Flestir urðu varir við hvers konar vandamál ÍL-sjóður er fyrir Ísland þegar Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, hélt blaðamannafund í október 2022. Þar útlistaði hann að þessi sjóður, sem er afleiðing af afleitum pólitískum ákvörðunum sem teknar voru fyrir tveimur áratugum, væri einhvers konar efnahagsleg kjarnorkusprengja sem þyrfti að aftengja. Hugmynd Bjarna var að knýja kröfuhafa sjóðsins, sem að uppistöðu eru íslenskir lífeyrissjóðir, til að semja um slit hans. Ef þeir væru ekki til í það ætlaði hann að knýja fram slík slit með lagasetningu fyrir árslok 2022. Með þessu ætlaði Bjarni að tryggja að tap ríkissjóðs af tilvist hans yrði „aðeins“ 47 milljarðar króna í stað þess að verða 200 milljarðar króna, sem væri staðan ef ekkert yrði að gert.
Rúmlega eitt og hálft ár er liðið síðan Bjarni hélt þennan blaðamannafund. Ekkert samkomulag er í hendi við kröfuhafa ÍL-sjóðs og lagasetning sem getur undirbyggt slit hans er enn í þinglegum meðförum. Ágreiningur er uppi um hvort hún standist stjórnarskrá og lífeyrissjóðirnir hafa metið tap sitt af því að þiggja leiðirnar sem í boði voru á um 100 milljarða króna.
ÍL-sjóður birti ársreikning sinn nýlega. Þar kemur fram að staðan hefur versnað gríðarlega á síðustu mánuðum. Ef sjóðurinn yrði gerður upp miðað við stöðu hans um síðustu áramót myndi kostnaður ríkissjóðs, og þar af leiðandi almennings í landinu, vegna skulda sjóðsins vera 88 milljarðar króna. Kostnaðurinn jókst um 41 milljarð króna á rúmum fjórtán mánuðum. Það gera hátt í þrjá milljarða króna á mánuði. Í uppgjörinu segir enn fremur að gera megi ráð fyrir því að kostnaður við uppgjör á ríkisábyrgð aukist um 1,5 milljarða króna með hverjum mánuði sem líður. Ljóst má vera á þróun síðustu mánaða að sú tala er verulega varlega áætluð.
Það þýðir að kostnaðurinn um mitt þetta ár verður að minnsta kosti kominn upp í það sem ríkissjóður er að áætla að hann fái fyrir eftirstandandi hlut sinn í Íslandsbanka, um 100 milljarða króna. Það væri hægt að byggja þjóðarhöll á tíu mánaða fresti fyrir þann kostnaðarauka sem fellur til mánaðarlega vegna þessarar skuldar. Kostnaðurinn sem þegar liggur fyrir að falli á ríkissjóð um síðustu áramót er meiri en þeir 83 milljarðar króna sem hið opinbera skuldbatt sig til að leggja fram á fjórum árum í margháttaðar aðgerðir til að tryggja langtímakjarasamninga fyrr á árinu. Hægt er að halda áfram endalaust.
Gylliboð fyrir atkvæði
Til að skilja hvernig ríkið kom sér í þennan vanda þarf að fara aftur í tímann og skoða upphafið. Árið er 2003. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa setið saman samfleytt í ríkisstjórn í átta ár. Líkt og vani er fyrir í íslenskri stjórnmálasögu þá leið samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokks töluvert fyrir stjórnarsamstarfið. Samkvæmt könnunum í byrjun kosningaárs leit út fyrir að Framsókn myndi fá lélegustu kosningu sína í sögu flokksins og staða flokksins var sérstaklega veik á höfuðborgarsvæðinu. Og líkt og vani er fyrir þá brást Framsóknarflokkurinn við með því að pakka inn einföldum gylliboðum til afmarkaðs hóps kjósenda til að tryggja sér fylgissveiflu áður en gengið var til kosninga. Það hefur hann síðar gert árið 2013 með því að bjóða hluta landsmanna rúmlega 70 milljarða króna skaðabætur fyrir það að hafa verið með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009 undir hatti Leiðréttingarinnar. Það gerði hann fyrir kosningarnar 2016 með því að lofa svokölluðum svissneskum vaxtalausum lífeyrissjóðslánum sem lausn á húsnæðisvandanum. Það gerði hann fyrir síðustu kosningar með því að lofa kvikmyndageiranum gríðarlegum hækkunum á endurgreiðslum á kostnaði, sem skiluðu aðallega því að erlendir framleiðendur fjórðu þáttaraðar af True Detective fengu fjögurra milljarða króna greiðslu úr ríkissjóði fyrir að taka hana upp á Íslandi.
