Hverja vilja kjósendur í stjórn?

Þau sem segj­ast ætla að kjósa Sam­fylk­ingu og Við­reisn vilja gjarn­an sjá flokk­ana sam­an í rík­is­stjórn. Báð­ir njóta þeir stuðn­ings meiri­hluta kjós­enda til að taka þátt í næstu stjórn. Mun minni hljóm­grunn­ur virð­ist fyr­ir því að stjórn­ar­flokk­arn­ir haldi áfram í rík­is­stjórn.

Hverja vilja kjósendur í stjórn?
Flókin einföld mynd Til að lesa úr myndinni má rekja línur frá upphafsstað sínum, sem er hjá þeim flokki sem viðkomandi segjist ætla að kjósa, og að þeim flokki sem viðkomandi hópur vill sjá taka sæti í næstu ríkisstjórn. Línurnar enda með örvaroddi. Myndin er unnin upp úr niðurstöðum Maskínu.

Flestir kjósendur vilja sjá Viðreisn í þeirri ríkisstjórn sem tekur við að loknum kosningum. Alls segjast 61 prósent kjósenda styðja flokkinn til ríkisstjórnarþátttöku. Af stuðningsfólki annarra flokka en Viðreisnar sjálfs, eru það þau sem segjast ætla að kjósa Samfylkingu sem helst vilja Viðreisn inn í næstu stjórn. 

Samfylkingin nýtur líka stuðnings meirihluta kjósenda til að taka sæti í næstu ríkisstjórn. Samtals segjast 54 prósent vilja það. Og, þau sem segjast ætla að kjósa Viðreisn vilja helst sjá Samfylkingu með í ríkisstjórninni, eða 64 prósent. 

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Maskína gerði fyrir Heimildina. Þar gafst fólki tækifæri til að svara því hvaða flokka það vildi að tækju sæti í ríkisstjórn. Spurt var: Hverja af eftirtöldum flokkum vilt þú helst hafa í næstu ríkisstjórn? Spurningin var opin og gátu svarendur valið alla þá flokka sem þeim hugnaðist að hafa í næstu stjórn. 

Niðurstöður Maskínu gefa til kynna að það sé takmörkuð eftirspurn eftir því að stjórnarflokkarnir þrír taki sæti á ný í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mestan stuðning til þess, 26,6 prósent kjósenda, en þó ekki nema ögn meiri en Framsóknarflokkur, sem 25,8 prósent kjósenda vilja fá aftur í stjórn. Það vilja ekki nema 10,1 prósent þeirra sem taka afstöðu sjá Vinstri græn í næstu ríkisstjórn. 

Flestir spenntir fyrir Viðreisn

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir því hvað svarendur segjast ætla að kjósa er komin vísbending um hverjir kjósendur vilja að vinni saman. Þar virðist Viðreisn njóta nokkurrar sérstöðu, en af kjósendum þeirra flokka sem eygja von til að ná sæti á þingi eru aldrei færri en 32 prósent sem vilja hafa Viðreisn í nýrri stjórn. 

Það sem sker flokkinn frá Samfylkingu, sem líka nýtur ríks stuðnings kjósenda annarra flokka, er vilji kjósenda hægra megin við miðju til að sjá flokkinn í stjórn. Þannig vilja 46 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks vinna með Viðreisn og 32 prósent kjósenda Miðflokksins. Ekki nema 11 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks vilja hins vegar sjá Samfylkingu í nýrri ríkisstjórn og 17 prósent kjósenda Miðflokksins.

Þá eru kjósendur Framsóknar hrifnari af því að Viðreisn taki sæti í stjórn en Samfylking. 45 prósent Framsóknarkjósenda vilja að Viðreisn sé í stjórn en 37 prósent að Samfylkingin sé það. 

Samfylking  nýtur trausts frá vinstri

Niðurstöður könnunarinnar gefa aftur á móti til kynna að það séu helst þeir kjórsendur sem kjósa á miðjunni eða til vinstri sem hugnast að sjá Samfylkinguna í ríkisstjórn. Spenntastir eru kjósendur Viðreisnar en eins og áður segir vilja 64 prósent þeirra vilja að Samfylking sé hluti af næstu ríkisstjórn. Kjósendur Pírata eru þó aðeins líklegri til að vilja það en 66 prósent þeirra vilja að Samfylkingin sé í stjórn. 

Kjósendur Vinstri grænna eru allra hrifnastir af tilhugsuninni en alls vilja 74 prósent þeirra að Samfylkingin sé í næstu ríkisstjórn. 60 prósent kjósenda Sósíalistaflokksins vilja það líka.

Lægra hlutfall kjósenda allra annarra flokka vilja að Samfylking sé í næstu ríkisstjórn. 39 prósent kjósenda Flokks fólksins nefna Samfylkingu og 37 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Framsóknarflokk. 

Minni spenna fyrir hægrisamstarfi

Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur leitt tvær ríkisstjórnir frá hruni og átt aðild að fleirum, virðist ekki njóta mikillar hylli annarra en eigin stuðningsfólks. Kjósendur Miðflokksins eru líklegastir til að nefna Sjálfstæðisflokk sem einn þeirra flokka sem þeir vilja hafa í næstu ríkisstjórn en það er samt innan við helmingur. 46 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Miðflokkinn vilja að Sjálfstæðisflokkur verði í nýrri stjórn. 

Af stuðningsfólki annarra flokka sem eiga von til að ná sæti, miðað við stöðu kannana, er það Framsóknarfólk sem hefur næstríkustu eftirspurn eftir Sjálfstæðisflokki. Það eru þó aðeins 23 prósent þeirra sem segjast vilja sjá Sjálfstæðisflokk í stjórn á ný. 14 prósent kjósenda Viðreisnar vilja það, 2 prósent kjósenda Samfylkingar og 8 prósent kjósenda Flokks fólksins. 

Svipaða sögu er að segja af eftirspurn eftir ríkisstjórnarþátttöku Miðflokksins. Þar skera sig þó úr stuðningsmenn Lýðræðisflokksins, sem mælist langt frá þingsæti sjálfir. Mjög áþekkt hlutfall kjósenda þess flokks vill sjá Miðflokkinn í stjórn og sinn eigin. Aðeins 72 prósent þeirra sem svöruðu könnun Maskínu fyrir Heimildina og sögðust ætla að kjósa Lýðræðisflokkinn vildu að hann tæki sæti í stjórn en 68 prósent vilja Miðflokkinn.

Það eru aðeins kjósendur Sjálfstæðisflokks sem eru álíka líklegir til að styðja við stjórnarþátttöku Miðflokksins en 64 prósent kjósenda þeirra nefnir Miðflokkinn. Annars eru það kjósendur Flokks fólksins sem eru líklegastir til að vilja sjá Miðflokkinn í stjórn. 33 prósent þeirra kjósenda vilja það. 21 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Framsókn vilja Miðflokkinn í stjórn. 

Enn minni eftirspurn eftir öðrum

Framsóknarflokkurinn virðist ekki eiga mikinn stuðning að sækja utan síns eigin kjósendahóps. Það eru helst kjósendur Sjálfstæðisflokks, 30 prósent, sem vilja sjá Framsókn halda áfram ríkisstjórnarþátttöku og kjósendur Vinstri grænna. 29 prósent þeirra nefna Framsóknarflokkinn í könnuninni. 24 prósent kjósenda Viðreisnar gera það líka og 22 prósent Samfylkingarkjósenda. 19 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Miðflokkinn. 

Enn minni stuðningur er við áframhaldandi stjórnarþátttöku Vinstri grænna. Það er til að mynda ekki nema 92 prósent stuðningur á meðal kjósenda flokksins sjálfs sem vilja að hann taki þátt í ríkisstjórn. Eru því, með öðrum orðum, líklega að kjósa hann til að veita næstu ríkisstjórn andstöðu. Það eru þó 24 prósent Pírata sem nefna Vinstri græna í könnuninni, 20 prósent kjósenda Sósíalistaflokksins og 16 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Samfylkingu.

Stuðningur úr röðum kjósenda annarra flokka er hverfandi en athygli vekur í niðurstöðunum að ekki nema 2 prósent kjósenda sem segjast munu kjósa Sjálfstæðisflokk nefna Vinstri græn. Á móti kemur að enginn þeirra sem segjast kjósa Vinstri græn vill að Sjálfstæðisflokkur sé við völd áfram. 

Þrír sem reka lestina

Þrír flokkar, sem aldrei hafa átt aðild að ríkisstjórn, mælast annaðhvort inni á þingi eða í seilingarfjarlægð. Það eru Flokkur fólksins, Píratar og Sósíalistaflokkurinn. Stuðningur við ríkisstjórnarþátttöku þeirra þriggja nær þó ekki langt út fyrir raðir eigin kjósenda. 

Kjósendur Miðflokksins eru líklegastir til að vilja sjá Flokk fólksins taka sæti í næstu ríkisstjórn, eða 29 prósent. Samfylkingarkjósendur eru næstir en 19 prósent þeirra nefna flokkinn en 15 prósent bæði kjósenda Pírata og Viðreisnar gera það einnig. Ekki nema 11 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja sjá Flokk fólksins í stjórn. 

Píratar njóta helst stuðnings kjósenda Sósíalistaflokksins. 42 prósent þeirra nefna Pírata í könnuninni. Það gera 25 prósent kjósenda Samfylkingar líka og 28 prósent kjósenda Vinstri grænna. Sósíalistar njóta að sama skapi helst stuðnings Pírata, utan eigin raða, og segjast 47 prósent kjósenda þeirra vilja Sósíalista í stjórn. Það segja 30 prósent kjósenda Vinstri grænna líka og 16 prósent Samfylkingarfólks. 

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Alþingiskosningar 2024

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu