„Það var ákveðin upplifun að útskrifast úr grunnskóla og fara í menntaskólann. Það var breyting, sérstaklega af því maður var búinn að vera með sama fólkinu í tíu ár í Austurbæjarskóla, bara slakt.
Það fóru fáir í Kvennó, það var aðallega MR og Versló. Svo fórum við nokkrir í Kvennó. Fyrst var það ekki æðislegt, okkur fannst þetta ekki geggjað. En við tókumst á við þetta og gerðum þetta. En það var svolítið skrýtið að fara frá Austurbæjarskóla þar sem maður er búinn að vera með öllum, þekkir alla, hafa gaman, maður er aðalmaðurinn, ógeðslega gaman og létt, svo fer maður og byrjar upp á nýtt.
„Ætla ég að elta listina eða peninginn?“
Ég er á öðru ári núna. Við erum bara að gera okkar, ég er ekki mikið að pæla í því að vera aðalmaðurinn núna. Ég var með smá slæmt hugarfar í byrjun en núna er þetta að breytast aðeins. Fyrst fannst mér þetta ömurlegt, mig langaði að skipta um skóla, fara. En núna er lítið eftir og ég ætla að klára þetta. Þrjú ár er stuttur tími, það er svolítið mikið að þjappa þessu í þrjú ár, við erum alltaf að læra og læra og læra. Það væri betra að hafa fjögur ár, þá væri meiri tími til að hugsa hvað ég vil gera. Ég gæti verið slakari og notið þess að vera þarna í staðinn fyrir að hugsa bara um að læra.
Ég finn ekki fyrir neinni pressu samt í lífinu, ég er bara slakur. Ég er með tvær hugsanir fyrir framtíðina: Annaðhvort að fylgja hjartanu og gera eitthvað skemmtilegt, eins og einhverja list eða eitthvað, teikna, mála eða hanna. Eða elta peninginn. Ég þarf svolítið að ákveða mig, þetta er erfitt. Það er ekki langt þangað til ég þarf að fara að pæla í þessu. Ætla ég að elta listina eða peninginn?“
Athugasemdir