„Ef sjóðurinn yrði gerður upp miðað við stöðu hans um síðustu áramót myndi kostnaður ríkissjóðs, og þar af leiðandi almennings í landinu, vegna skulda sjóðsins vera 88 milljarðar króna“
Það sem Framsókn bauð upp á árið 2003 var loforð um að veita fólki 90 prósent lán til húsnæðiskaupa. Það ætlaði flokkurinn að gera með því að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs í áföngum upp í áðurnefnt hlutfall af kaupverði venjulegs íbúðarhúsnæðis. Í skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð, sem birt var sumarið 2013, var haft eftir Páli Péturssyni, fyrrverandi félagsmálaráðherra Framsóknarflokks, að hugmyndin hefði ekkert verið rædd innan flokksins fyrr en rétt fyrir kosningar og það hefði verið „einkennilegt hvað [hún] fæddist snarlega“.
Í auglýsingu sem birtist á baksíðu Fréttablaðsins, þá mest lesna dagblaðs landsins en nú minningin ein, í vikunni fyrir kosningarnar sagði að þetta teldu framsóknarmenn mögulegt „vegna þeirra breytinga sem við höfum hrint í framkvæmd á íslenskum fjármálamarkaði á síðasta kjörtímabili. Þær breytingar gera okkur nú kleift að búa til enn skilvirkara og neytendavænna íbúðalánakerfi um leið og lagður er grunnur að stöðugleika til lengri tíma.“
Samhliða voru keyrðar skondnar sjónvarpsauglýsingar sem sýndu nauðsyn þess að foreldrar losnuðu við stálpuð börn sín út af heimilum sínum og út á íbúðamarkaðinn, öllum hlutaðeigandi til heilla.
Ríkið í ábyrgð fyrir veislunni
Stjórnarsamstarfið var endurnýjað og árið 2004 var útlánum og fjármögnun Íbúðalánasjóðs breytt til að hægt yrði að standa við 90 prósent íbúðalána-loforðs Framsóknar. Húsbréfakerfið var lagt niður og þess í stað var íbúðalánakerfið með beinum peningalánum tekið upp. Hámarkslánsfjárhæð var hækkuð og veðhlutfall lána hækkað úr 65 í 90 prósent.
Til að fjármagna þetta voru gefnir út skuldabréfaflokkar sem voru með tíu, tuttugu, þrjátíu og fjörutíu ára líftíma. Sá lengsti er með síðasta gjalddaga árið 2044. Höfuðstóll lánanna var verðtryggður og vextir fastir 3,75 prósent. Ríkisábyrgð var á útgáfunni, sem þýðir að ríkissjóður skuldbindur sig til að borga skuld Íbúðalánasjóðs ef hann getur það ekki sjálfur. Fyrir vikið fengu skuldabréfaflokkarnir sömu lánshæfiseinkunn og íslenska ríkið, þá hæstu sem hægt var að fá.
Lykilatriði í þessu fyrirkomulagi var að Íbúðalánasjóður gat ekki greitt upp skuldabréfin áður en þau komu á gjalddaga. Hann skuldbatt sig til að greiða af þeim út líftíma þeirra. Þeir sem tóku lán hjá Íbúðalánasjóði, sem fjármögnuð voru með útgáfu skuldabréfaflokkanna, gátu hins vegar greitt þau upp og fært lánin sín annað ef hagstæðari kostur bauðst. Þá sat Íbúðalánasjóður eftir með það að þurfa að greiða niður lánin sem höfðu verið tekin til að fjármagna íbúðalán viðkomandi, en án vaxtatekna til að standa undir þeim greiðslum.
Það var auðvitað það sem gerðist. Íslensku bankarnir fóru í samkeppni við Íbúðalánasjóð og fóru að bjóða upp á allt að 100 prósent lán, betri vaxtakjör og hærri lán. Fólk flúði með fótunum inn í þau gylliboð og Íbúðalánasjóður sat uppi með Svarta Pétur: fullt af peningum sem hann hafði tekið að láni og þurfti að borga vexti af, en sífellt færri vildu fá þá lánaða.
Talið niður í sprengingu
Á árunum 2010 til 2016 voru um 110 milljarðar króna á verðlagi dagsins í dag teknir úr ríkissjóði og settir inn í Íbúðalánasjóð svo hann færi ekki í þrot. Þeir peningar, og ýmiss konar þvingunaraðgerðir gagnvart erlendum eigendum íbúðabréfa sem voru látnir með valdi selja bréf með afföllum, dugðu skammt til að koma skikki á þessa efnahagslegu kjarnorkusprengju. Árið 2019 var loks ákveðið að grípa til aðgerða og Íbúðalánasjóði var skipt upp. Verkefni stofnunarinnar og lánveitingar til íbúðarhúsnæðis, sem skilgreind voru eingöngu á félagslegum forsendum, voru flutt í nýja stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Skuldabréfaflokkarnir og vandamálin voru skilin eftir í sjóði sem fékk nafnið ÍL-sjóður. Eigið fé hans við stofnun var neikvætt um 180 milljarða króna.
„Þetta lán hefur hækkað mikið á síðustu mánuðum, enda verðbólga verið svimandi há, og höfuðstóll skuldar ríkissjóðs við ÍL-sjóð stendur nú í 233 milljörðum króna“
Tilgangurinn var að takast á við þann vanda sem blasti við og að reyna að lágmarka skaðann sem af gæti hlotist. En svo skall á heimsfaraldur. Í stað þess að tækla vandann notuðu stjórnvöld ÍL-sjóð sem ódýrasta banka sem þau gátu fundið til að fjármagna gríðarlegan hallarekstur. Ákveðið var að taka tvö lán, samtals upp á 190 milljarða króna, á mjög lágum – 0,52 til 0,87 prósent – en verðtryggðum vöxtum. Nær útilokað er að ríkissjóður hafi getað fengið svona hátt lán á svo lágri kröfu ef lánveitandinn væri ekki sjóður sem sama fjármála- og efnahagsráðuneytið sem tók lánið stýrir.
Þetta lán hefur hækkað mikið á síðustu mánuðum, enda verðbólga verið svimandi há, og höfuðstóll skuldar ríkissjóðs við ÍL-sjóð stendur nú í 233 milljörðum króna. Þessi tvö lán eru 14,5 prósent af öllum skuldum ríkissjóðs.
Skuldar 254 milljarða umfram eignir
ÍL-sjóður tapaði 23,5 milljörðum króna á síðasta ári og 34 milljörðum króna árið áður. Eigið féð er neikvætt um 254 milljarða króna, sem er 74 milljörðum krónum verri staða en var við stofnun. Um er að ræða langstærstu einstöku áhættu ríkissjóðs enda er núvirt tap hans út líftíma skulda um 200 milljarðar króna á núvirði, og þar af eru, líkt og áður sagði, 88 milljarðar króna þegar komnir fram.
Ofan á þetta bætist vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna þeirra peninga sem hann tók að láni hjá ÍL-sjóði til að borga fyrir kórónuveiruaðgerðirnar. Þegar lánin voru tekið stóð til að borga bara vexti næstu árin og létta þannig þær byrðar. Það breyttist hins vegar á síðustu tveimur árum þegar ljóst var að lántakendur, sem höfðu borgað upp lán sín hjá ÍL-sjóði í unnvörpum og fært sig til annarra lánveitenda þegar vextir voru lágir, hættu því skyndilega. Verðtryggðu Íbúðalánasjóðslánin voru þá ekkert lengur svo slæmur kostur, að minnsta kosti þegar horft var á mánaðarlega greiðslubyrði. Því er gert ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að fara að borga lánið til baka strax í ár og að hann þurfi að borga á bilinu fimm til tíu milljarða króna á ári vegna þessa.
Þrátt fyrir þetta mun ÍL-sjóður ekki eiga laust fé nema út árið 2034 að óbreyttu til að borga af skuldum sínum, semjist ekki um einhverja aðra leið. Klukkan á sprengjunni tifar því áfram. Í nýlega birtri fjármálaáætlun er því lýst ágætlega hversu alvarleg staðan er. Þar segir að „hvernig sem úr leysist með ÍL-sjóð virðist einsýnt að hann mun kosta ríkissjóð verulega fjármuni. Í ljósi þeirrar óvissu sem enn ríkir um uppgjörið er ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði í þessari fjármálaáætlun.“
Meltið það aðeins.
Vegferð sem varð þjóðinni dýrkeypt
Margt skynsamt fólk og stofnanir vöruðu við að þetta gæti gerst áður en frumvarp sem lögfesti þessa ógæfu var samþykkt á Alþingi. Þeirra á meðal var Seðlabanki Íslands. Nú er þessi skuld 88 prósent af þeim ábyrgðum sem hvíla á ríkissjóði. Hún er falin í fjárlögum og fjármálaáætlunum þar sem skuldin er ekki talin með þegar ríkissjóður reiknar út skuldir sínar í samræmi við skuldareglu. Ef henni er bætt við hækkar skuldahlutfallið umtalsvert og ríkissjóður verður enn lengra frá því að ná lögbundnum markmiðum sínum í skuldamálum.
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um slit ógjaldfærra aðila. Það er klætt í almennan búning en allir sem vilja vita skilja að það snýst aðeins og einvörðungu um ÍL-sjóð. Enn er verið að reyna að semja við lífeyrissjóði um einhvers konar lendingu á málinu sem dregur úr sársaukanum. Hvernig sem fer þá mun fólkið í landinu þurfa að borga. Það gerist annaðhvort í gegnum tap ríkissjóðs eða í gegnum tap lífeyrissjóða, í eigu sama almennings. Þeir sem trúa því að til sé töfraleið sem tryggi að allir vinni þurfa að leggja frá sér flöskuna og sættast við raunveruleikann.
Ákvörðunin um að láta Íbúðalánasjóð bjóða upp á hærri lán og 90 prósent veðhlutfall leysti líka ekki vandann sem lofað var að leysa, heldur gerði hann verri. Hún blés upp bólu sem ekki hefur tekist að vinda af afleiðingunum af tveimur áratugum síðar. Sennilega hefur sjaldan eða aldrei verið jafn erfitt fyrir ungt fólk sem á ekki efnað bakland að komast að heiman. Eftirspurn er miklu meiri en framboð hvort sem er eftir húsnæði til að kaupa eða leigja, það vantar þúsundir íbúða umfram það sem er í boði, veðsetningarhlutfall hefur verið lækkað og vegna gríðarlegra hækkana á verði er útborgun orðin það há að um nær ókleifan múr er að ræða fyrir marga. Fyrir tveimur árum, þegar Seðlabankinn var að bregðast við ofþenslunni í kerfinu með því að beita stýritækjum sínum, lýsti seðlabankastjóri afleiðingunum skýrt. Hann sagði að aðgerðirnar myndu „fela kannski í sér að foreldrar þurfi að vera með börnin lengur heima eða eitthvað álíka“.
Ofangreint er allt ágætis áminning um hvers konar áhrif pólitísk gylliboð, hönnuð ábyrgðarlaust til skamms tíma til að næla í atkvæði svo flokkar geti haldið í völd, geta haft hörmuleg áhrif áratugi fram í tímann.
Það hefur hvergi verið betur orðað en í áðurnefndri skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð. Þar sagði einfaldlega: „Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.“
Var ekki einhver sjóður sem er upphaf og leifar af þessu – tæmdur af núverandi forsætisráðherra, vegna ætlaðs COVID vanda, til þeirra sem …..???
1. Eftir að hugmyndin var kynnd hrundi fasteignamarkaðurinn í nokkra mánuði eða þangað til nýtt greisluhlutfall tók gildi. Væntanlegar kaupendur biðu. Fólk sem var búið að kaupa nýja fasteign gat ekki selt sína gamla og var í mikilli óvissu.
2. En eftir gildistöku nýs lánshlutfalls varð sprenging, allir vildu kaupa og fasteignaverðið rauk upp í óþekktar hæðir, ég giska á að sumir sem áður áttu ekki fyrir 40% útborgun (eða 25% við fyrstu kaupin) áttu núna jafn erfitt með 10% (athugið að lánshlutfall miðast ekki við raunverulegt kaupverð heldur fasteignamatið sem sérstaklega í þá daga var verulega vanmetið).
Þeir einu sem græddu verulega á þessari bólu voru fólk sem minnkaðu við sig eða þá erfðingjar sem áttu fasteign sem þeir áttu ekki þörf fyrir og gátu því selt.