Stefnir í að Bjarni Benediktsson verði næsti forsætisráðherra

Stefnir í að Bjarni Benediktsson verði næsti forsætisráðherra

Að óbreyttu mun Bjarni Bene­dikts­son verða for­sæt­is­ráð­herra á ný í dag eða á morg­un. Hann er sá ráð­herra sem fæst­ir treysta og lang­flest­ir vantreysta sam­kvæmt mæl­ing­um. Stjórn­ar­flokk­arn­ir eru að end­ur­nýja sam­starf sitt í mik­illi brekku. Sam­eig­in­legt fylgi þeirra hef­ur aldrei mælst minna.

Samkvæmt Morgunblaðinu í dag bendir allt til þess að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verði næsti forsætisráðherra Íslands. Blaðið, sem er nátengt Sjálfstæðisflokknum, segir enn fremur að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, muni færa sig yfir í fjármála- og efnahagsráðuneytið og að Svandís Svavarsdóttir verði næsti innviðaráðherra. Inn í ríkisstjórnina muni koma nýr ráðherra úr röðum Vinstri grænna til að taka við matvælaráðuneytinu sem Svandís stýrði áður. 

Með þessum hætti verði brugðist við brotthvarfi Katrínar Jakobsdóttur úr ríkisstjórninni, en hún baðst lausnar úr embætti á sunnudag eftir að hafa tilkynnt framboð til forseta Íslands. Katrín hefur sömuleiðis sagt af sér þingmennsku og formennsku í Vinstri grænum. Við formannshlutverkinu þar tók Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Hann og Svandís hafa komið að viðræðum um nýja skipan ríkisstjórnar ásamt formönnum og varaformönnum hinna stjórnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, síðustu daga. 

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði í gærkvöldi og ræddi áframhaldandi stjórnarsamstarf á þessum forsendum. Gangi það eftir, að formaður þess flokks verði gerður að forsætisráðherra að nýju tæpum sjö árum eftir að hann gegndi því því starfi um nokkurra mánaða skeið síðast, þá munu þingmenn Sjálfstæðisflokks ekki styðja vantrauststillögu á Svandísi Svavarsdóttur vegna lögbrota hennar í tengslum við frestun hvalveiða sem þegar hefur verið dreift í þinginu. 

Þingflokkar bæði Vinstri grænna og Framsóknarflokks eiga hins vegar eftir að funda um, og samþykkja, nýja ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Þeir funda fyrir hádegi í dag. Verði uppleggið samþykkt er búist við því að Bjarni taki við völdum í stjórnarráðinu í síðasta lagi á morgun, miðvikudag.

Spiluðu leikinn og bjuggu til stöðu

Þeir sem sitja við stjórnarmyndunarborðið hafa haldið spilunum mjög nálægt sér síðustu daga, en óformlegar viðræður um áframhaldandi stjórnarsamstarf hófust í síðustu viku, áður en Katrín Jakobsdóttir tilkynnti um forsetaframboð. Yfir helgina var svo mikil stöðubarátta sem einkenndist af skeytasendingum milli þingmanna úr stjórnarflokkunum í fjölmiðlum sem sitja ekki í ríkisstjórninni. Þannig sagði Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, í Pressu á föstudag að stjórnin hefði afar traustan meirihluta, 38 þingmenn, og að hún hefði unnið að mjög góðum málum. „Ég sé ekki nein teikn um annað en að við getum haldið áfram að starfa saman í góðu trausti.“ Ekki þyrfti að gera sérstakan sáttmála um áframhaldandi vinnu þessara þriggja flokka sem að í dag sitja í ríkisstjórn þó svo að það verði skipt yrði forsætisráðherra. 

Á svipuðum tíma var Jón Gunnarsson, náinn samstarfsmaður Bjarna Benediktssonar úr kjördæmi hans sem fékk ráðherrastól fyrr á þessu kjörtímabili þrátt fyrir að vera ekki oddviti síns kjördæmis, í viðtali við Spursmál á mbl.is, þar sem hann lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að verja Svandísi Svavarsdóttur vantrausti og talaði fyrir því að gengið yrði til kosninga. 

Bjarni fór svo sjálfur í viðtal á RÚV þar sem hann sagði brotthvarf Katrínar hafi markað „meiriháttar vatnaskil“ í stjórnarsamstarfinu sem myndi kalla á samtal um framhaldið.

Viðmælendur Heimildarinnar úr hópi þingmanna túlka þessa atburðarás þannig að Sjálfstæðisflokkurinn, og Bjarni, hafi einfaldlega farið í að búa sér til pólitíska stöðu á sama tíma og samstarfsflokkar hans í ríkisstjórninni hafi beðið eftir því að sjá hvað myndi gerast. 

Það virðist hafa skilað því að nú sé formaður flokksins á leiðinni í forsætisráðherrastólinn. 

Allir í brekku

Staða nýrrar ríkisstjórnarinnar, gangi það eftir að hún verði sett á flot, verður þó erfið. Stjórnarflokkarnir mældust einungis með 31,1 prósent sameiginlegt fylgi í síðustu könnun Gallup, sem birt var í síðustu viku. Það er minnsta sameiginlega fylgi sem þeir hafa mælst með frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð seint á árinu 2017, 2,3 prósentustigum minna fylgi en flokkarnir þrír mældust með fyrir mánuði og 23,3 prósentustigum minna en í síðustu kosningum. 

Í framboðKatrín Jakobsdóttir bauð sig fram til forseta á föstudag. Fyrsta könnun sem gerð var eftir það bendir til þess að sigurlíkur hennar séu umtalsverðar. Hún mældist með mest fylgi allra frambjóðenda, en um þriðjungur þeirra sem tók afstöðu ætlar sér að kjósa hana.

Vinstri grænna mældust með einungis 5,6 prósent. Það myndi skila flokknum þremur þingmönnum samkvæmt útreikningum Gallup sem er þremur fleiri en Vinstri græn mældust með í lok febrúar þegar stuðningur við flokkinn fór undir fimm prósent í fyrsta sinn frá því að fyrirtækið hóf að mæla fylgi hans. 

Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með rétt yfir 18 prósent fylgi í þriðja sinn á fjórum mánuðum í könnunum Gallup og missir 1,7 prósentustig frá síðustu mælingu sem skilar honum í 18,2 prósent fylgi. Það myndi þýða að þingmönnum flokksins myndi fækka úr 17 í tólf. 

Framsóknarflokkurinn fékk sína verstu mælingu síðan í september 2020 og nýtur nú stuðnings 7,3 prósent kjósenda, sem myndi skila honum fjórum þingmönnum, eða níu færri en settust á þing fyrir hann eftir kosningarnar 2021 þar sem flokkurinn vann stórsigur með 17,3 prósent atkvæða. 

Sá vinsælasti út, sá óvinsælasti inn

Bjarni Benediktsson sagði af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra í byrjun október. Ástæðan var niðurstaða umboðsmanns Alþingis um að Bjarni hefði verið vanhæfur til að taka ákvörðun um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka til félags í eigu föður hans í mars 2022. 

Bjarni hafði þá setið sem fjármála- og efnahagsráðherra meira og minna í áratug, með stuttu stoppi í forsætisráðuneytinu árið 2017. Sú ríkisstjórn sem hann leiddi, og var kennd við hann, sprakk í september það ár vegna uppreist æru-málsins, sem snerist um að faðir Bjarna hafði skrifað upp á meðmæli fyrir dæmdan barnaníðing. Bjarni fékk upplýsingar um það mörgum mánuðum áður en þær urðu opinberar, en aðstandendur og fórnarlömb dæmdra manna sem hlotið höfðu uppreist æru höfðu þá barist fyrir því að upplýsingarnar um hverjir það væru sem mæltu með þeim yrðu gerðar opinberar.

Í desember í fyrra greindi Heimildin frá niðurstöðum könnunar Maskínu um um traust á ráðherrum. Þar kom fram að þrír af hverjum fjórum aðspurðum, 75 prósent, sögðust vantreysta Bjarna sem ráðherra. Einungis 17 prósent sögðust bera mikið traust til hans. 

Bjarni var sá ráðherra sem langflestir treystu lítið og sá ráðherra sem fæstir treystu vel. Katrín Jakobsdóttir, sem brátt hættir sem forsætisráðherra, var hins vegar sá ráðherra sem flestir treystu vel. 

Bjarni hefur þó margsinnis gefið það út opinberlega að hann skeyti litlu um niðurstöðu kannana. Einu mælingarnar sem skipti hann máli séu þær sem komi upp úr kjörkössunum. Takist að halda ríkisstjórninni saman mun næst verða talið upp úr þeim á næsta ári.

Kjósa
23
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (4)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Grétar Reynisson skrifaði
    „Katrín Jakobsdóttir, sem brátt hættir sem forsætisráðherra, var hins vegar sá ráðherra sem flestir treystu vel” ! ! ! ! Hversvegna í andskotanum ? ? ?
    Fólk sér það kannski núna hversu vel traustsins hún var verð. Eða ekki 🙄
    0
  • BGH
    Bardur G Halldorsson skrifaði
    Lifi spillingin - hún lengi lifi.
    2
  • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
    Óvinsælasti ráðherrann heldur áfram eins og ekkert sé , í þökk allra.
    1
  • MSB
    Margrét S. Björnsdóttir skrifaði
    Glæsileg arfleifð Katrínar Jakobsdóttur.
    3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár