum sínum og til leikskólanna eru viðmælendum Heimildarinnar einnig hugleikin. Auður Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur er í tímabundnu leyfi frá bráðamóttöku Landspítalans á meðan hún starfar á leikskóla sona sinna. „Ég er búin að vinna á bráðamóttökunni í 8 ár, ég fór að hugsa: Hver er ég ef ég vinn ekki þarna? Hvað stend ég fyrir? En svo ákvað ég að breyta hugarfarinu,“ segir Auður, sem lítur á starfið sem tækifæri til að vera í hefðbundinni fjölskyldurútínu. „Prófa að vera heima hjá mér, sofandi á næturnar, ekki vinnandi, prófa að fá jólafrí og helgarfrí.“  

Stóri úthlutunardagurinn

1117
börn
eru á biðlista sem verða 18 mánaða eða eldri 1. september nk.

Vilhjálmur, Arnar, Gunnhildur og Auður tryggðu börnum sínum pláss með þessum hætti en eftir stendur að biðlisti á leikskóla borgarinnar hleypur enn á hundruðum barna. Biðlistinn tók þó breytingum í vikunni á „stóra úthlutunardeginum“ þann 3. mars. Á meðan sumir foreldrar fögnuðu langþráðu leikskólaplássi upplifðu aðrir vonbrigði og óvissu. Óvissuástand er orðið hluti af hversdeginum hjá foreldrum sem eiga börn sem föst eru í bilinu á milli fæðingarorlofs og dagvistunar. Leikskólavandinn er ekki nýr af nálinni, það eru allir meðvitaðir um. Aðgerðaáætlunin „Brúum bilið“  var samþykkt af borgarstjórn í nóvember 2018, fyrir sjö árum, áætlun sem miðar að því að fjölga leikskólaplássum. 

BiðlistiStaðan á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík í upphafi árs.
1566
leikskólapláss
eru að losna vegna barna sem byrja í grunnskóla í haust.

Fimm árum eftir að áætlunin var samþykkt eru biðlistar eftir leikskólaplássi þétt skipaðir og fjöldi leikskóla er óstarfhæfur, en í upphafi síðasta skólaárs voru níu leikskólar lokaðir eða með skerta starfsemi vegna myglu. Starfsemi leikskólanna færist á aðrar starfsstöðvar, einkum nýja leikskóla, sem hefur tilheyrandi áhrif á hreyfingu biðlista. Samkvæmt aðgerðaáætluninni munu tíu nýir leikskólar og fjórar svokallaðar Ævintýraborgir taka til starfa víðs vegar um borgina til ársins 2026 en dæmi eru um að starfsemi leikskóla sem hefur þurft að loka vegna myglu hafi færst yfir í nýja leikskóla. 

Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna, um lífsgæði í Reykjavík, sem undirrituð var við myndun nýs meirihluta í borginni í lok febrúar, eru „börn og fjölskyldur þeirra“ á meðal forgangsmála. Nýr meirihluti vill þannig bæta starfsaðstæður og vinnuumhverfi í leik- og grunnskólum í samvinnu við starfsfólk og fjölga á „leikskólaplássum verulega með opnun nýrra leikskóla og stækkun eldri leikskóla án þess að taka skref í átt að fyrirtækjavæðingu“. 

Samstarfsflokkarnir í nýmynduðum meirihluta í borginni birtu aðgerðaáætlun í vikunni þar sem segir að flokkarnir muni „leita allra leiða til að fjölga plássum í leikskólum“. Meðal tillagna er að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að setja saman spretthóp kjörinna fulltrúa sem yfirfer niðurstöður stýrihópsins „Brúum bilið“ og vinnur á þeim grundvelli að kostnaðarmeta og tímasetja áætlun um fjölgun leikskólaplássa í Reykjavík.

Pólitískar kreddur?

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir það vonbrigði að nýr meirihluti í borginni stefni ekki á að veita fyrirtækjum leyfi til að opna leikskóla í Reykjavík, nokkuð sem Einar Þorsteinsson, fyrrverandi  borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins í borginni, hefur talað fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu á fundi borgarstjórnar í vikunni að borgin myndi styðja við vinnustaði sem vilja opna leikskóla eða daggæslu en tillagan var felld. Einar sagði í samtali við mbl.is í vikunni að það væri sorglegt að „pólitískar kreddur“ ráði för í ákvörðun meirihlutans sem sé á móti einkaframtaki. Á þessu sé ljóst að leikskólamál í Reykjavíkurborg muni áfram einkennast af pólitík frekar en raunverulegum lausnum.

Á meðan munu foreldrar leikskólabarna halda áfram að grípa til allra ráða, meðal annars að starfa á leikskólum barna sinna.

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Í leikskóla er álag

Hélt að hún myndi höndla álagið betur
ViðtalÍ leikskóla er álag

Hélt að hún myndi höndla álag­ið bet­ur

Að vinna með börn­um er það skemmti­leg­asta sem Gunn­hild­ur Gunn­ars­dótt­ir barna­sál­fræð­ing­ur ger­ir. Þeg­ar hún tók að sér tíma­bund­ið starf á leik­skóla til að tryggja syni sín­um leik­skóla­pláss hélt hún að hún myndi höndla álag­ið en það kom henni á óvart hversu krefj­andi starfs­um­hverf­ið er. „Stund­um þeg­ar ég kom heim eft­ir lang­an dag vildi ég bara að eng­inn tal­aði við mig, ég var svo ótrú­lega þreytt.“
Síðasta hálmstráið að vinna á leikskóla — en dýrmætt
FréttirÍ leikskóla er álag

Síð­asta hálmstrá­ið að vinna á leik­skóla — en dýr­mætt

Vil­hjálm­ur Þór Svans­son, lög­fræð­ing­ur og starfs­mað­ur á leik­skól­an­um Nóa­borg, bjóst ekki við að hefja störf á leik­skóla til að koma dótt­ur sinni að á leik­skóla. Hann seg­ir það hollt fyr­ir for­eldra að stíga að­eins út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann og dýr­mætt að fylgj­ast með dætr­um sín­um vaxa og dafna í leik­skóla­starf­inu.
Leitar að framtíðarstarfsfólki á leikskóla:  „Við erum alltaf að gefa afslátt“
ViðtalÍ leikskóla er álag

Leit­ar að fram­tíð­ar­starfs­fólki á leik­skóla: „Við er­um alltaf að gefa af­slátt“

Hall­dóra Guð­munds­dótt­ir, leik­skóla­stjóri á Drafnar­steini, seg­ir það enga töfra­lausn að for­eldr­ar ráði sig tíma­bund­ið til starfa á leik­skól­um til að tryggja börn­um sín­um leik­skóla­pláss. Þetta sé hins veg­ar úr­ræði sem hafi ver­ið lengi til stað­ar en hef­ur færst í auk­ana síð­ustu ár. Far­fugl­arn­ir mega ekki verða fleiri en stað­fugl­arn­ir.
Frá endurlífgun á bráðamóttökunni í umönnun leikskólabarna
ViðtalÍ leikskóla er álag

Frá end­ur­lífg­un á bráða­mót­tök­unni í umönn­un leik­skóla­barna

Líf Auð­ar Ólafs­dótt­ur hjúkr­un­ar­fræð­ings og fjöl­skyldu tók stakka­skipt­um síð­asta haust þeg­ar hún sagði skil­ið við Bráða­mót­töku Land­spít­al­ans eft­ir átta ára starf og hóf störf á leik­skóla barn­anna sinna til að koma yngra barn­inu inn á leik­skóla. „Ég fór úr því að vera í end­ur­lífg­un einn dag­inn yf­ir í að syngja Kalli litli kóngu­ló hinn dag­inn.“

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár