Bæjarstjórn Árborgar skoraði á miðvikudag á Vegagerðina og ríkisstjórnina að ljúka samningum um nýja Ölfusárbrú og tryggja fjármögnun án tafar. Í bókun á fundi ráðsins segir áríðandi að ráðist sé í gerð brúarinnar því þjóðvegurinn í gegnum Selfoss anni ekki núverandi umferð.
„Langar raðir liggja daglega upp að hringtorgi við Biskupstungnabraut og meðfram Austurvegi þar sem umferð er á leið í vesturátt,“ segir í bókuninni.
„Ný Ölfusárbrú bætir umferðarflæði og umferðaröryggi í og við Selfoss. Gera má ráð fyrir að uppbygging nýrrar brúar taki um þrjú ár og því er nauðsynlegt að framkvæmdir hefjist í haust.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra og þáverandi samgönguráðherra, lofaði því fyrir síðustu þingkosningar að framkvæmdum við brúna yrði lokið annaðhvort í lok árs 2023 eða á árinu 2024. Það hefur ekki gengið eftir.
Stefna á að framkvæmdum ljúki 2027
Í svari innviðaráðuneytisins við fyrirspurn Heimildarinnar um stöðuna á Ölfusárbrú segir að útboði vegna framkvæmda við hana sé lokið.
„Vinna við frágang samninga vegna framkvæmda og fjármögnunar er yfirstandandi. Búast má við því að þeirri vinnu ljúki innan skamms,“ segir í svarinu. Þar kemur jafnframt fram að framkvæmdir við brúna verði fjármagnaðar sem samvinnuverkefni, á grunni laga um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir. Stefnan er að framkvæmdum ljúki haustið 2027.
Umferð á hringveginum á Suðurlandi jókst um 3,4% á milli ágústmánaða síðasta árs og ársins í fyrra. Hún jókst um 10,7% á milli ágústmánaða 2022 og 2023. Stór hluti þeirra sem keyra hringveginn á Suðurlandi fer um Ölfusárbrú.
Athugasemdir