Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

Jesús og María halda jólin í Reykjavík með Jesú

Jesús Sig­fús, kon­an hans María og son­ur þeirra Kristján Jesús halda jól­in heil­ög sam­an í Reykja­vík. Sá eldri fékk sím­tal frá nunnu sem leit­aði til hans vegna nafns­ins en sá yngri fékk í fyrra sér­staka jóla­kveðju frá ókunn­ugri konu sem vildi heyra í Jesú rétt fyr­ir af­mæli frels­ar­ans.

Jesús og María halda jólin í Reykjavík með Jesú
Nafnar frelsarans Jesús og Jesús ásamt Maríu. Afmælisdagur hennar nálgast en þeim degi deilir hún með nafna manns síns og sonar, Jesú Kristi. Mynd: Golli

Síminn hringir nokkrum sinnum og karlmaður tekur upp tólið. „Halló?“ spyr rám rödd með dálitlum hreim.

Góðan daginn. Er ég að tala við Jesú?

„Góðan daginn. Þú ert að tala við Jesú,“ svarar Jesús. 

Jesús, Jesús og María

Maðurinn í símanum er ekki fæddur í Betlehem né heldur er hann helsti trúarleiðtogi og mikilvægasta manneskjan í kristinni trú. Hann er þó, líkt og nafni hans Kristur, kennari.

Sá sem heldur á símtólinu er Jesús Sigfús H. Potenciano – framhaldsskóla- og háskólakennari á áttræðisaldri. Hann er fæddur á Spáni en fluttist til Íslands eftir að hann kynntist Maríu Önnu Kristjánsdóttur, íslenskri eiginkonu sinni. Saman eiga hjónin, sem hafa verið saman í rúm fimmtíu ár, 31 árs gamlan son. Hann heitir Kristján Jesús, en hann er alla jafna kallaður Jesús.

Þrátt fyrir að fyrsti stafurinn í nafni feðganna sé yfirleitt borinn fram með h-hljóði upp á spænsku, bera þeir báðir nafn sitt fram upp á íslenska mátann – með j.

Fólk vildi berja „gripinn“ augum

„Á Spáni er Jesús bara eins og Gunnar eða Daníel. Ekki alveg eins og Jón eða Sigurður, en það er mjög almennt. Ekki bara á Spáni, heldur öllum þessum kaþólsku ríkjum,“ útskýrir Jesús Sigfús.

Það voru því talsverð viðbrigði fyrir hann að koma til Íslands, þar sem hann var lengi vel sá eini sem bar nafnið. „Þegar ég kom hér þá var það ekki til. Ég vann þá í verslun sem tengdafaðir minn átti, Herjólfi í Skipholti 70, og þá kom fólk til að sjá gripinn,“ segir hann og skellir upp úr. Hann segir að fólk hafi verið mjög vinalegt, en forvitið um það af hverju hann væri kominn til að starfa á Íslandi. „Ég sagði bara að ég væri ástfanginn af konu og þyrfti að gera eitthvað,“ segir hann.

Sé flett upp í þjóðskrá má þar sjá að átta manns bera nafnið Jesús að eiginnafni, þar af fjórir að fyrsta nafni. Nafnið hefur þó enn ekki ratað á mannanafnaskrá. „Ég er ekki lengur stjarnan, ég er bara venjulegur maður. Sem er líka gott,“ segir Jesús Sigfús um þessa fjölgun á nöfnum sínum hérlendis og hlær. 

Hjálpar við að brjóta ísinn

Sonurinn Kristján Jesús er, líkt og faðir hans og nafni þeirra frá Nasaret, kennari. Hann kennir þó aðeins yngri aldurshópum. „Ég heiti Jesús, kalla mig Jesú, og allir í kringum mig. Ég er umsjónarkennari í grunnskóla. Ég leyfi nemendum mínum ekki að kalla mig Jesú – en allir vinir mínir kalla mig Jesú.“

Kjósa
19
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Jólin

Alls konar fólk sem þarf aðstoð: „Það getur eitthvað komið fyrir hjá öllum“
FréttirJólin

Alls kon­ar fólk sem þarf að­stoð: „Það get­ur eitt­hvað kom­ið fyr­ir hjá öll­um“

Fjöl­breytt­ur hóp­ur sæk­ir matarað­stoð fyr­ir jól­in en út­lit er fyr­ir að svip­að marg­ir þurfi á slíkri að­stoð að halda í ár og í fyrra, um 4.000 heim­ili ef lit­ið er til að­stoð­ar Hjálp­ar­starfs kirkj­unn­ar og Mæðra­styrksnefnd­ar. Há leiga eða há­ar af­borg­an­ir eru að sliga marga sem þurfa að sækja sér að­stoð.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár