Taylor Swift fékk nóg af djúpfölsun Trump

Tayl­or Swift styð­ur Kamölu Harris í fram­boði til for­seta Banda­ríkj­anna. Hún fann sig knúna til að birta stuðn­ings­yf­ir­lýs­ingu eft­ir að Don­ald Trump birti djúp­fals­að­ar mynd­ir, bún­ar til af gervi­greind, sem sýndu að­dá­end­ur henn­ar styðja Trump. Sjálf­ur seg­ist Trump aldrei hafa ver­ið að­dá­andi Swift.

Falsaðar myndir, gerðar af gervigreind, sem sýna aðdáendur Taylor Swift, eina frægustu poppstjörnu samtímans, styðja Donald Trump, urðu til þess að söngkonan ákvað að stíga fram og styðja Kamölu Harris, frambjóðanda Demókrataflokksins, opinberlega í framboði til forseta Bandaríkjanna. 

Í lok ágúst birti Trump myndir á samfélagsmiðlinum Truth Social, sem hann stofnaði sjálfur, af aðdáendum Taylor Swift í bolum með áletruninni: „Swifties for Trump“, en Swifties eru það sem aðdáendur söngkonunnar kalla sig. „Ég samþykki!“ skrifaði Trump og birti nokkrar myndir sem sýna Swifties sem styðja Trump. 

DjúpfölsunDonald Trump birti myndirnar, sem gerðar eru af gervigreind, á eigin samfélagsmiðli, Truth Social. Sjálfur segist hann þó aldrei hafa verið hrifin af Swift.

Það virðist hafa verið kornið sem fyllti mælinn hjá Swift. Rétt eftir að kappræðum forsetaframbjóðendanna í Fíladelfíu lauk á þriðjudagskvöld birti hún opinbera stuðningsyfirlýsingu við framboð Harris. Stuðningsyfirlýsingin kemur ekki á óvart, Swift studdi Joe Biden fyrir kosningarnar 2020. 

En Trump tókst það sem engum öðrum tókst að gera: Að pirra Swift nógu mikið til að segja eitthvað um forsetakosningarnar, og það á degi sem hafði reynst honum krefjandi. Harris og Trump hittust í fyrsta sinn í kappræðunum, ótrúlegt en satt. Harris tókst að slá Trump út af laginu í kappræðunum og stjórnmálaskýrendur eru flestir sammála um að Harris hafi ögrað Trump, lagt fyrir hann gildrur sem hann gekk nánast undantekningarlaust í.   

Sannleikurinn svarið við upplýsingaóreiðu

Swift birti færslu á Instagram rétt eftir að kappræðunum lauk. Birting myndanna á Truth Social gerðu Swift ljóst að hún þyrfti að gera eitthvað. Myndirnar afhjúpuðu ótta hennar við gervigreindina svart á hvítu og gerðu henni ljóst að hún verður að vera opinská um hvernig hún ætlar að nýta kosningaréttinn. „Auðveldasta leiðin til að sigrast á upplýsingaóreiðu er sannleikurinn,“ skrifar Swift í stuðningsyfirlýsingu sinni við framboð Harris á Instagram. 

Barnlausa kattakonan

„Ég kýs Kamölu Harris af því að hún berst fyrir réttindum og málstöðum sem ég trúi að þurfa baráttumann til að verja,“ segir Swift í yfirlýsingunni. Undirritunin vakti töluverða athygli: Taylor Swift, barnlaus kisukona, en köttur prýðir myndina ásamt Swift sem hún birti með yfirlýsingunni. Swift var ekki aðeins að skjóta á Trump heldur nýtti tækifærið og beindi sjónum sínum einnig að JD Vance, varaforsetaefni Trump, sem hefur kallað þingmenn Demókrataflokksins „barnlausar kattakonur sem líður ömurlega með ákvarðanir sínar í lífinu og vilja að löndum þeirra líði líka ömurlega“. 

Trump var ekki lengi að bregðast við stuðningsyfirlýsingunni. „Ég hef aldrei verið aðdáandi Taylor Swift. Hún er mjög frjálslynd manneskja. Það er eins og hún styðji alltaf demókrata, og hún mun líklega gjalda fyrir það í viðskiptaheiminum,“ sagði Trump. 

Swifties virðast ætla að svara kallinu, en yfir 337 þúsund smelltu á tengil sem Swift birti í stuðningsyfirlýsingu sinni sem leiddi á síðuna vote.gov þar sem kjósendur geta skráð sig til að greiða atkvæði í forsetakosningunum 5. nóvember. 

Kamala-tímabilið?Auglýsing sem birtist skömmu eftir að Taylor Swift birti stuðningsyflýsingu sína. Tónleikaferðalag Swift nefnist The Era's Tour og nú er spurning hvort komið sé að Kamala Era?

Stuðningur fræga fólksins við frambjóðendur (e. celebrity endorsement) getur verið tvíeggja sverð. Slíkur stuðningur getur haft áhrif á óákveðna kjósendur, ekki síst yngri kjósendur sem eru virkir á samfélagsmiðlum. Vettvangur Swift er gríðarstór, á því leikur enginn vafi, hún er til að mynda með 284 milljón fylgjendur á Instagram og bættust nokkur hundruð þúsund við eftir að hún birti stuðningsyfirlýsinguna.  

Frægðarsól Swift heldur áfram að rísa eftir magnaða endurkomu. Ár­ið 2016 var Swift nefnilega slauf­að fyr­ir að vera drama­tískt fórn­ar­lamb. Síð­an þá hef­ur hún gef­ið út sjö plöt­ur og tón­leika­ferða­lag­ið henn­ar, The Era's Tour, verð­ur að öll­um lík­ind­um tekju­hæsta tón­leika­ferða­lag allra tíma. Í vikunni bætt hún enn við afrekaskrána þegar hún vann til sjö verðlauna á Video Music Awards (VMA), MTV-verðlaunahátíðinni. Enginn sólótónlistarmaður hefur unnið til jafn margra verðlauna á hátíðinni og Swift, sem sló met Beyoncé á miðvikudagskvöldið. 

Nú kemur í ljós hvort Swift muni láta stuðningsyfirlýsinguna duga eða hvort hún muni taka virkan þátt í kosningabaráttu frambjóðanda Demókrataflokksins. Harris er klár í að mæta Trump að nýju en hann hefur nú gefið það út að hann hefur engan áhuga á að mæta Harris aftur fyrir kjördag. Trump og líkti henni við hnefaleikakappa sem tapar bardaga og heimti um leið að mætast aftur. „Skoðanakannanir sýndu greinilega að ég vann kappræðurnar gegn félaga Kamölu Harris,“ sagði Trump á eigin samfélagsmiðli. Harris segir aftur á móti að kjósendur eiga það skilið að sjá þau mætist aftur fyrir kjördag. 

Forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram 5. nóvember, eftir 51 dag.

Kjósa
18
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu